Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Í upphafi var orðið

Þessi texti átti einnig að birtast á Starafugli eins og sá síðasti en um þessar mundir er fuglinn sá ófleygur.

 

Um aðra skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur (1974), Hið heilaga orð. Benedikt bókaútgáfa gaf út árið 2018. 271 bls. Árið 2017 kom út Eyland. Fjallað var um sögu þá á Starafugli.

 

Nafngift verksins kann að kalla fram hugrenningatengsl við upphaf Jóhannesarguðspjalls: 1:1-6

 

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans var ekki neitt, sem er til. Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

 

Samfélagsmiðlastjarnan Edda er horfin. Hún hefir yfirgefið nýfætt barn sitt og Ragnars manns síns. Öllum fjölskyldumeðlimum kemur brotthvarfið á óvart þrátt fyrr að Edda eigi sér  „sögu um geðræna erfiðleika og sjálfsvígstilraunir.“ (bls. 15) Í ljós kemur að Edda fór til Nýju Jórvíkur. Ekki er vitað í hvaða tilgangi. Bróðir hennar, Einar, er sendur út af örkinni til að hafa upp á henni og til að komast að því hverju sætir.

 

Í grófum dráttum er þetta söguþráður Hins heilaga orðs. Gæti hann markað upphafið að glæpa- eða ráðgátusögu sem hann og gerir. Sumpart. Vissulega er ráðgáta á ferð. Sannlega er glæpur framinn. Glæpa- eða ráðgátusaga í hefðbundnum skilningi er þetta samt ekki. Sagan á ekki margt sammerkt með sögum Arnalds Indriðasonar eða Yrsu Sigurðardóttur ef við þær eru séðar sem eins konar erkitýpur.

 

Hvernig saga er Hið heilaga orð? Til að svara þeirri spurningu, að hluta til, er ráð að líta aðeins á hvernig sögunni er skipt upp. Henni er skipt upp í kafla með eftirfarandi nafngiftum: Áður, Hér og Dagur 1, Dagur, 2, Dagur 3, Dagur 4, Dagur 5, Dagur 6, Dagur 7. Aukinheldur má líta á skilaboð milli systkinanna sem hluta fyrir sig. Hvað Dagana áhrærir er þar rakin leit Einars að systur sinni. Nútíð. Sagan er í sögulegri nútíð.

 

Í Hér er litið inn í huga Ragnheiðar móður Einars sem ekki er fær um að tala:

 

Ég er hérna, undir þessu ullarteppi, þótt augun séu sljó og röddin þögnuð. Skugginn af sjálfri mér, segja þau, orðin að grænmeti, en það er bara ytra byrðið, sjáðu til. Mér hefur eiginlega aldrei fundist hugsunin jafn skörp og nú þegar ég þarf ekki lengur að kóða hana yfir í sérhljóða og samhljóða, fónem, frumlag og andlag, svipbrigði, andvörp og handahreyfingar. Þýða hana yfir á mennsku. (bls. 16)

 

Eins og orðið Áður gefur til kynna er um afturlit að ræða. Rakið er hvernig Ragnheiður og Júlía (þær eru á aldri við Báru uppljóstrara núna) urðu barnshafandi eftir sama mann, Örlyg Jónsson menningargosa, og enduðu á að búa saman (ekki lesbískt samband) og ala upp börnin sín, Eddu og Einar Örlygsbörn. Júlía er 19 ár, hún snoðklippt og pönkaralega til fara. Hún er hortug og uppreisnargjörn. Örlygur er talsvert eldri. Örlygur er einhvers konar bóhem, eða telur sig vera það. Hann er ekki einnar konu maður og leggur lag sitt við Ragnheiði þegar hann er á Ísafirði að vinna að kvikmyndaverkefni. Ragnheiður er af öðru bergi brotin en þau, landsbyggðarstelpa.

Eftir heimsókn til föðursins í Karabíahafinu, þar sem faðirinn ríkir eins og smákóngur yfir fátæklingunum og ástundar brauðmolahagfræði, verður Einar Ragnheiðarson. Faðirinn veitir börnum sínum annars ekki mikla athygli og myndi teljast sjálfselskur mjög samkvæmt flestum kokkabókum.

Sögumaður er að líkindum Ragnheiður. Hún er það augljóslega í Hér-hlutanum og þó hinir hlutarnir séu í þriðju persónu má álykta að þessi lína í Áður-hlutanum: 

 

Þannig sé ég fyrir mér að sagan hafi byrjað.“ (bls. 21) 

 

eigi að benda til þess að svo sé, einnig hvað aðra hluta áhrærir.  

 

Að vísu byrjar bókin og á fyrstu persónu:

 

VIÐ ERUM ÞARNA SAMAN, á fyrstu myndinni sem tekin var af okkur. Mæðurnar sitja saman í sófa, Júlía fínlega eins og álfkona, Ragnheiður mjúk eftir meðgönguna, augun full af blíðu. (bls. 7)

 

Þessi hluti á við systkinin og þar hefir Einar orðið. Hann biður systur sína um að segja sér sögu:

 

Segðu mér sögu, systir mín. Eins og þegar við vorum börn. 

Ég skal segja þér sögu, bróðir minn. Eins og þegar við vorum börn.  (bls. 8)

 

Ekki er því alveg á tæru hver hefir orðið innan sögunnar. Spurningin er hvort Ragnheiður sé sögumaður og orðin eigi að standa fyrir myndir sem hún hefir í höfðinu. Á sagan að gerast í höfði hennar? Þetta kemur þó ekki að sök nema lesandi sé af því sauðahúsi sem þarf að hafa allt klippt og skorið. 

 

Sagan er því öðruvísi en margar hverjar.

 

Víkjum aðeins aftur að innihaldi: Ljóst er, af ofangreindu, að fjölskyldusaga þessi er óvanaleg. Fleira kemur þó til. Edda er sérstæð. Hún er bókhneigð í meira lagi, á í betra sambandi við bækur en fólk, er á einhverfurófinu. Bróðir hennar er undantekningin. Þau eru náinn. Hún verður snemma fluglæs og ver tíma sínum að mestu við lestur. Hyperlexia. Bróðir hennar er andstæðan. Hann er lesblindur. Systir hans á því til að segja honum sögur, hún hefir minni gott og getur endursagt sögur þær sem hún hefir lesið. Stundum breytir hún þeim, gerir þær minna ógnvekjandi. 

 

Víkjum aftur að byrjun verks:

 

Þetta var áður en orðin komu og stafirnir, áður en þau röðuðu sér saman og urðu að setningum og sögum, endalausum runum af bókstöfum sem lögðust á sjóndeildarhringinn og umkringdu okkur, lokuðu annað inni, útilokuðu hitt. (bls. 8)

 

Edda er föst í heimi ritmálsins, í heimi orðana, og Einar fyrir utan hann. Þetta er megin þema verksins; tungumálið, ritmálið, sögur í munnlegri geymd. Má kjarna þemað í þessari tilvitnun:

 

Hugsaðu þér að allt sé hljótt og þú eigir engin orð í huga þínum. Ímyndaðu þér stað og tíma þar sem ekki er til orð yfir neitt, þar sem hlutirnir eru án þess að þú þurfir að nefna þá. Áður en við lærðum að tala, á meðan við sungum eins og fuglar, áður en orðin stjórnuðu heiminum (bls. 270-271)

 

Inn í þetta blandast samfélagsleg þróun, að ritmál og lestur sé á undanhaldi vegna samfélagsmiðlanna:

 

Ungt fólk sækir andlega næringu og samskipti í meiri mæli til sjónrænna miðla, í sjónvarpsefni, tölvuleiki, YouTube, Instagram. Þetta vita allir, og þeir sem eiga allt sitt undir ritmálinu óttast þessa þróun. (bls. 231-232)

 

Vert er að minnast á að Edda notar samfélagsmiðlana til að virðast eðlileg, til að virðast mennsk, nálgast fólk. Sú nálgun getur vakið upp spurningar um sýndarmennsku, tjáskiptabreytingar og hvert við stefnum í þeim efnum. Í verkinu er einnig hreinlega spurt beint, í gegnum persónur þó, hvort ritmálið sé ekki óþarft, hvort það sé ekki fremur helsi en frelsi og hvort „[m]aðurinn hefði [ekki] lifað áfram í sátt og samlyndi við umhverfi sitt, án sögu, án fortíðar og framtíðar.“ (bls. 232) Án texta, án Orðsins.

 

Áhugavert. Og er það orð ekki notað sem klisja. Áhugavert þrátt fyrir augljósu andstæðuna.

 

Tökum aðeins á tíðaranda: Sagan hefst, ef fylgt er krónólógískri tímalínu, árið 1993 í Reykjavík þegar:

 

þeir [Íslendingar] eru enn að leita sér að einhverju öðru að rífast um en kjarnorkuógnina, marxismann og auðvaldið. Þeir mega drekka bjór. Bjartsýni kapítalismans stendur upp sem sigurvegari, sjá, markaðurinn mun gera yður frjálsa, áður en kreppur, ójöfnuður og loftslagsbreytingar ganga af bjartsýninni dauðri. Þetta er Reykjavík fyrir tíma ferðamanna, eyðileg og grá; Björk er við það að koma þjóðinni á heimskortið. Þetta er Reykjavík fyrir tíma upplýsingabyltingarinnar, tveimur árum eftir að fyrstu þræðir veraldarvefsins voru strengdir yfir heiminn; alfræðiorðabækur prýða bókahillur á betri heimilum og staðreyndir eru ennþá staðreyndir, kirfilega aðgreindar frá skoðunum. Þetta er Reykjavík skáldanna og landabruggaranna og gúmmitékkanna. (bls. 21-22)

 

Þeir sem komnir eru á fimmtugs aldur ætti svo að reka minni til Kaffibarsins og Damons Albarns, 22 og Bíóbarsins. Þeir staðir koma við sögu og gæti sögusvið þess hluta svo og persóna Örlygs Jónssonar kallað fram hugrenningatengsl við kvikmyndina Ein stór fjölskylda eftir Jóhann Sigmarsson frá árinu 1995 svo og kannski Veggfóður (1992) eftir Júlíus Kemp. Tíðarandinn. Skemmtilegt að kíkja þangað.

 

Lestur verksins ætti að geta kallað á samanburð tíðaranda, hvernig samfélagið hefir þróast frá þessum tíma til dagsins í dag. Verkið kallast á við nútímann og þær breytingar sem við lifum og er þar ekki MeToo, kynferðisofbeldi og misskipting í heiminum undanskilið. Raunir tengist þetta sögunni allmikið.

 

Þetta er saga sem má hafa mörg orð um. Fleiri orð en hér er þrykkt á vefsíðu. Þetta er saga sem lesa má á mismunandi máta. Þetta er saga sem má pæla í með orðum og ...

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu