Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Nokkur ljóð um alheiminn

Árekstrarnir

Skammtafræðin kennir okkur að ekkert sé til nema í tengslum við hvort annað. Alheimurinn er fullur af eindum sem eru svo litlar að þegar við lítum undan eru þær ekki þarna. Þær eru ekki til fyrr en þær rekast á aðra eind.

Þannig er alheimurinn einn risavaxinn árekstur. Og ekkert er til nema það sé að rekast á eitthvað annað.

Þannig var líka með mig. Ég var ekki til fyrr en ég rakst á þig.

Og kannski er það þannig sem mannfólkið virkar almennt. Ekkert okkar raunverulega til fyrr en við tölum við einhvern annan og fáum það staðfest.

 

Eðlisfræðingurinn

 

Það var einu sinni eðlisfræðingur sem stóð fyrir framan svarta krítartöflu.

Og einni hvítri krít krotaði hann upp allar heimsins formúlur.

Taflan var svört eins og himingeimurinn. Krítinn hvít eins og stjörnurnar. Og línurnar, tölurnar og formúlurnar sögðu okkur allt um heiminn.

Eðlisfræðingurinn krotaði einn staf fyrir tímann, annan staf fyrir orkuna, síðan krotaði hann ljósið, þyngdaraflið, myrkrið og ástina. Hver stafur á sinn stað, og hver formúla rauðglóandi alheimur út af fyrir sig.

Að lokum voru allar heimsins ráðgátur og öll heimsins svör komin upp á töfluna. Og það sérkennilega var að því lengur sem eðlisfræðingurinn krotaði því meira stækkaði taflan, og formúlurnar fjarlægðust hvor aðra. Eins og vetrarbrautir dönsuðu þær í kringum hvor aðra. Eins og svarthol gleypti taflan þær í sig.

Þegar eitthvað gekk ekki upp þurrkaði eðlisfræðingurinn svita af enni sínu, síðan formúluna með sama klút þannig að í staðinn fyrir stjörnuþyrpingu varð bara fjarlæg og móðukennd stjörnuþoka.

Kannski svona, muldraði hann með titrandi hönd. Allt er mælanlegt og allt er ekkert og jafnvel ekkert er eitthvað, því ekkert er orka, og sú orka skapaði heiminn og skapaði óteljandi heima

með óteljandi krítartöflum og óteljandi eðlisfræðingum.

Í einum af þessum heimum skildi eðlisfræðingurinn eftir ráðgátur heimsins á töflunni hálfkláraðar, fór út og fékk sér smók.

Meðan hann stóð úti hurfu tíu sprengistjörnur, án þess að nokkur tæki eftir.

 

Hinar stórhættulegu stoðir heimsins

 

Vísindamenn hafa rannsakað og fundið
að jafnvel í smæstu eindum alheimsins
megi finna dauða.

Héðan í frá verða því viðvaranir á öllu.
Vatnsflöskum, ávöxtum, lopapeysum, bílum
gangstéttum, bakaríum, smábörnum,
hundum, köttum, stílabókum,
sólgleraugum, hárspreyi,kennslubókum,
blómum (bæði lífrænum og þeim úr plasti),
tyggigúmmí, dagblöðum, sárabindum,
nærfatnaði osfrv. osfrv.

Athugið inniheldur eitthvað sem gæti smám saman
dregið þig til dauða.

En ekki nóg með að allt í alheiminum inniheldur dauða.
Atóm samanstanda ekki bara af rafeindum, nifteindum og dauða,
heldur er líka gleði.

Svo mikið magn af gleði að vísindamenn hafa þurft að finna upp sérstaka vídd
bara til að rúma alla þessa gleði, spennu og galsa.

Svo er spurning hvort er hættulegra.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu