Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Aðgerðir gegn fólki

Aðgerðir gegn fólki

Í gær bárust fréttir af því að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins íhuga hernaðaraðgerðir gegn smyglurnum sem taka að sér að ferja fólk frá Lýbíu yfir Miðjarðarhafið og til Evrópu, þá mest til Ítalíu og Möltu. Áður hafði verið gefin út aðgerðaáætlun Evrópusambandsins til að takast á við þetta vandamál og þar má finna margar allharkalegar aðgerðir.

Það vekur athygli mína að hvergi á aðgerðalistanum er þó að finna aðgerðir sem miða að því að leyfa flóttafólki að koma til Evrópu með öruggari og ódýrari leiðum en að greiða smyglurum til að fara hættulega og mögulega banvæna sjóleið. Fyrir öllu eru ástæður og ástæðan fyrir því að fólk fer ólöglega sjóleiðis er sú að reglur Evrópusambandsins beina fólki beinlínis yfir í þá leið. Það hefur fárra annara kosta völ. Fæst af því er með þær vegabréfsáritanir sem krafa er gerð um að það hafi, enda flóttafólk úr aðstæðum þar sem þær er erfitt að fá. Ríkin í Afríku sem fólk hrekst frá, á borð við Sómalíu, eru ekki stöðug og örugg ríki þar sem fólk getur gengið að slíkum lúxus sem vísum. Þess vegna flýr það jú. Evrópuríkin veita flóttafólki vissulega undanþágu frá þessu skilyrði en vegna þess að ábyrgðinni á eftirliti er velt yfir á flug- og skipafélögin taka þau ekki áhættuna og kjósa því að taka ekki við fólki sem ekki er með alla pappíra í lagi. Þetta er einföld hagfræði.

Staðan er sumsé sú að til er flóttafólk sem vill freista þess að koma til Evrópu frá Afríku en því er gert erfitt fyrir að gera það með löglegum hætti. Smyglarar bjóða því upp á aðra leið og þá þarf auðvitað að loka henni með 'aðgerðum'. Svona lagað gerist iðulega þegar reynt er að ná stjórn á einhverju sem er í raun stjórnlaust. Það þarf alltaf að fara út í harðari og harðari aðgerðir. Rétt eins og að reyna að slétta teppi sem maður skildi óvart eitthvað undir. Það verður alltaf bunga þarna þó maður reyni að berja hana niður.

Víða um Evrópu er talað um þetta mikla vandamál sem þarf að ná tökum á og flokkar sem tala fyrir því að taka hart á því (með undirtónum fordóma og rasisma, sem duga svo vel til að fá fólk til að taka hart á öðru fólki) njóta vaxandi fylgis. Í nýafstöðnum þingkosningum í Finnlandi varð Finnaflokkurinn til dæmis næst stærstur. Það sem er kannski súrast við þetta allt saman er að auðvitað eru það ríkin sem liggja að þeim ríkjum sem fólk flýr úr sem taka við mesta straumnum. Fjöldamörg Afríkuríki glíma við miklu alvarlegri flóttamannavanda en sést í Evrópu. Mörg þeirra töluvert fátækari en Evrópuríkin. Einhverjir myndu kalla það forréttindablindu á hæsta stigi að átta sig ekki á þessu samhengi.

Við Íslendingar tökum fullan þátt í kerfinu og tökum því fólki sem hefur afrekað það að komast alla leið hingað af mikilli varúð. Biðin eftir málsmeðferð er löng og ströng og réttindi fólks afar takmörkuð á meðan. Enn hefur þó sem betur fer ekki risið upp stjórnmálaflokkur á landsvísu hér sem vill gera enn verr við flóttafólk og loka eyjunni okkar enn frekar en hún er nú þegar sökum landfræðilegrar legu. Fyrir það má víst þakka á þessum fyrsta degi sumarsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni