Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Léttvæg stjórnarskrárbrot

Stjórnarskrárbrot eru alvarleg brot. Enda er stjórnarskráin æðstu lög landsins. Það væri alvarlegt brot að takmarka trúfrelsi, að svipta einstakling ríkisborgararétti, að beita einhvern pyntingum eða senda í nauðungarvinnu. Sömuleiðis væri alvarlegt brot að virða ekki skoðunarfrelsið eða eignarrétt, tryggja sjúklingum ekki aðstoð eða börnum menntun. Um allt þetta er kveðið á um í stjórnarskrá sem er grundvöllur allra laga. Danskan er þó hér aldrei þessu vant gegnsærri en íslenskan þegar hún kallar stjórnarskrána „grundlov“.

Ekkert ákvæði í íslensku stjórnarskránni er léttvægara en annað. Það er ekki léttvægt ákvæði að dómendur skuli dæma eftir lögum og engum manni refsað fyrir nokkuð sem ekki er ólöglegt. Það er heldur ekki léttvægt ákvæði að forseti geti synjað lögum undirskriftar eins og 26. greinin segir, eða léttvægt ákvæðið um að hann feli ráðherrum framkvæmdavaldið og ábyrgðina sem því fylgir.

Það er því ekki hægt að líta á stjórnarskrárbrot sem eitthvert formsatriði eða smámál. Margt má segja um íslensku stjórnarskrána og margt hefur verið sagt. Fyrsti forseti lýðveldisins kallaði hana bráðabirgðaplagg, en hún er æðstu lög landsins og byggir á gamalli lagahefð sem við erfðum frá Dönum.

Eitt af því sem fylgdi frá danskri lagahefð var landsdómur, við höfum beitt honum einu sinni og Danir fimm sinnum síðan 1849, en í fjórtándu grein stjórnarskrárinnar segir: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“

Þetta ákvæði er ekki léttvægt og ekki er 17. greinin heldur léttvæg. Að vera dæmdur í landsdómi fyrir að sinna ekki upplýsingaskyldu til ríkisstjórnarinnar er ekki léttvægt. Það er ekki hægt að kalla það smámál eða formsatriði, frekar en aðrar greinar stjórnarskrárinnar. Þetta er ekki ígildi umferðarsektar.

Þegar Geir Haarde forsætisráðherra braut 17. grein stjórnarskrárinnar setti hann hagkerfi Íslands og íslenskt samfélag í stórhættu. Fyrir þetta launaði Sjálfstæðisflokkurinn honum með sendiherraembætti og Geir hefur launað traustið til baka með lögsókn. (Geir Haarde hefur unnið hjá íslenska ríkinu, sem hann stefndi til mannréttindadómstóls, í samfleytt 40 ár). Auk þess hefur Geir og stuðningsmenn hans með málflutningi sínum reynt að grafa undan trausti á réttarríkinu. En þeir ná samt aldrei að breyta einni grundvallarstaðreynd, sama hvað þeir rembast við að snúa hlutum á hvolf. Stjórnarskrárbrot eru alvarleg brot, enda er stjórnarskrá lýðveldisins ekki formsatriði, ekki smámál og ekki eitthvað sem forsætisráðherrar hafa efni á að hunsa á ögurstundu. Léttvægt stjórnarskrárbrot er þversögn og fólk sem talar um brot á stjórnarskrá sem léttvæga hefur annað hvort lítinn skilning á sögunni eða er hreinlega vísvitandi að blekkja.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni