Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Efinn og lýðræðið

Ég var farinn að efast. Það er hollt að efast, en auðvitað er það óþægilegt líka. Ef efinn væri ekki óþægilegur væri hann ekki raunverulegur.

Efinn snerist um hvort ég væri virkilega Pírati. Þrátt fyrir allt eru ekki Píratar alls staðar, jú á netinu, en þeir eru ekki stjórnmálahreyfing með veruleg ítök nema í nokkrum öðrum ríkjum. Tékkland, Finnland og Þýskaland eiginlega undantekningar frekar en regla. Ef ég segðist vera íhaldsmaður eða sósíaldemókrati utan landsteinanna myndi ég ekki þurfa að útskýra mig lengi, en þegar maður segist vera Pírati, sem er oft landkynning í sjálfu sér því það hljómar spennandi og framandi fyrir mörgum. Maður neyðist til að útskýra smá. Réttlæta afstöðu sína. Eins sammála og allir útlendingar geta verið manni um að stjórnmálin á Íslandi séu algjört rugl.

Píratar eru til af því ríkisstjórnir njósna um fólk á netinu án heimilda. Af því verið er að hefta netið á alls kyns vegu af stjórnvöldum sem óttast tjáningarfrelsið og það umrót sem skapast þegar fólk uppljóstrar leynimakki. Edward Snowden, Chelsea Manning og allir aðrir uppljóstrarar sem segja frá því sem ekki má segja eru vinir okkar og bandamenn.

Ég var samt farinn að efast, ekki af því mér fannst uppljóstranir Snowdens og Manning ekki lengur mikilvægar, ef Panamalekinn ætti að kenna okkur eitthvað þá er það að við þurfum fleiri uppljóstrara ekki færri. Var virkilega hægt að byggja heila stjórnmálahreyfingu á því að standa vörð um mannréttindi. Byggði þessi hreyfing á einhverju öðru en svosem heilbrigðum efa gagnvart valdi? Maður gat alveg verið íhaldsmaður eða sósíaldemókrati og samt horft skeptískum augum til stjórnvalda, jafnvel talað fyrir auknu gagnsæi og meira frelsi (margir gera það).

En þessar kosningar hafa sýnt mér þörfina á Pírötum. Ef Þórhildur Sunna t.d. hefði ekki staðið inni í leiðtogaumræðunni í byrjun kosningabaráttunnar þá hefðum við ekki einu sinni rætt hvers vegna væri verið að kjósa. Staðreyndin er sú að við erum að kjósa vegna yfirhylmingar og leyndarhyggju, leyndarhyggju sem hún hefur barist gegn af öllum sínum krafti.

Ef ekki hefði verið fyrir Pírata inn á þingi þá hefði Sigríður Á. Andersen sennilega skipað í landsrétt mótstöðulaust. Staðreyndin er sú að hún skipaði í hann með ólögmætum hætti og þvert á faglegt mat. Með þessu gróf hún undan trausti á réttarríkinu. En Píratar fengu skammirnar. Ráðherrann braut lög, en Jón Þór æsti sig í pontu.

Ef ekki hefði verið fyrir Pírata hefði engin tillaga um faglegra og gagnsærra kjararáð litið ljós. Enginn hefði lagt fram frumvarp um að draga launahækkun kjararáðs til baka. Og enginn væri að kæra 45% launahækkun alþingismanna.

Ekki allt var samt mótstaða. Núna verður fyrirtækjaskrá opin og gjaldfrjáls þannig að hægt er að fletta upp hverjir eiga Ísland. Það verður eflaust fróðleg lesning þegar við byrjum að grúska í þessu.

Píratar hafa aldrei hætt að berjast fyrir stjórnarskrá. Við erum eini flokkurinn sem sjávarútvegsrisarnir vildu ekki styrkja og við vitum öll af hverju. Píratar hafa heldur aldrei hætt að berjast fyrir því að við, Íslendingar, fáum öll arðinn af auðlindinni og reynt að brjóta upp einokun kvótakerfisins. Enda er einokun andstæð öllu sem Píratar standa fyrir. Við viljum sjá raunverulega frjálsa samkeppni og markað í sjávarútveginum.

Ég er ennþá Pírati út af þessum og ýmsum öðrum málum. Ég er ánægður með að hreyfingin standi með listaháskólanemum og vilji byggja nýjan skóla. Ég er ánægður með að þegar Píratar koma með tillögur til fjárlaga byggi þær á gögnum en ekki óskhyggju, og að í forgangsröðun fjármuna nýtist Píratar við kannanir sem þeir panta sjálfir.

Atburðarás þessa mánaðar hefur dregið úr mér allan vafa. Lögbannið á Stundina hefði ekki verið mögulegt ef tillögur Pírata til fjölmiðlalaga hefðu gengið í gegn. Það er þó staðreynd að nú ríkir lögbann á vafasömum forsendum og það hefur séð til þess að alþjóðasamfélagið hefur misst trú á því að íslenska lýðveldið sé raunverulega lýðræðislegt. Margir Íslendingar hafa líka misst þá trú.

En Píratar missa ekki trúna. Því þótt fáir þeirra séu í þjóðkirkjunni eru flestir þeirra með nærri barnalega trú á lýðræðinu. Þess vegna eru margir þeirra að sinna kosningaeftirliti meðan flestir aðrir flokkar einbeita sér að smölun á kjörstaði. Framkvæmd kosninga hér er óörugg og vafasöm og nauðsynlegt er að fylgjast vel með henni. Með lögbanninu hefur stjórnvöldum hér tekist að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á ekki bara fjölmiðlum hérlendis heldur einnig framkvæmd kosninga.

Við þurfum Pírata til að geta aftur vakið upp traust. Í landi þar sem leyndarhyggja ríkir, reynt er að kæfa niður umræðu, þar sem litlir stjórnmálaflokkar fá jafnvel ekki sæti við borðið af því bara, þá er þörf á lýðræðiselskandi og óhefluðum Pírötum.

Setjum X við P, fyrir lýðræðið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu