Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Nei Gylfi, það er ekki kennurum að kenna

Manstu Gylfi þegar þú hélst ræðu 1. maí árið 2009 á Austurvelli? Einhver hrópaði: „Velkominn á Austurvöll! Við erum búin að vera hérna síðan í haust, hvar hefur þú verið?“

Síðan hló þvagan fyrir framan þig og þú gerðir vandræðalega grettu og hélst svo áfram með ræðuna. Ætli þetta hafi ekki verið eins og að vera í draumi og átta sig skyndilega á því að maður mætti nakinn í skólastofuna.

Á þessum tímapunkti voru nokkrir mánuðir síðan næst-stærstu mótmæli Íslandssögunnar (komum að þeim stærstu síðar), voru liðin. Hörður Torfason og fleiri aktívistar höfðu haldið reglulega mótmælafundi síðan bankahrunið hófst og mótmælt brjálaðri spillingu, Bjarni Benediktsson núverandi forsætisráðherra hafði mælt með að Ísland greiddi Icesave tilbaka á 13% vöxtum (já, það er til á vídjó), nímenningar höfðu verið handteknir, Kryddsíld verið rofin, og síðan búsáhaldabyltingin í öllu sínu veldi hafist þegar tugþúsundir Íslendinga streymdu út á götu og mótmæltu stjórn aflandseyjafólksins.

ASÍ og þú sögðuð nú ekki margt á þessum tímapunkti. Þið tókuð ekki þátt. En þú mættir á Austurvöll 1. maí og ætli þú hafir ekki talað um samstöðu.

Samstaða. Eitt af grunngildum verkalýðsbaráttu. En samstaða gengur ekki út á að við stöndum öll saman um að krefjast sem lægstra launa fyrir hvert okkar. Samstaða snýst um að við stöndum saman þegar eitthvert okkar fer með súpuskálina fram og biður um meira. Verkalýðshreyfingin á að biðja um það sem við hin þorum ekki, af því við erum ekki nógu mörg, af því þegar við stöndum ein frammi fyrir yfirmanninum getur hann bara hlegið að okkar lítilmótlegu beiðni og sent aftur að vinna.

Og þá grettum við okkur vandræðalega og tautum það sem við tautum vanalega. Eins og þú gerðir á Austurvelli þann dag.

____________________________________________

Síðan leið tími. Vinstri stjórn kom og fór, popúlískur hægriflokkur tók völdin og forsætisráðherra með óþol á allri gagnrýni tók við. Hann hækkaði matarskattinn, eitthvað sem ASÍ barðist gegn í byrjun tíunda áratugarins (og fékk lækkaðan þá), og þú sagðir ekki mikið. Allavega ekki minnisstætt.

En þú lagðir niður listasafn ASÍ og tókst eitt dýrasta og verðmætasta málverk Íslandssögunnar og settir inn á skrifstofu til þín. Það var nú svolítið töff. Næst þegar forstjóri kæmi á fund til þín sæi hann kannski að þið tveir væruð nú ekki svo ólíkir.

En þá komu fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar. Í ljós kom að íslensk valdaelíta var gegnspillt, í borgarstjórn sat maður sem hafði rænt eftirlaunasjóð móður sinnar með viðskiptum við lögfræðistofu í Panama, í fjármálaráðherrastól sat maður sem hafði reynt að kaupa fjórar íbúðir í Dubai í gegnum aflandsfélag á Seychelles, og forsætisráðherrastólnum sat kröfuhafi í íslensku bönkunum. Hrægammur sem samdi fyrir hönd íslensku þjóðarinnar við aðra hrægamma.

Þú sagðir voða lítið um þau mál. Enda hefurðu setið í stjórn aflandsfélaga sjálfur.

__________________________________

Þú mátt eiga það Gylfi að þú hefur verið duglegur að skamma alþingismenn fyrir að skammta sér óhóflega háa launahækkun á kosningadegi. (Skondin tímasetning hjá þeim).

Nú segja sumir að þetta sé ekki sjálfskömmtun. Það er auðvitað bara bull. Alþingi, fjármálaráðherra og hæstiréttur tilnefna í kjararáð. Allir sem sitja í kjararáði sitja í umboði einhverra stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna. Flestir eru lögfræðingar, sumir eru giftir þingmanni, allir flokksbundnir hvort sem það er í framsókn, VG eða sjálfstæðisflokkinum.

Það hefur lítið verið talað um launahækkun hæstaréttar, en það gleymist að hann tilnefnir líka. Og það er vissulega hagsmunaárekstur að vera lögfræðingur sem fer með mál fyrir héraðsdóm og hugsanlega hæstarétt í framtíðinni og á að vera að skammta dómurum laun. Það væri kannski bara betra ef einhver annar skipaði í þetta kjararáð en Alþingi, hæstiréttur og ráðherra. 

En allt í lagi. Þú tókst þig til og gagnrýndir hækkunina. Hún væri úr öllu korti. Þú hefðir nefnilega gert samkomulag við vinnuveitendur um hóflegar hækkanir frá 2013.

En það er svolítið varðandi þetta SALEK sem ég á erfitt með að skilja. Þú talar um að svona sé það á Norðurlöndunum, fólk fái 2% hækkanir þar, en taki aldrei stór stökk. Engin stétt rjúki fram úr annarri. Allir séu hlutfallslega á sama stað.

Nú er það þannig að lágmarkslaun á Norðurlöndunum duga til að lifa á Norðurlöndunum.

Svo er líka miklu betra velferðarkerfi sem fólk hefur. Meiri aðstoð, svo fólk þurfi að borga minna sjálft. (Þá duga launin betur sko). Og í Noregi er það meira að segja þannig að ungt fólk sem ætlar að kaupa fyrstu íbúð fær beinlínis gefins pening frá ríkinu. (Og borgar lægri vexti, og tekur ekki verðtryggð lán). Á Norðurlöndunum er alls kyns þjónusta, langt fæðingarorlof, stuttir vinnutímar, námsstyrkir í stað lána, heilbrigðiskerfi sem gerir fólk með krabbamein ekki gjaldþrota (og býður upp á ný lyf). Það er bara allt annað ástand.

Þú virðist ekkert sérstaklega áfjáður í að gera Ísland líkara Norðurlöndunum. Eitt fyrsta skrefið í þá átt væri að segja af þér sem forseti ASÍ fyrir að vera í stjórn aflandsfélags.

Þú virðist ekki gera mikið mál úr því að stjórnendur hækki hraðar en aðrir. Þú virðist ekki gera mikið mál úr ofsagróða fjármálafyrirtækja. Og mér sýnist að þrátt fyrir gífuryrði um launamál þingmanna sé lítið að marka þig þar líka.

En ég skil ekki hvernig þú færð það út að forsendubrestur kjarasamninga sé kennurum að kenna. Það er mjög augljóst að engum gremst launahækkun kennara, það eru launahækkanir toppanna sem gerir fólk pirrað. Öfundargenið nær ekki til kennara.

Og samstaða, þú veist orðið sem þið notið stundum á 1. maí, eina daginn sem þér finnst þú knúinn til að mæta á Austurvöll.

Samstaða á að ná til stéttarinnar sem öll framtíð okkar byggir á. Já, það er nefnilega þannig að öll atvinna á 21. öldinni mun byggja á góðri menntun. Þess vegna þurfum við að sjá til þess að fólkið sem kennir, líði vel.

Hvernig væri að standa með þeim, en ekki fólkinu sem situr með þér í stjórn aflandsfélaga?

Eða nei, nei, það eru bara kennarar sem þurfa að sýna ábyrgð. Þingmenn og ráðherrar mega hækka um 45%, en kennarar skulu ekki voga sér að biðja um meira en 2,5% hækkun.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni