Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Fyrrum ráðherra ræðst á fjölmiðil

Fyrrum ráðherra ræðst á fjölmiðil

Ögmundur Jónasson vegur að starfsheiðri Þórðar Snæs ritstjóra Kjarnans í pistli á bloggi sínu í dag. Þar vísar hann í ritstjórnargrein þar sem Þórður skrifar:

Það liggur fyrir að nið­ur­staða rann­sóknar á meintum brotum for­stjór­ans fyrr­ver­andi hefur aldrei verið birt. Í stað þess hafi Ásmundur Einar Daða­son, núver­andi ráð­herra, ein­fald­lega sagt þing­heimi ósatt um nið­ur­stöðu máls­ins, ákveðið ein­hliða að það að fara út fyrir starfs­svið sitt sé ekki brot í starfi og leggja til við rík­is­stjórn­ina að bjóða for­stjór­ann fyrr­ver­andi fram sem full­trúa Íslands á alþjóða­vett­vangi.

Í þessari fullyrðir Þórður ekkert um Braga heldur vísar einungis í umfjöllun Stundarinnar og frumgögn þar. Ritstjórinn hefur meira að segja fyrir því að taka það sérstaklega fram að hvorki hann né aðrir fjölmiðlar geti fullyrt um mál Braga og barnaverndarnefndar í Hafnarfirði. Fókusinn í greininni er allur á það að Ásmundur leyndi upplýsingum fyrir velferðarnefnd um embættisfærslur Braga, allt annað varðandi sekt og sakleysi sé lögreglumál.

Frá mínu sjónarhóli bendir margt til að Bragi hafi farið ófagmannlega að. Hann skrásetur ekki samskipti, fylgir ekki formlegum reglum, sem eru til staðar einmitt svo það komi ekki upp grunsemdir um annarleg afskipti. En ég ætla ekki að rekja það neitt sérstaklega, Stundin hefur þegar skrifað mjög ítarlegar greinar um þetta mál sem öllum er frjálst að sökkva sér í.

Það sem mér finnst alvarlegt við pistil fyrrum dómsmálaráðherra er að hann birtir mynd af vinahópi Þórðar og gefur í skyn að ristjórnargrein hans sé einhvers konar vinagreiði. Að lesendum beri ekki að treysta Kjarnanum eða Þórði því hann hafi farið á fótboltaleik með nokkrum vinum, þar á meðal formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur (sem tengist ekki fréttaflutningi Stundarinnar eða rangfærslum félagsmálaráðherra).

Með þessu segist Ögmundur vera að gjalda líku líkt, fyrst að Þórður skrifaði að í bloggfærslum gamalla valdamanna væri verið að þvæla um málið og gera þá sem spyrðu spurninga og vildu rannsaka málið grunsamlega. En staðreyndin er reyndar sú að í öðrum pistli var Ögmundur einmitt að gera það. Hann gaf í skyn að þeir sem krefðust þess að hafa aðgang að gögnum um embættisfærslur Braga væru með annarlegan ásetning. Nú veit ég ekki hvort meðlimir í velferðarnefnd hafi farið með Þórði á fótboltaleik, en það væri kannski rannsókn sem Ögmundur myndi styðja?

Einungis Ögmundur getur svarað hvers vegna hann ver leyndarhyggjuna og rangfærslur félagsmálaráðherra. Ætla ekki að koma með neinar kenningar um það heldur, staðreyndin er einfaldlega sú að Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, sagði eitt við nefndina og annað í Kastljósi, og dró lappirnar að veita velferðarnefnd upplýsingar um mikilvægt mál. Það er alvarlegt mál þegar ráðherrar leyna samstarfsfólk upplýsingum, einn forsætisráðherra hefur meira að segja verið dæmdur fyrir slíkt í landsdómi. Og samlíkingin við Uppreist-æru málið í fyrra á alveg rétt á sér, þar tafði ráðherra upplýsingagjöf í pólitískum tilgangi.

Kaldhæðnislegasta við þetta allt saman er að á sama tíma og Ögmundur ræðst gegn Kjarnanum er Þórði boðið að tala um stöðu fjölmiðla af VG í Reykjavík. Yfirskriftin er Aðför að lýðræði, falsfréttir og kosningar, áhugavert efni og með þessu vill VG eflaust sýna að þau styðja við bakið á raunverulegum, prófessíonal fjölmiðlum. Og telja Kjarnann til þeirra fyrst Þórði er boðið. Maður ætti kannski að spyrja Líf Magneudóttur hvort hún taki undir með skrifum Ögmundar þegar hann ritar:

En kannski er kjarni máls allt annar, nefnilega að nýja Ísland Þórðar Snæs og félaga sé þegar upp er staðið alls ekkert nýtt, kannski bara hundgamalt.

Í leiðara Þórðar Snæs er alhæft án afláts og síðan dæmt og fordæmt. Það gæti gengið ef innihaldið risi undir slíku og ef byggt væri á góðri fagmennsku, „prófessionalisma" í fréttamennsku. Því er hins vegar ekki að heilsa.

Ég er ekki viss um að hún myndi svara. Hef oft spurt hana hvað henni finnist um að núverandi dómsmálaráðherra hafi haldið áfram eftir dóm í hæstarétti fyrir brot á stjórnsýslulögum án árangurs. Ég fæ þau svör að það komi sveitastjórnarmálum ekki við, sem er alveg rétt, en uppáhalds álegg á Pizzu, hvort viðkomandi sé hunda eða kattamanneskja eða hvað sé uppáhaldshljómsveit viðkomandi kemur heldur ekkert borgarstjórninni við. (Og oddvitar eru alltaf til í að svara þeim spurningum).

Málið er vandræðalegt fyrir VG sem vanalega stendur þétt við bakið á fjölmiðlum sem spyrja spurninga, þegar flokkurinn er í stjórnarandstöðu, en kannski ekki alveg jafn þétt þegar flokkurinn fer með völd. Vonandi biður Ögmundur Kjarnann afsökunar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu