Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Gerum kjararáð gagnsætt og fagmannlegt

Gerum kjararáð gagnsætt og fagmannlegt

Auðvitað á kjararáð að vera skipað fagmannlega. Af fólki með reynslu af gerð kjarasamninga, með reynslu úr atvinnulífi eða verkalýðsfélögum.

Svo er ekki, eins og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, benti á. Eins og staðan er í dag geta fjármálaráðherra, hæstiréttur og Alþingi skipað fólk í kjararáð án rökstuðnings.

Fólk sem síðan birtir ekki hagsmunatengsl sín. Einn varamaður er giftur þingkonu.

Sem síðan ákvað að hækka laun alþingismanna um mörg hundruð þúsund krónur deginum eftir kosningar.

Píratar eru búnir að gera þá kröfu að í ráðið sé fagmannlega skipað, að einhver rökstuðningur þurfi að fylgja því þegar menn eru skipaðir í ráð sem ákvarðar laun þeirra sem skipuðu í það. Jón Þór Ólafsson hefur lagt til að gengið verði lengra og laun alþingismanna fest við almenna launaþróun í landinu.

Eins og staðan er í dag notast kjararáð við vísitölu sem hún birtir ekki opinberlega.

En þingmennirnir lögðu einnig til að fundargerðir kjararáðs væru birtar opinberlega.

Það myndi hjálpa fólki mikið að skilja rökstuðning kjararáðs hvað varðar laun alþingismanna og dómara. Eins og sást nýverið í Kastljósi sem fjallaði um hæstarrétt er margt ábótavant varðandi gagnsæi og hagsmunaskráningu. Núna, árið 2016, átta árum eftir hrunið þá ættum við að vera búin að læra af reynslunni.

Auðvitað á að hafa skýr, fagmannleg viðmið í ráðningum, rökstuðning og gagnsæi. Almenningur á skilið að vita hvað gengur á, og það þýðir að upplýsingar verði opinberar og settar fram á skýran máta.

Það sem okkur vantar síst er meiri tortryggni, efi og ógagnsæi.

Þetta er ekki flókið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni