Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Minnihlutahópar og minnipokamenn

Minnihlutahópar og minnipokamenn

Minnihlutahópur er eitt af þessum hugtökum sem allir telja sig skilja hvað þýðir en fólk virðist samt hafa mismunandi skilning á. Án þess þó að átta sig almennilega á að skilningurinn er misjafn og þvælist þannig fyrir.

Sumir hugsa þetta fyrst og fremst út frá minnihlutaskoðunum; að minnihlutahópur sé bara hver sá hópur sem fer halloka í almenningsálitinu sökum smæðar og fordæmingar. Þannig sé enginn grundvallarmunur til dæmis á hinsegin fólki hér áður fyrr og því fólki sem er haldið fordómum út í hinsegin fólk. Núna séu svo fáir eftir í síðari hópnum og þeir séu svo úthrópaðir að það sé eiginlega mál að linni. Hefur hinsegin fólk ekki unnið fullan sigur í sinni baráttu? Pendúllinn jafnvel búinn að snúast við og núna séu það hinir fordómafullu sem eru kúgaðir?

Þetta er út af fyrir sig rökrétt afstaða. Það er vissulega mikilvægt að huga að því hvenær meirihlutinn er farinn að þagga niður í minnihlutanum. Virkt tjáningarfrelsi felur í sér að ýmsar skoðanir megi heyrast og að samfélagið treysti sér til að taka slaginn við þær allar. Hins vegar eru ýmsir sem myndu segja að minnihlutahópshugtakið feli töluvert meira í sér. Það sé ekki nóg að hafa minnihlutaskoðun sem er á skjön við almenningsálitið til að tilheyra minnihlutahópi heldur þurfi einhver alvöru kúgun að koma til.

Nú er það svo að hinsegin fólk þurfti fyrir ekkert svo löngu að sætta sig við mun fleira en að þurfa að þegja um langanir sínar og skoðanir. Það gat átt á hættu að verða fyrir líkamlegu ofbeldi og leið oft miklar kvalir fyrir að vera eins og það var. Sjálfsmorðstíðni var há. Og svo framvegis. Það er stutt síðan þetta var og þó glæsilegur árangur hafi náðst í að koma hinsegin fólki inn úr þessum kulda eru sárin ennþá þarna og baráttan er ekkert fullunnin ennþá.

Er þetta tilfellið með fólkið sem er nú komið upp við vegg í sínum fordómafullu skoðunum í garð hinsegin fólks, þökk sé ötulli baráttu samfélagsins og ekki síst hinsegin fólks sjálfs fyrir réttindum þess? Þurfa hinir fordómafullu á sömu vernd og skjóli samfélagsins að halda og hinsegin fólk? Er kannski ekki líka smá munur á skoðun fólks og því hvað fólk er, svona upp á hvaða áhrif gagnrýni hefur á það og velferð þess og hverju hún er líkleg til að skila?

Með því að spyrja okkur þessara einföldu spurninga komumst við kannski aðeins nær sameiginlegum skilningi á því hvað felst raunverulega í því að tilheyra minnihlutahópi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni