Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Ljósmæðurnar og ráðherrann

Ljósmæðurnar og ráðherrann

Fyrir nokkrum árum var orðið ljósmóðir valið fallegasta orð íslenskrar tungu. Þetta er vissulega mjög fallegt orð, en kannski svoldið væmið. Ljós og móðir saman hljómar of gott til að vera starfsheiti, fæðingartækniverkfræðingur væri kannski betra. Ljótt orð sem hljómar samt eins og einhver á ráðherralaunum.

Ef við værum að verðlauna eftir mikilvægi starfsstétta væru ljósmæðurnar svo sannarlega á ráðherrakaupi, en þær eru ekki að biðja um slíkt heldur bara sanngjarnt kaup sem endurspeglar menntun þeirra og vinnusemi. Þær væru líka allar 270 með einkabílstjóra að skutla þeim til móts við verðandi mæður, en þær eru reyndar ekki að biðja um það. Bara brotabrot af 45% hækkuninni sem kjararáð veitti  ráðherrum.

Það er þó einn ráðherra sem stendur í vegi fyrir þessu. Fjármálaráðherra myndi seint verða valið fallegasta orð íslenskrar tungu. Þegar maður nefnir núverandi fjármálaráðherra á nafn verða hugrenningatengslin líka talsvert önnur en þegar maður segir ljós-móðir. Maður minnist Borgunar-hneykslisins þegar ættingjar hans fengu ríkiseignir langt undir verðmati meðan hann var fjármálaráðherra. Svo man maður að sömu ættingjar hafa fjárfest í fiskeldi og kísilverum, á sérstökum vildarkjörum í boði almennings, og láta lágtlaunaðar ræstingarkonur sópa til sín fé úr almannasjóðum. Gott ef Bjarni Benediktsson og bróðir voru ekki stjórnarmenn í því sama ræstingarfyrirtæki og skúraði stjórnarráðið meðan sá fyrrnefndi var fjármálaráðherra. ISS, maður, góður díll!

Svo kom tímabil sem sami Bjarni var forsætisráðherra. Þá var nýbúið að komast upp um feluleik hans í skattaskjólum, tilraunir til að kaupa íbúðir í Arabíu með peningum í Sviss gegnum félag skráð í Seychelleseyjum. Ári áður hafði hann logið því blákalt í Kastljósinu að ekki ætti hann neitt slíkt félag og núna komst upp að hann hafði falið skýrslur um skattaskjól fyrir þinginu rétt fyrir kosningar, auk þess sem hann hafði barist hatrammlega gegn því að ríkisskattstjóri fengi að kaupa upplýsingar um íslenska skattsvikara.

Klassý.

En sama stjórn og byrjaði með feluleik endaði með feluleik. Um miðjan júlí hvíslaði dómsmálaráðherra að Bjarna að faðir hans, sá sami og átti ræstingafyrirtækin, fiskeldin, kísilverin og svo auðvitað Borgun, hafði átt þátt í að veita barnaníðing uppreist æru. Barnaníðing sem nauðgaði tólf ára barni.

Slíkt vildi Bjarni ekki láta komast upp og dómsmálaráðherra braut upplýsingalög til að koma í veg fyrir að það. En við höfðum hátt og fengum upplýsingarnar. Ríkisstjórn Bjarna féll. Aftur.

Og aftur varð hann fjármálaráðherra. Í þetta sinn í boði vinstri grænna sem ári áður höfðu talað um að það þyrfti að hækka kvennastéttir í launum og að ráðherrar eins og Sigríður Andersen, ráðherrar sem dæmdir eru fyrir hæstarétti (og bráðum kannski mannréttindadómstól Evrópu) og standa í laumuleik með upplýsingar um barnaperra, eigi alls ekki að vera ráðherrar. En svo vörðu þau Sigríði vantrausti og slá skjaldborg í kringum Bjarna í atlögu hans gegn ljósmæðrum.

Líka klassý.

Það er ekki spurning hvor vinnur vinsældakeppnina, Bjarni eða ljósmæðurnar. Þetta yrði rothögg. En fá þær sanngjörn launakjör eins og hann? Fá þær uppreist æru? Eða fá þær bara skítkast frá fjármálaráðherra og svo falleg orð frá Katrínu í stað kjarabóta?

Það er stóra spurningin.

 

P.S. Í þessari upptalningu gleymdist auðvitað Vafnings málið þar sem brask Engeyinga með spilavíti í Kína olli því að Sjóvá Almennar fór á hausinn og allir Íslendingar þurftu að punga út einum auka 10 þúsund kalli til að redda því, en mér fannst upptalningin orðin fulllöng.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni