Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Döner Kebab í Berlín

a) Á dönerbúllu

Við erum stödd í ónefndri dönerbúllu í ónefndu hverfi borgarinnar. Af þeirri lýsingu að dæma gætum við verið hvar sem er. Við sitjum við borð með bjór í hönd og fylgjumst með því hvernig ósköp venjulegur og óeftirminnilegur maður nálgast afgreiðsluborðið og ávarpar dönersölumanninn. Hann er dökkur á hörund með dökkbrún augu, hrafnsvart hár, og með jafnsvart yfirvaraskegg. Þar að auki er hann meðalmaður á hæð og ögn feitlaginn. Hann talar þýsku með sterkum framandi hreim og á það til að nota nafnháttinn oftar en málfræðireglurnar segja til um en virðist annað hvort ekki vita af því eða þá pæla í því. Sennilega er honum alveg sama svo framarlega sem hann nái að gera sig skiljanlegan. Þetta vitum við og ályktum af því að við erum nú þegar búin að sitja við borðið í tvo bjóra.

 

-Ég ætla að fá ein döner, takk.         (Ich hätte gern einen Döner, bitte)

-Kjúkling eða normal?                      (Chicken oder normal?)

-Normal.[1]                                          (Normal)

 

Dönersölumaðurinn setur brauð[2], sem minnir á pítubrauð, í nokkurs konar samlokugrill til að hita það upp. Viðskiptavinurinn virðir fyrir sér bjórúrvalið í kælinum og velur sér að lokum ákveðna tegund bjórs. Tegund sem við tilgreinum ekki þar sem við ætlum okkur ekki að taka eina tegund fram yfir aðra. Í millitíðinni hefir samlokugrillinu auðnast að hita brauðið sem skyldi og sölumaðurinn spyr:

 

-Sósu?                                              (Soße?)

-Hvítlauks.                                       (Knoblauch und Kräuter, bitte)[3]

Dönersölumaðurinn opnar brauðið og smyr sósunni á það innanvert.

-Salat allt?[4]                                       (Salat alles)

-Já                                                     (Ja)

Sölumaðurinn bætir salatinu við og að lokum er brauðið fyllt með kebab (kebab þýðir í raun grillkjöt).

-Borða hér?                                      (Zum hier essen?)

-Taka með.                                        (Zum mitnehmen)

Sölumaðurinn pakkar dönernum í álpappír og setur í lítinn gagnsæjan poka ásamt bjórnum.

- Fjórar evrur og tuttugu.                 (vier Euro zwanzig)                                     

-Bless                                               (Tschüss)

 

Viðskiptavinurinn yfirgefur búlluna.

 

Nokkurn veginn svona ganga dönerviðskipti fyrir sig á degi hverjum  í öllum þeim mýgrút af dönerbúllum sem fyrirfinnast í borginni. Og án minnstu ábyrgðar slengjum við því fram að það fyrirfinnist örugglega fleiri dönerbúllur í Berlín er kirkjur í Róm.

 

b) Smá um döner kebab

En hvað er eiginlega döner kebab gæti nú einhver spurt. Rætur sínar á dönerinn að rekja til Tyrklands og var hann svo að segja fluttur inn af tyrkneskum innflytjendum á áttunda áratug síðustu aldar. Og viti menn og konur! Talið er að hann hafi fyrst fest fót í hverfinu Kreuzberg í Vestur-Berlín! Téð hverfi hýsti og hýsir enn fjöldann allan af hörundsdökku fólki sem margir Íslendingar[5] myndu líkast til skella á nafngiftinni arabar sér til einföldunar og hugarhægðar. Heimurinn er enda öllu viðráðanlegri í svörtum og hvítum litum. En burtséð frá öllum litapælingum þá má segja að sigurför döners kebab hafi hafist í Berlín.

 

Því líkt og líklegt má teljast þá hefur þú, lesandi góð/ur, sennilega ekki farið varhluta af tilvist þessa ágæta rétts og jafnvel, sértu ekki fædd/ur á þeim tíma þegar flestir Íslendingar bjuggu á landsbyggðinni, bragðað á einum slíkum á ferðalögum þínum um heiminn. En fyrir þá sem eru með öllu ókunnugir þessum rétt er ráð að lýsa honum aðeins nánar.

 

Ekki er vitað með bjargfastri vissu hvenær fyrsti döner kebabinn, áþekkur þeim sem við þekkjum nú til dags, leit dagsins ljós. En líklegt þykir að það hafi verið á 19. öld í bænum Kastamonu í Norður-Tyrklandi -það segir manni auðvitað ekki neitt fær hér pláss í textanum til að styrkja þig í þeirri trú að taka megi mark á þeim sem þetta skrifar. Þar ku hafa verið byrjað á því að raða lamba- eða kindakjötslögum, sem voru og eru krydduð eftir kúnstarinnar reglum, á lóðrétt grillspjót. Döner kebab mætti líka þýða með „hringsnúandi grillkjöt“ Grillspjótið snýst og grillast ysta lag kjötsins sem er síðan sneytt þunnt niður með stórum hníf eða með þar til gerðri maskínu. Hér áður fyrr var rétturinn einkum borin fram á disk með blöndu af lauk og steinselju. Ef þess var æskt var einnig hægt að bæta við hrísgrjónum og grænmeti: tómötum, gúrkum, hreðkum og peperoni (smá paprika).  

Og ef við förum hratt yfir sögu og forðumst allar nánari útlistanir[6] og útskýringar má segja að nú sé öldin önnur. Rétturinn hefir verið lagaður að bragðlaukum vesturlandabúa. Sagan[7] segir að tyrkneskur innflytjandi í Berlín hafi opnað þar matsölustað og boðið upp á tyrkneskan mat. Matur þessi féll ekki eins vel og vera skyldi að matarvenjum og smekk innfæddra. Innflytjandinn tók eftir því að stórborgarbúarnir áttu oftar en ekki til að borða á ferðinni enda annríki iðulega boðorð dagsins í ys og þys borgarlífsins. Máltíðir þeeirra voru oft í formi samloku eða einhvers sem lætur vel í hönd. Kom honum því í hug að skella ketinu í brauð. Þar að auki veitti hann því eftirtekt að þýskir eru sósuglatt fólk og bættist því sósuval við réttinn. Grænmetið mátti einnig fella betur að þýskum smekk og fyrir vikið bættust kál og laukur í hópinn.

 

Þetta form af döner kebab er algengast. Hefir þó margvíslegra tilrauna gætt í gegnum tíðina og eiga sumar búllurnar til dæmis til að bjóða upp á ost, oft halloumi eða fetaost, eða franskar kartöflur. Slæst þá osturinn eða kartöflurnar í hóp kjöts og grænmetis. Í þessa flóru mætti svo draga hinn arabíska schawarma og gríska gyros sem líkjast óneitanlega döner kebeb auk þess sem réttir eins og falafel, dürum döner byggja á svipuðum grunni.

Svo er einnig gaman að minnast á að í Tyrklandi er algengt að síðasti bókstafurinn oðsins sé -p eða kebap. Í Þýskalandi er mælst til þess að orðið sé skrifað með -b þótt rithættirnir séu margvíslegir

 

c) Ábending

Þar sem talið er að finna megi um 1600 staði í Berlín sem bjóða upp á döner kebab er ætíð hægt að ramba inn á álitlegan stað. En svo getum við að sjálfsögðu einnig lent á einum ókræsilegum. Ef við viljum vera nokkuð viss um að fá bragð- og staðgóðan döner má mæla með tveim stöðum: Grill und Schlemmerbuffet Rosentahler Platz á Torstrasse 125 er fínn. Rétt við dyrnar stoppa sporvagnarnir M1 og M12 auk neðanjarðarlestarinnar U8. Farið er út við Rosentahler Platz. Tilheyrir staðurinn hverfinu Mitte. Hinn staðurinn sem mælt skal með heitir Mustafa's  Gemüsekebap og er staðsettur á Mehringdamm 32. Þangað er best að komast með neðanjarðarlestinni U7 eða U6 og farið skal út á Mehringdamm brautarstöðinni. Á báðum þessum stöðum er iðulega múgur og margmenni og gætum við þurft að bíða lengi uns röðin kemur á okkur. En hafa ber í huga að það er ástæða fyrir því að það er mikið að gera.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu