Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Um mennskuna og úrelta færni

Um mennskuna og úrelta færni

Það er gaman að vera áhugamaður um menntamál þessa dagana. Nú virðist loks hafa ratað til Íslands umræða um rannsóknir Kristjáns Kristjánssonar og félaga við Birmingham-háskóla. Þetta eru býsna merkilegar rannsóknir um líkleg mannbætandi áhrif sums tómstundastarfs, sérstaklega lista. Þetta rannsóknarsvið mun eflaust vaxa mjög á næstu árum og áratugum. Á tímum gervigreindar (og upprennandi ofurgreindar) verður spurningin um mennskuna sífellt ágengari og við hljótum að velta upp eldgömlum grundvallarspurningum um hið góða líf og farsældina.

Og talandi um gamlar grundvallarspurningar. Nú hef ég rekið augun í tvær greinar þar sem frekar íhaldssamir karlar standa upp til varnar Písa-prófunum. Af báðum greinum að dæma er reikningur og lestur grundvöllur alls náms (ásamt náttúrufræði) og jafnvel hið eiginlega hlutverk grunnskólans. Af annarri greininni má eiginlega draga þá ályktun að grunnskólanám í reikningi og lestri sé kóróna þrjúhundruð þúsund ára þróunarsögu hins viti borna manns. Lesa má greinarnar hér og hér.

Það má hafa langt mál um Písa-prófin og árangur (eða skort á árangri) íslenskra barna á þeim. Sú umræða hefur marga agnúa og teygir sig um allt. Hún er samt býsna skemmtileg þessi hugmynd um að lestur, reikningur og skrift sé grundvöllur alls náms og svo sígildir eiginleikar að þeir verði varla úreltir næstu 300 þúsund árin eða svo.

Pisa-prófin eru að mörgu leyti ágætlega samin (mun betur en íslensku samræmdu prófin). Í þeim er mikil áhersla á lesskilning. Ég verð að játa að ég er dálítill íhaldsmaður (eins og greinarhöfundarnir báðir) þegar kemur að mikilvægi lesskilnings. Ég tel einna mikilvægast að þjálfa (upp að því marki sem það er hægt) hæfnina til að skilja, færnina til að pæla sig í gegnum texta (eða aðra miðla) og uppskera þekkingu. Ég skal meira að segja viðurkenna að þar til nýlega hélt ég að þetta yrði enn um langa hríð meginmunur á lifandi og dauðri greind. Það mætti þjálfa tölvur í skák eða upplestri – en þær myndu aldrei skilja neitt.

Þetta er samt ekki svona einfalt. 

Tökum þennan texta sem dæmi:

„Architecturally, the school has a Catholic character. Atop the Main Building's gold dome is a golden   statue of the Virgin Mary. Immediately in front of the Main Building and facing it, is a copper statue of Christ with arms upraised with the legend \"Venite Ad Me Omnes\". Next to the Main Building is the Basilica of the Sacred Heart. Immediately behind the basilica is the Grotto, a Marian place of prayer and reflection. It is a replica of the grotto at Lourdes, France where the Virgin Mary reputedly appeared to Saint Bernadette Soubirous in 1858. At the end of the main drive (and in a direct line that connects through 3 statues and the Gold Dome), is a simple, modern stone statue of Mary.“

Skoðum svo þessar spurningar: 

„To whom did the Virgin Mary allegedly appear in 1858 in Lourdes France?“

„What is in front of the Notre Dame Main Building?“

„The Basilica of the Sacred heart at Notre Dame is beside to which structure?“

„What is the Grotto at Notre Dame?“

„What sits on top of the Main Building at Notre Dame?“

Þetta er ekki af Písa-prófi. Þetta gæti vel verið það. Þetta er hinsvegar úr dæmasafni Stanford-háskóla (SQuAD). Þessi texti og þessar spurningar eru notaðar til að dæma um gæði lesskilnings tölvuforrita. Forritin eru látin lesa texta og svara spurningum og árangurinn er síðan borinn saman við venjulegt fólk. Þetta er raunar nákvæmlega sama hugmynd og með Písa-prófunum, nema í stað þess að þjóðir séu að metast um lesskilning þá keppast forritarar við að þróa læsar tölvur.

