Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Pétursfrumvarpið

Pétursfrumvarpið

Fréttastjóri Fréttablaðsins skrifaði pistil í gær um það hvernig heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fékk blaðið til að fjarlægja umfjöllun um ákveðna vindlabúð af vef sínum, út frá því að í lögum um tóbaksvarnir eru tóbaksauglýsingar á einum stað (3. tölulið 3. mgr. 7. gr.) skilgreindar sem „hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra“. Þetta er afar víð skilgreining sem hefur lengi verið umdeild.

Til dæmis mátti lesa um það í Morgunblaðinu þann 9. júní 2006 að Björg Thorarensen, sem var þá prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands en nú hæstaréttardómari, taldi þessa skilgreiningu ganga of langt inn á svið tjáningarfrelsis stjórnarskrárinnar. Tilefni umfjöllunarinnar var að Pétur H. Blöndal heitinn reyndi að koma inn breytingartillögu í meðferð frumvarps um reykingabann sem snerist um að fella þennan tölulið einfaldlega niður. Breytingartillagan var felld og atkvæði fóru ekki alveg eftir flokkslínum - fjórir úr Sjálfstæðisflokki og fjórir úr Samfylkingunni studdu tillöguna þó meirihluti þingmanna í báðum flokkum hafi verið á móti henni. Aðrir þingmenn voru ýmist á móti eða sátu hjá. Þegar Pétur talaði fyrir tillögunni sagði hann:

„Ef einhver fjölmiðlamaður skyldi nú senda út það sem ég segi hér á eftir þá ætla ég að vara hann við að ég er að fara að brjóta lög. Ég ætla nefnilega að segja að ég hafi aldrei reykt Camel. Þetta er lögbrot. Ég ætla að segja að það sé langt síðan ég hafi keypt Chesterfield. Annað lögbrot. Ég ætla að segja að nú er hann Jón gamli dáinn, ég segi það af því að ég er að skrifa minningargrein um hann, en eldri bróðir hans Gunnar sem reykti alltaf Raleigh, lifir góðu lífi. Eða systir hans sem reykti lifir enn, háöldruð. Þetta má ég ekki segja heldur

Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum frú forseti, svona umræða. Svona lagatúlkun. Þetta minnir á trúboð. Þetta minnir á trúboð bókstafstrúarmanna. Þetta eru einstrengingslegar skoðanir. Þetta er forsjárhyggja og þetta er skoðanakúgun. Þetta er rétttrúnaður. Ekkert annað. Heilbrigð umræða og skynsemi er látin veg allrar veraldar.

Ég skora á hv. þingmenn að styðja breytingartillögu mína þannig að það sem ég sagði hér áðan sé ekki lengur lögbrot og menn geti t.d. sagt í grein í Morgunblaðinu eða í einhverjum öðrum fjölmiðli að einhver hafi reykt Raleigh eða að einhver hafi reykt þetta eða hitt.“

Í dag segi ég hins vegar að ef einhver á þingi skyldi nú vilja taka þessari gömlu áskorun og gera aðra atlögu að því að fella ákvæðið niður þá væri vel við hæfi að slíkt frumvarp fengi heiðursnafnbótina Pétursfrumvarpið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni