Maurildi

Skylmingamenn sannleikans

 Þennan pistil skrifaði ég með Birki Frey Ólafssyni, en við brugðum okkur á fund Vakurs um möguleikann á nútímavæðingu íslams á dögunum. 

Það hafði verið gluggaveður fram eftir degi. Skítarok. Nú var veðrið ögn mildara sem kom sér vel fyrir mótmælendurna sem stóðu fyrir utan Grand Hótel og vörðuðu leið fólks inn á fundinn. Maðurinn á rafskutlunni sem skömmu áður hafði brunað einbeittur fram úr okkur við Kringlumýrarbraut hafði numið staðar við húshornið og starði á hópinn. Það var spenna í loftinu.

Verðir voru við alla innganga hótelsins. Búið var að einangra austasta hluta þess. Klöngrast þurfti inn um frekar þröngan inngang, sem virkaði enn þrengri með alla þessa mótmælendur þétt upp við hann. Ekki bætti úr skák að þarna spígsporuðu líka þéttholda menn með barmmerki sem á stóð: „Gæsla“. Þeir báru hvolpana. Þarna voru þá komnir hinir „hæfu menn“ sem aðstandendur fundarins höfðu lofað að myndu ástunda öfluga „öryggisgæslu.“ Enn fleiri öryggisverðir stóðu inni. Allt í kringum þá heilsuðust gráhærðir menn kumpánalega.

Þarna voru þá komnir hinir „hæfu menn“ sem aðstandendur fundarins höfðu lofað að myndu ástunda öfluga „öryggisgæslu.“

Það var enn stundarfjórðungur í að fundurinn skyldi hefjast. Við fórum inn í salinn. Fengum okkur sæti framarlega í þeirri hlið salarins sem vísaði frá mótmælendunum og trommuslættinum. Nokkur fjöldi fólks var þegar kominn í salinn og þeim fjölgaði jafnt og þétt eftir því sem nær leið auglýstum fundartíma. Skyndilega mætti einn gæslumanna og tók sér stöðu rétt fyrir framan okkur. Hann skimaði salinn með íbyggnu augaráði. Síðan opnuðust bakdyr salarins og inn komu fyrirlesararnir tveir ásamt lífverði sem líktist górillu í jakkafötum. Hinn hæfi íslenski gæslumaður virkaði frekar pervisinn þar sem hann leiddi þremenningana út úr salnum og í hvarf.

Ekki alveg laus við sjarma

Valdimar Jóhannesson kom í pontu. Hann er ekki alveg laus við sjarma. Hann tilkynnti að örlítil seinkun yrði á fundinum, fólk ætti í erfiðleikum með að komast fram hjá mótmælendunum. Hann hrósaði fundargestum fyrir hugrekkið. Það hnussaði í nokkrum fundargestum og göngulag gæslumanna varð fjaðrað.

Annar okkar tók sig þá til og gekk fram á gang. Þar stóðu mótmælendur í sömu sporum og áður. Engir fundargestir biðu þess að komast inn.

Spenna hafði hlaupið í fólk þegar Ahman Taha Seddeeq, ímam, hafði gengið í salinn og fengið sér sæti beint fyrir framan púltið. Hann sat rólegur og skrifaði af og til í bók sem hann hafði meðferðis og skoðaði símann sinn. Hann var eins og brúnt ber í gráu lyngi.

Hann var eins og brúnt ber í gráu lyngi.

Sannarlega rasisti!

Valdimar kom aftur í pontu. Nú kynnti hann Christine Williams á svið. Hann hrósaði henni fyrir gáfur og glæsileik og grínaðist með það að hún væri sannarlega rasisti. Hún væri nefnilega samsett úr afar mörgum „rösum;“ væri svertingi og Kínverji og hvítingi og Indverji. Salurinn hló. Valdimar bætti við að Christine væri fædd í fjölmenningarlegu samfélagi á Trínidad og Tóbagó. Þar hefði fólk lifað í sátt og samlyndi, mann fram af manni, þrátt fyrir fjölbreyttan uppruna og trúarbrögð. Það hefði breyst þegar múslimarnir hefðu bæst í flóruna. Þá hefði fjandinn orðið laus.

Christine steig í pontu. Hún sló á létta strengi og salurinn brosti til hennar. Hófst síðan eldræða. Það var augljóst að hún var vön að tala við Ameríkana en ekki Íslendingana. Einu sinni mismælti hún sig og hélt hún væri heima hjá sér. Kannski var hún þá að horfa á rauðu Trump-húfuna sem einum fundargesti hafði þótt viðeigandi að flagga.

Inntak ræðunnar var einfalt. Með ótal tilvitnunum í eigin bók reyndi hún að gera mjög róttækan og skýran greinarmun á hófsömum múslimum og öðrum múslimum. Hófsamir múslimar eru múslimar sem kinnroðalaust virða og verja bæði stjórnarskrá og lög vestrænna landa. Aðrir væru í meira lagi varasamir. Það væri skylda okkar allra að taka slaginn við þá. Eftir því sem leið á varð ljóst að hinir hófsömu múslimar voru ekki aðeins sérlega löghlýðnir – þeir virtust upp til hópa mjög hægri sinnaðir. Síonistar jafnvel.

Christine hreif salinn með sér. Hún er skörulegur ræðumaður. Þó kom fyrir að hún vandaði sig ekki alveg. Hún ruglaði saman hugtökum, virtist ekki þekkja muninn á aröbum og persum til að mynda, og í svörum til áhorfenda var hún á köflum afar óskýr og froðukennd.

Christine hreif salinn með sér. Hún er skörulegur ræðumaður. Þó kom fyrir að hún vandaði sig ekki alveg.

Fyrstur fundargesta fékk hljóðnemann þekktur svartstakkur úr prestastétt, Geir Waage. Hann vildi láta sálgreina femínista. Af svörunum mátti skilja að femínistar löðuðust að múslimum því þeir væru stjórnlausir villimenn sem vektu móðurlegar kenndir. Næsta spurning féll í skaut kollega Geirs, ímamsins. Í tilefni af því breyttu menn fundarsköpum. Nú mátti fyrirspyrjandinn ekki halda á hljóðnemanum heldur varð að teygja fram álkuna og tala í hljóðnema sem önnur af tveim konum sem voru í hlutverki hljóðnemastanda hélt á.

Snargalnir miðaldardýrkendur

Ímaminn benti á þversögn í máli Christine-ar. Hún hefði tileinkað sér tvöfaldan mælikvarða, talað um íslam eins og ofbeldismenn og tuddar væru dæmigerðir trúmenn en kristni og gyðingdóm hefði hún afgreitt með þeim orðum að ef einhverjir þar væru snargalnir miðaldardýrkendur þá væru þeir örfáir. Hann spurði hverju þetta sætti.

Nú breyttist yfirbragð samkomunnar. Fundarmenn urðu fljótt pirraðir á fyrirspyrjandanum og fóru að hreyta í hann. Frummælandinn tók líka nokkrum hamskiptum og fór að svara með meiri stælum.

Seddeeq: „[...] Í grundvallaratriðum á hið sama við um múslima. Það er mikill minnihluti [sem beitir ofbeldi]. Ef þú getur fært rök fyrir öðru vil ég heyra það.“

CW: „Allt í lagi. Þegar þú sérð fólk grýtt til dauða í löndum múslima, hvernig verð þú það? Hvernig verð þú grýtingar, hvernig verð þú afhausanir, hvernig verð þú það að sýru sé skvett í andlit kvenna þegar þær reyna að sækja sér menntun? Hvernig getur þú lesið fréttir og varið hluti af þessu tagi? Ég vil spyrja þig að því.“ [Lófaklapp] [...]

Seddeeq: „Ég spurði þig spurningar en þú snerir spurningunni upp á mig.“

CW: „Nei, það gerði ég ekki. Ég svaraði spurningunni.“

Eftir nokkurt þref sagði Christine að hún vildi fá spurningar frá einhverjum öðrum. Það væri augljóst hvers konar mann ímaminn hefði að geyma, hann væri ekki góður maður. Og ekki góður múslimi. Mikið var klappað. Konu í salnum blöskraði og hún tók til varna fyrir ímaminn.  Þá kallaði Christine til hennar að hún skyldi gera sér grein fyrir því að hún fengi ekki að rífa svona kjaft í múslimaríki. Að því loknu sagði Valdimar konunni að hætta að rífa sig og bíða eftir hljóðnemanum ef hún vildi tala.

Það væri augljóst hvers konar mann ímaminn hefði að geyma, hann væri ekki góður maður. Og ekki góður múslimi. 

Stemmning var því orðin nokkuð þrúgandi þegar seinni ræðumaður kvöldsins, Robert Spencer, kom í pontu.

Hann hafði setið á fremsta bekk, þétt við neyðarútganginn, meðan kollegi hans talaði. Í hvert sinn sem einhver hafði gert sér ferð framar í salinn hafði hinn gríðarstóri öryggisvörður stigið nokkur skref áleiðis, augljóslega þess albúinn að tækla viðkomandi ef á þyrfti að halda. Meðan Robert talaði sveimaði vöðvabúntið í nokkurri fjarlægð en hafði vakandi auga á fundargestum.

Hófsemd sem vopn

Málflutningur Roberts var skýr. Christine hafði gert greinarmun á hófsömum múslimum og öðrum og nú lagði hann á borðið fléttu sem átti að sýna fram á að menn skyldu fara afar varlega í að treysta hófsömum múslimum. Hann benti á ritskýringu við tiltekinn stað í Kóraninum sem heimilaði múslimum að fela trú sína fyrir óvinveittum. Með dæmum málaði hann þá mynd að hófsemd væri gjarnan vopn í vopnabúri herskárra múslima enda væru trúarbrögðin í eðli sínu herská og drottnunargjörn. Það væri skylduboð múslima sem kæmust í yfirburðastöðu að gera aðra að lærisveinum, skattþegnum eða framliðnum – en fram að því bæri þeim að virðast sem hófsemdin uppmáluð.

Um salinn gengu hvítar fötur. Það hafði komið fram að fyrirlesararnir þægju engar greiðslur frá Íslendingum fyrir að koma til landsins. Tiltækið væri samt sem áður dýrt og hefði reynt á pyngjur þeirra sem stæðu að því. Fólk var því beðið að leggja peninga beint inn á reikning Valdimars eða setja í föturnar. Með því að gefa gætu menn tryggt að framhald yrði á starfseminni. Margir gáfu og sumir mikið. Fötunni, hálffullri af seðlum, var nánast kastað yfir ímaninn, enginn vildi rétta honum hana.

Fólk var því beðið að leggja peninga beint inn á reikning Valdimars eða setja í föturnar. 

Þegar Robert hafði lokið máli sínu var komið að spurningum úr sal. Þær skiptust í tvo flokka. Annars vegnar skjall og hinsvegar gagnrýni. Róbert tók skjallinu vel en gagnrýninni verr. Hann er augljóslega sjóaður í þrætubókarlist og beitti ítrekað fyrir sig þeirri brellu að hafna spurningum á þeim forsendum að þær innihéldu rökvillur.

Þannig svaraði hann til dæmis fyrirspurn sem gekk út á það að nafngreindur maður hefði sagt að hann hefði gefið öfgamönnum skilgreingarvald yfir íslam með þeim rökum að fyrst þyrfti að sanna að viðkomandi maður hefði meira vit á íslam en hann sjálfur. Einn ungan mann tók hann á hné sér og niðurlægði hinum almenna áhorfanda til mikillar skemmtunar. Undir lokin var hann kominn í svo mikið stuð að hann hann beið ekki eftir að spurningar kláruðust heldur svaraði út frá stikkorðum. Jafnvel þannig að spurning og svar væru án samhengis.

Lykilatriði í vörnum Roberts var að eðlismunur en ekki stigs- væri á trúarkenningum hinna stóru trúarbragða. Ekkert í trú kristinna eða gyðinga gerði til þeirra kröfu um að ástunda óhæfuverk. Slíkt væri þó grundvallaratriði í íslam.

Að þora að segja sannleikann

Margir voru afar þakklátir, hrósuðu honum eða þökkuðu innilega fyrir. Á ýmsum mátti skiljast hve gott það sé að til er fólk sem þorir að segja sannleikann. Gefið var í skyn að fólk væri bæði kúgað og undirokað á Íslandi ef það væri sannleikans megin í málefnum íslam.

Robert svaraði því til að hann myndi standa þétt með fundargestum í þessum slag. Þeir skyldu halda áfram að boða sannleikann. Það versta sem gæti gerst væri að lenda í fangelsi – en þar hefði nú margt stórmennið endað – og það væri ekki alslæmt að verða píslarvottur. Þessu var mikið fagnað.

Það versta sem gæti gerst væri að lenda í fangelsi – en þar hefði nú margt stórmennið endað – og það væri ekki alslæmt að verða píslarvottur.

Kerfisbundin ósamkvæmni

Það var ekki alveg laust við að á þessi stigi málsins væri farið að örla á kerfisbundinni ósamkvæmni í hugmyndafræðinni. Fram eftir kvöldi höfðu grunnskyldur vestrænna manna falist í því að framfylgja landslögum og skyldi öll hugmyndafræði og trú takmarkast af þeim. Það var því dálítill losarabragur á því að landslög ætti mögulega að brjóta í þágu sannleikans eða sannfæringarinnar. Það opnar allavega á djúpa ormagryfju í annars einföldu landslagi ef sannleikurinn er ofar landslögum. Það getur orðið erfitt að fanga umræðu um trúmál aftur inn í búr þeirrar snyrtilegu og snurfusuðu möntru að lögin séu hinn endanlegi og nánast heilagi samnefnari samfélagsins.

Ekki að það sé ekki hárrétt að lög þurfi og megi stundum brjóta.

Þá var ekki alveg laust við að spenna myndaðist í málflutningi Roberts um flóttamenn og undirokaða í löndum múslima. Þannig blés hann til örlítillar vandlætingarveislu þegar hann benti á að enginn reyndi að hjálpa eða tæki nærri sér örlög kristinna eða trúlausra í löndum múslima. Hvar er réttur þeirra? Hver hjálpar þeim? Hann tók og undir með Jóni Val Jenssyni að minni vandræði yrðu ef við gættum þess að flytja til landsins kristna flóttamenn frá löndum múslima. Allt svosem gott og blessað, en ekki fyllilega sannfærandi í ljósi þess að kjarninn í ræðu hans var að ekkert væri að marka yfirlýsta afstöðu múslima til trúmála. Kóraninn kenndi þeim að ljúga. Það er erfitt að tala kerfisbundið gegn heilindum fólks úr öðrum menningarheimum en slá sig jafnframt til riddara með tilgerðarlegri hjálpfýsi.

Hann tók og undir með Jóni Val Jenssyni að minni vandræði yrðu ef við gættum þess að flytja til landsins kristna flóttamenn frá löndum múslima. 

Verðirnir taka á honum stóra sínum

Þegar Robert hafði lokið máli sínu var auðvitað klappað heil ósköp. Að því loknu tók lífvarðarrumurinn til sinna ráða. Hliðardyrnar voru opnaðar og fyrirlesurunum ýtt þar út með snatri. Íslenskur háskólakennari og fræðimaður sem reyndi að ná tali af þeim var snarlega stoppaður af og það með nokkru valdi. Þegar hann mótmælti og sagðist aðeins hafa ætlað að spyrja einnar spurningar gekk einn íslensku varðanna, kunnur baráttumaður gegn typpasleikjóum framhjá, og sagði glaðhlakkalegur að það færi nú eftir því hver spurningin væri hvort hann fengi að spyrja hennar.

Þegar hann mótmælti og sagðist aðeins hafa ætlað að spyrja einnar spurningar gekk einn íslensku varðanna, kunnur baráttumaður gegn typpasleikjóum framhjá, og sagði glaðhlakkalegur að það færi nú eftir því hver spurningin væri hvort hann fengi að spyrja hennar.

Hægt en örugglega tæmdist salurinn. Mótmælendur voru á bak og burt. Það var alveg ljóst að flestum hafði þótt vel takast til.

Innlegg í heiðarlega umræðu?

Þessi fundur er umhugsunarverður. Fyrir hann var tekist mjög á. Sumir sögðu að um væri að ræða hatursorðræðu, fólk væri espað upp gegn múslimum á kerfisbundinn hátt. Fundarhaldarar sögðu á móti að umræða um málefni íslam ætti sér ekki stað af hreinskilni og fyrir opnum tjöldum. Fólk óttaðist að setja fram sjónarmið og skoðanir af ótta við að vera stimplaðir rasistar. Þessi fundur væri innlegg í að segja satt um viðkvæm málefni.

Það væri ósanngjarnt að segja að fundurinn hafi að öllu leyti verið hreinn áróðursfundur, þótt hann dytti í það á köflum. Orðið var laust og ýmislegt kom fram sem byggja mætti frekari umræðu á. Það varð fljótt ljóst að þessi fundur var ekki nema að takmörkuðu leyti innlegg í heiðarlega og opna umræðu. Sjónarmiðin voru einhliða og afgerandi. Andsvörum var á stundum mætt með rökklækjum og jafnvel niðurlægingu. Þannig var ítrekað talað til ímansins af hroka og yfirlæti. Átti það ekki síður við um Valdimar en ræðumennina.

Það væri ósanngjarnt að segja að fundurinn hafi að öllu leyti verið hreinn áróðursfundur, þótt hann dytti í það á köflum. 

Fundargestum var tíðrætt um að þeir væru fórnarlömb og að mótmælendur væru ógnandi. Það var samt áþreifanleg leiðindastemming á fundinum sem af og til gaus upp á yfirborðið með dólgslegum frammíköllum.

Það er alveg ljóst að umræða um fjölmenningu og íslam er og þarf að vera flóknari en hörðustu málsvarar fjarlægustu sjónarmiða myndu vilja. Ýmislegt við orð og atferli Roberts Spencers gefur þó til kynna að hann sjái málin í gegnum blóðlitaðar linsur. Og sé nokkuð glámskyggn að auki.

Það var til dæmis undarlegt af honum að lýsa því yfir fyrirfram að þeir sem ætluðu að mótmæla komu hans fyrir utan hótelið væru fasistar. Það var líka skrítið að draga nokkuð í land á fundinum sjálfum og segja að þetta væru kannski ekki bara fasistar heldur bæði fávitar og fasistar.

Hvernig er hægt að taka þjóðfélagsgreiningar slíkra manna fyllilega alvarlega? Á maður að treysta því að maður sem skýtur hátt yfir markið þegar það er nærri honum sé færari um að hitta skotmörk í órafjarlægð?

Það setti líka leiðinlegan svip á fundinn að munstra upp áhöfn hvítliða undir forystu skipstjórans af Halastjörnunni til að taka í lurginn á ímynduðum óvinum. Enda höfðu þeir ekkert að gera. Þeir fengu að taka í lurginn á einum fræðimanni. Um svipað leyti drukku mótmælendur kaffi með hótelsstarfsmönnum fyrir utan salinn, tóku svo til eftir sig og fóru heim.

Kraumandi, væg vænissýki

Kraumandi, væg vænissýki einkenndi fundinn. Vænissýki í garð mótmælenda og vænissýki í garð múslima. Þessi vænissýki leitaði útrásar í áðurnefndum uppnefnum, svívirðingum og ofsa. Hún einkenndi líka alla umræðuna um múslima og íslam.

Það er sár þörf fyrir aukna umræðu um flókin mál á Íslandi. Það þarf að ræða sérstaklega stöðu fjölmenningarsamfélagsins og trúarbragða. Það er virðingarvert að fjölga sjónarmiðum í þeirri umræðu. Það er hinsvegar afar brýnt að slíkt fari ekki fram undir nánast trúarlegum formerkjum, þar sem menn flykkjast bak við einn eða annan skylmingarmann sannleikans – og sjá hvorki né heyra það sem aðrir segja.

Christine Williams og Robert Spencer virðast því miður bæði maríneruð í umræðuhefð upphrópana og áróðurs. Þau láta sem þau séu hófsöm og hófstillt en það er uppgerð. Yfirbragð fundarins var hvorki sannleiksleit né sanngirni, fólk var mætt til að styrkja sannfæringu sína.

Ekki að hún væri veik fyrir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar
1

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar

Heimamenn fyrir norðan slegnir: „Við hentum öllu frá okkur“
2

Heimamenn fyrir norðan slegnir: „Við hentum öllu frá okkur“

Samherjar segja sig úr lögum við siðað samfélag
3

Illugi Jökulsson

Samherjar segja sig úr lögum við siðað samfélag

Kaldir ofnar á Dalvík
4

Hallgrímur Helgason

Kaldir ofnar á Dalvík

Ríkisbankinn átti 3,8 milljarða lán hjá fyrirtækinu sem keypti Afríkuútgerð Samherja
5

Ríkisbankinn átti 3,8 milljarða lán hjá fyrirtækinu sem keypti Afríkuútgerð Samherja

Húnaþing vestra sendir frá sér hjálparkall
6

Húnaþing vestra sendir frá sér hjálparkall

Félög Samherja greiddu 680 milljónir króna í mútur eftir að Jóhannes hætti
7

Félög Samherja greiddu 680 milljónir króna í mútur eftir að Jóhannes hætti

Ógnar netofbeldi gegn konum og stúlkum framtíð okkar allra?
8

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

Ógnar netofbeldi gegn konum og stúlkum framtíð okkar allra?

Mest lesið í vikunni

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar
1

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar

Vaknaði við öskrin
2

Vaknaði við öskrin

Allt í lagi að eiga heimili sem lítur ekki út eins heimili annarra
3

Allt í lagi að eiga heimili sem lítur ekki út eins heimili annarra

Heimamenn fyrir norðan slegnir: „Við hentum öllu frá okkur“
4

Heimamenn fyrir norðan slegnir: „Við hentum öllu frá okkur“

Samherjar segja sig úr lögum við siðað samfélag
5

Illugi Jökulsson

Samherjar segja sig úr lögum við siðað samfélag

Brynjar Níelsson um Siðmennt: „Vonlaus félagsskapur“ og „einhver sá vitlausasti“
6

Brynjar Níelsson um Siðmennt: „Vonlaus félagsskapur“ og „einhver sá vitlausasti“

Mest lesið í vikunni

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar
1

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar

Vaknaði við öskrin
2

Vaknaði við öskrin

Allt í lagi að eiga heimili sem lítur ekki út eins heimili annarra
3

Allt í lagi að eiga heimili sem lítur ekki út eins heimili annarra

Heimamenn fyrir norðan slegnir: „Við hentum öllu frá okkur“
4

Heimamenn fyrir norðan slegnir: „Við hentum öllu frá okkur“

Samherjar segja sig úr lögum við siðað samfélag
5

Illugi Jökulsson

Samherjar segja sig úr lögum við siðað samfélag

Brynjar Níelsson um Siðmennt: „Vonlaus félagsskapur“ og „einhver sá vitlausasti“
6

Brynjar Níelsson um Siðmennt: „Vonlaus félagsskapur“ og „einhver sá vitlausasti“

Mest lesið í mánuðinum

Hin stóra fréttin í Samherjamálinu er að birtast okkur
1

Jón Trausti Reynisson

Hin stóra fréttin í Samherjamálinu er að birtast okkur

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar
2

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar

Vaknaði við öskrin
3

Vaknaði við öskrin

Óttast um líf sitt eftir hótanir á Seyðisfirði: „Þetta er mafíu starfsemi“
4

Óttast um líf sitt eftir hótanir á Seyðisfirði: „Þetta er mafíu starfsemi“

Yfirlögfræðingur Samherja er ræðismaður skattaparadísarinnar Kýpur og fundaði með mútuþegunum
5

Yfirlögfræðingur Samherja er ræðismaður skattaparadísarinnar Kýpur og fundaði með mútuþegunum

Er ekki Áslaug Arna stórkostlegur dómsmálaráðherra?
6

Illugi Jökulsson

Er ekki Áslaug Arna stórkostlegur dómsmálaráðherra?

Mest lesið í mánuðinum

Hin stóra fréttin í Samherjamálinu er að birtast okkur
1

Jón Trausti Reynisson

Hin stóra fréttin í Samherjamálinu er að birtast okkur

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar
2

Upptaka af reiðisímtali Jóhannesar við eiginkonu hans birt gegn vilja hennar

Vaknaði við öskrin
3

Vaknaði við öskrin

Óttast um líf sitt eftir hótanir á Seyðisfirði: „Þetta er mafíu starfsemi“
4

Óttast um líf sitt eftir hótanir á Seyðisfirði: „Þetta er mafíu starfsemi“

Yfirlögfræðingur Samherja er ræðismaður skattaparadísarinnar Kýpur og fundaði með mútuþegunum
5

Yfirlögfræðingur Samherja er ræðismaður skattaparadísarinnar Kýpur og fundaði með mútuþegunum

Er ekki Áslaug Arna stórkostlegur dómsmálaráðherra?
6

Illugi Jökulsson

Er ekki Áslaug Arna stórkostlegur dómsmálaráðherra?

Nýtt á Stundinni

Bók um Kjarval fagnaðarefni fyrir börn

Anna Margrét Björnsson

Bók um Kjarval fagnaðarefni fyrir börn

Já, ekki spurning: ég er hér!

Já, ekki spurning: ég er hér!

Að ganga

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir

Að ganga

Teflið ekki í tvísýnu með jólabaksturinn

Teflið ekki í tvísýnu með jólabaksturinn

Skilar kolefnisjöfnun með gróðursetningu trjáa tilskildum árangri?

Skilar kolefnisjöfnun með gróðursetningu trjáa tilskildum árangri?

Gætum að lýðræðinu: Byltingar minnihlutans

Illugi Jökulsson

Gætum að lýðræðinu: Byltingar minnihlutans

Bara lögum þetta!

Bara lögum þetta!

Aðventa í Aþenu

Jón Bjarki Magnússon

Aðventa í Aþenu

Félög Samherja greiddu 680 milljónir króna í mútur eftir að Jóhannes hætti

Félög Samherja greiddu 680 milljónir króna í mútur eftir að Jóhannes hætti

Ríkisbankinn átti 3,8 milljarða lán hjá fyrirtækinu sem keypti Afríkuútgerð Samherja

Ríkisbankinn átti 3,8 milljarða lán hjá fyrirtækinu sem keypti Afríkuútgerð Samherja

Húnaþing vestra sendir frá sér hjálparkall

Húnaþing vestra sendir frá sér hjálparkall

Samherjar segja sig úr lögum við siðað samfélag

Illugi Jökulsson

Samherjar segja sig úr lögum við siðað samfélag