Það er ekkert launungarmál að forrit hafa átt erfitt uppdráttar á þessu sviði. Þar til alveg nýlega. Þau undur og stórmerki áttu sér stað á dögunum að ekki færri en tvö tölvuforrit reyndust jafn góð eða betri í lesskilningi en lifandi fólk. Það má smella á hlekkinn hér fyrir ofan til að sjá niðurstöðurnar.

Þetta eru viss vatnaskil. 

Sumt fólk hefur samt búist við þessu. Því hefur til dæmis verið spáð í nokkurn tíma að lögfræði, eins og við þekkjum hana, verði ekki til innan fárra áratuga. Sú hugmynd sem við höfum sum í kollinum um lögfræðinga sem gangandi lagasöfn með dómafordæmi á hverjum fingri verður þá einfaldlega svo hjákátleg og úrelt við hliðina á forritum sem greint geta milljónir dóma, laga og annarra texta á augabragði nánast villulaust. Það verður ennþá til fólk sem sýslar með lög og lögfræði – en færni þess mun liggja á öðrum sviðum en áður.

Það er freistandi að reyna að gera einfaldan greinarmun á mannlegri greind og gervigreind. Það væri til dæmis hægt að halda því fram að munurinn á fólki og tölvum liggi í því að fólk geti skapað en tölvur geti bara apað. Það er samt sem áður næstum örugglega rangt. Tölvur munu geta lært í framtíðinni (þær eru byrjaðar á því). Hún er t.d. nánast óhugnarleg skákvélin sem lærði mannganginn og varð ósigrandi á mettíma með því að tefla í sífellu við sjálfa sig með frumlegri hætti en hingað til. Þá kom nýlega út tónlistarbreiðskífa sem samin var af tölvu. Hún var ekki svo slæm. Það þarf ekki einu sinni verulegt ímyndunarafl til að hugsa sér forrit sem greinir tónlistarsmekk og notar síðan algrím til að þróa tónlist eða aðra list sem fellur neytendum í geð. Það þarf verulega nærsýni til að halda að forskot mannlegrar greindar á gervigreind sé óbrúanlegt.

Þess vegna eru þær svo aðkallandi spurningarnar um mennskuna og farsældina. Áður voru til risastórir vinnustaðir þar sem mörg hundruð manns unnu vinnu sem ein tölva leysti seinna af hólmi. 

Nú er ég ekki að segja að lestur og reikningur sé úreltur. Svo er alls ekki. Það blasir hinsvegar við að heimurinn er að breytast og að hugmyndir okkar um grundvallarfærni munu taka einhverjum breytingum. Skólakerfi gegna þar lykilhlutverki. Það mun í framtíðinni líklega reyna meira á aðlögunarfærni, skapandi hugsun, samskiptafærni og (dirfist ég að segja það?) siðvit. Sá er ekki lengur besti læknirinn sem man mest utanbókar heldur hinn sem kann að umgangast fólk  (tæknin leysir hitt af hólmi).  Sá er ekki besti lögmaðurinn sem kann flest dómafordæmin heldur hinn sem færastur er um að miðla málum.

Það er allavega alveg ljóst að við stöndum á tímamótum. Stefnumarkendur um heim allan vita þetta og með samfelldu átaki er hægt og rólega verið að reyna að beita opinberum kerfum (þ.á.m. menntakerfum) til að undirbúa fólk fyrir óvissa framtíð. Þetta er óhemjuflókið viðfangsefni sem krefst mikils mannauðs og sterkra innviða. Hér þurfa menntakerfi, atvinnulíf og hið opinbera að vinna saman. 

Það verður að sækja fram. Barnanna okkar munu bíða gríðarleg tækifæri og risastórar áskoranir. Við þurfum að horfast í augu við það og mæta verkefninu af ábyrgð. Eitt af því sem ekki má vanrækja er lestur og reikningur. Það er hinsvegar alveg ljóst af lestri grunnskólalaga og námskrár að mun fleira liggur undir.

Það þarf að gjalda sérstakan varhug við okkur, íhaldssömu mönnunum, sem höldum að það skólakerfi sem býr til menn eins og okkur sé á einhvern hátt krúnudjásn þróunar mannsandans. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu