Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ráðherra eða sölumaður?

Ráðherra eða sölumaður?

Misnotkun á embætti?

Fyrrum heilbrigðisráðherra, núverandi menntamálaráðherra er að auglýsa tæki sem eiginkona náins samstarfsaðila er að selja. Boditrax er tæki til að mæla vöðvamassa og fitu segir í fréttatilkynningu frá Ágústu Johnson, eiginkonu Guðlaugs Þórs, utanríkisráðherra, sem Smartland birtir.

Það má vel vera að Boditrax sé ágætt tæki til að mæla árangur af líkamsrækt, þetta snýst ekki um vöruna, heldur hvort opinberir embættismenn eigi að nýta sér stöðu sína til að auglýsa vörur. Það getur varla verið. Eitt er að koma fram í fjölmiðlum til að vekja athygli á góðgerðarmálum eða tala fyrir einhverju öðru, en ég set upp spurningamerki við þetta. Eru engar siðareglur sem ákvarða, getur ráðherra í ríkisstjórn tekið þátt í markaðssetningu á tæki sem eiginkona annars ráðherra í sömu ríkisstjórn er að selja?


Brynjar Níelsson tók einnig þátt í sama markaðsátaki. Orðalagið er orðrétt endurtekið en annar pólitíkus, í þetta sinn þingmaður tekur þátt.

Íhaldsmönnum á borð við Brynjar, er oft tíðrætt um virðingu alþingis, maður fari nú ekki bara upp í pontu og tali um fasisma eða geri kanínueyru í grennd við þjóðhöfðingja. En er kynningarherferð á Boditrax virkilega góð nýting á tíma alþingismanns. Eru engir málstaðir aðrir sem leggja má lið?

Þó finnst mér líkamsfitumæling Brynjars léttvæg miðað við það að fyrrum heilbrigðisráðherra taki þátt í svona markaðsátaki. Sem fyrrum yfirmaður heilbrigðismála hefur maður ákveðna þungavigt þegar það kemur að kynningu á svona varningi. Afsakið, „hávísindalegum“ varningi.

(Annars minnir tækið mig pínulítið á unglingasýninguna Núnó&Júnía sem gengur út á dystópískan heim þar sem sífellt er verið að mæla hversu duglegir allir borgarar eru í ræktinni, en það er svo sem málinu óviðkomandi, bara fínasta leiksýning).

Í Bandaríkjunum fer fram umræða um hvort Donald Trump sé að brjóta lög, með því að hann og aðstoðarmenn hans eins og t.d. Kellyanne Conway séu að markaðssetja vörur tengda Trump-merkinu, m.a. fatalínu Ivanka Trump. Það hvorki þyki við hæfi, og brjóti beinlínis lög að að opinberir embættismenn nýti aðstöðu sína til að hampa ákveðnu vörumerki.
Ókeypis auglýsingar Conway og Donalds á vörum dóttur hans eru þó langt í frá alvarlegasti hagsmunaáreksturinn (gúgglið bara Mar a Lago og Trump hótel í Washington).

Misnotkun á opinberum embættum til að koma varningi ættingja og vina á framfæri þótti hið vandræðalegasta mál, en ég er nú nokkuð viss um að svoleiðis myndi aldrei gerast á Íslandi. Við erum ekki Trump.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu