Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Maður eða Svíi ársins?

Maður eða Svíi ársins?

Tíminn, sem er ekki áróðursblað framsóknarmanna, heldur bandarískt tímarit valdi Donald Trump sem mann ársins fyrir stuttu síðan. Það er sennilega réttlætanlegt í ljósi þess að maðurinn er sennilega með nafnið sitt í helmingum fyrirsagna tímaritsins þetta árið. Trump át upp allt sviðsljósið á árinu og skildi eftir sig svart hol tómleika og fáfræði.

Auðvitað er það í sjálfu sér ekki heiður að vera valinn af gamla tímanum, nema manni sé áfjáð að deila heiðri með Stalín, Hitler og Ayatollah Khomeini, en flestir forsetar Bandaríkjanna hafa á einhverjum tímapunkti og oft tvisvar verið valdir, enda verið að velja áhrifamesta einstakling ársins að hverju sinni. Pútín hefði líka skammlaust mátt fá titilinn í annað sinn.

Hér á Íslandi er samt yfirleitt verið að heiðra fólk með vali á mann ársins. Velja einhvern sem þykir skara fram úr á árinu. Í því ljósi tel ég þetta erfitt val milli annars vegar blaðamanns sem kom heilli ríkisstjórn frá völdum og startaði stærstu mótmælum Íslandssögunnar með því að koma í kring sjónvarpsviðtali, og hins vegar þjálfara íslenska karlalandliðsins í fótbolta.

Svona í alvöru talað, hafa einhverjir aðrir skemmt Íslendingum meir þetta árið en þeir tveir? Hinn möguleikinn væri auðvitað að sleppa Jóhannesi og hafa félaga hans Sven Bergman í staðinn, enda óneitanlega skondnara að velja á milli tveggja Svía. Svo hver er það?

Aðrir sem komu til greina:

Elísabet Jökulsdóttir, af því án hennar var ekkert að gerast í forsetakosningunum. Og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna norðurlandaráðs.

Birgitta Jónsdóttir, af því hún átti viðtal ársins og er eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem hefur einhverja vigt utan Íslands.

Guðni Th. af því að ef 97% þjóðarinnar eru sátt við þig sem forseti þá er það drullu impónerandi.

Þið hin náðuð ekki á blað hjá mér ;)

E.S.
Kommentið fyrir neðan og segið hver þið teljið að ætti að vinna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu