Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Fleira sameinar en sundrar-2

Flokkarnir fimm eru aftur farnir að tala saman.

Og núna er tækifæri til mikilla umbóta þar sem við höfum ótrúlega margt sameiginlegt þrátt fyrir að vera ólík.

Samkvæmt könnunum þótti sjötíu prósent kjósenda VG mikilvægt að klára stjórnarskrármálið. Það þykir stuðningsmönnum Bjartar framtíðar, Viðreisnar og Pírata líka. (Og Samfylkingunni líka).

Allir þessir flokkar vilja þjóðgarð á miðhálendi, og aðgerðir í loftslagsmálum. Píratar vilja öflugra samkeppniseftirlit. Virkari samkeppni. Það held ég að Björt Framtíð, Samfylkingin og Viðreisn vilji líka. (Og VG auðvitað).

Viljum við kjósa um aðildarviðræður við ESB?
Já!
Hvenær viljum við það?
Núna!

Eru Samfylkingin eða VG eitthvað að fara að pirra sig á áætlun Viðreisnar til að jafna launamun kynja? Held ekki.
Er það að fara að pirra Pírata að Viðreisn leggi mikla áherslu á friðhelgi einkalífsins? Held ekki.

Það má hafa í huga að fyrir marga í grasrót Pírata var Viðreisn fyrsti kostur í stjórnarmyndunarviðræðum. Fyrir marga aðra í sömu grasrót var VG fyrsti kostur einnig. Um þetta var deilt og Píratar eru ennþá miðjuflokkur sem er opin fyrir mörgum ólíkum sjónarmiðum, svo framarlega sem fólk vill aukið lýðræði og styrkja borgararéttindi. Björt Framtíð er býsna lík okkur, bara snyrtilegri ... við erum alþýðlegri (Sorrý Óttarr, ég ætla bara að segja það: pönkaðri). Samfylkingin þykist vera mamma okkar, en það er allt í lagi, því Samfylkingin meinar vel.
Í sjávarútvegsmálum eru þessir flokkar bara að deila um prósentur. 3-8% á uppboð segir Viðreisn, 10-12% segja Píratar og Samfylking. VG er opin fyrir uppboðinu held ég en vill byggðasjónarmið. Það er skiljanlegt og vel hægt að ná saman um málamiðlun sem tekur tillit til byggða sem byggja sitt á fiskvinnslunni. (En þá má heldur ekki gleyma Vestfjörðum og fleiri stöðum sem hafa orðið illa úti þegar þeir misstu kvótann).

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni að engu breyta, aldrei nokkurn tímann og sérstaklega ekki neinu með kvóta eða peningastefnu. Það hefur komið í ljós að hann tekur ekkert tillit til almannahagsmuna og telur sig ekki þurfa neinar málamiðlanir. Ég er ekki hissa, þótt sumir aðrir séu hissa. En þetta voru línurnar í kosningunum, Píratar, VG, Viðreisn, Samfylking, Björt Framtíð, Flokkur fólksins og Dögun, töluðu fyrir kerfisbreytingum. Samfylking, VG, Björt Framtíð og Píratar skrifuðu undir loforð um stjórnarskrár-umbætur. Og hafa samanlagt mun meira umboð en Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég tel að fleira sameini heldur en sundri. Það má vera að það sé menningarmunur, en það er líka kosturinn við stjórn sem hefur marga flokka. Það þýðir að alls kyns sjónarmið koma að, fólk með mismunandi smekk, skoðanir og lífsreynslu.

Mér finnst það ágætis tilbreyting, frá síðustu stjórn tveggja milljarðamæringa úr Garðabænum sem hafa engan skilning á hvernig líf fólk án aflandsfélaga lifir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu