Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Rútuslysið og fjölmiðlar

Góður vinur sagði mér sögu af því nýlega hvernig hann hefði rætt fréttir og fréttamat við þrautreyndan blaðamann. Umræðuefnið var hvort fréttir þyrftu að vera svona neikvæðar. Fjölmiðlamaðurinn taldi það nánast liggja í eðli frétta. Þær fjölluðu um hið óvenjulega. Áföll og hörmungar væru stórt hlutmengi þess.

Ég er sammála því að það liggi nánast í skilgreiningu á frétt að hún sé eitthvað óalgengt eða óvenjulegt. Slík skilgreining ein hlýtur þó að vera of þröng. Fréttir hljóta líka að vera upplýsandi, jafnvel um hversdagslega hluti. Veðurfréttir eru til að mynda ekkert minni fréttir þótt veðrið sé fyrirsjáanlegt. Samt er það vissulega fréttnæmara þegar veður eru óvenju vond eða góð.

Mig grunar samt að fréttamat í íslenskum fjölmiðlum sé í nokkrum ólestri. Þessi vandi hefur margar rætur. Sumar þeirra liggja utan fjölmiðlanna. Aðrar er nærtækari. Ég held til dæmis að atgervisflótti blaðamanna og kröpp kjör hafi skaðað mjög eina mikilvægustu fagstétt landsins. Það er nánast hugsjónastarf að vera blaðamaður í dag. Þú vinnur við óboðlegar aðstæður og jafnvel undir stöðugri, og mjög persónulegri, ágjöf fyrir léleg laun. Þá er starfsöryggi þitt lítið sem ekkert.

Hið hörmulega rútuslys sem varð núna um jólin finnst mér hafa afhjúpað fjölmiðla dálítið. Og ekki bara einn fjölmiðil. Heldur nokkra. Og suma þá stærstu.

Á alla mælikvarða er það frétt þegar fólk sem ferðast hefur um langan veg liggur dáið og stórslasað í vegkanti í ókunnu landi um jól. Það framkallar viðbrögð. Í þessu tilfelli þau að vegfarendur lögðu bílum sínum og reyndu allt hvað þeir gátu til að hjálpa. Íbúar í nágrenninu drógu fram teppi og mat og þustu af stað til að reyna að verða að gagni. Íbúar fjær ruku af stað til að gefa blóð. 

Þessi hörmulegi atburður snertir við okkur öllum og viðbrögð okkar eru sársauki. Upp úr sársaukanum sprettur síðan einlægur vilji til að hjálpa. 

Nálgun fjölmiðla varð strax ljós í fyrstu viðtölum eftir slysið. Þar var rætt við fólk sem stuttu áður hafði í örvæntingu reynt að bjarga fólki sem lá stórslasað og fast undir rútu. Viðbragðsaðilarnir reyndu sitt besta til að veita upplýsingar og gerðu það af mikilli fagmennsku. Það er ekki sjálfsagt að standa fyrir framan myndavél og svara spurningum stuttu eftir að hafa starfað á vettvangi slyss.  

Í tveimur viðtölum sem ég sá í gær komu augnablik þar sem viðmælandanum leið bersýnlega illa. Það var þegar fréttamaðurinn vildi klára fréttina með því að finna einhverja blóraböggla eða sökudólg. Úr varð einhverskonar moðsuða um að innviðir væru ekki nógu sterkir á þessu svæði eða að alltaf mætti nota meiri peninga. Smám saman hefur svo málið þróast á þann veg að sökudólgurinn er hvatvísi ferðamanna á bílaleigubílum eða landlægur skortur á notkun öryggisbelta.

Nú efa ég það ekki eitt augnablik að draga þurfi lærdóm af slysum eins og þessu. Og eitt af því sem gera þarf er að styrkja innviði og bæta umferðarmenningu. Þegar samgönguslys eru rannsökuð fylgir nánast undantekningalaust greinargerð um það hvað megi bæta og laga.

Mér finnst samt ankannalegt að sjá fjölmiðla reyna að draga fram blóraböggla og búa til hneyksli sem nokkurskonar fyrsta viðbragð við erfiðleikum eða hörmungum. 

Viðbragð venjulegs fólks við svona aðstæðum er hlýhugur, sársauki og vilji til að gera gagn. Viðbragð fjölmiðla er að skapa tortryggni, reiði og gremju.

Ég held það sé vegna þess að sterkar tilfinningar ýta undir læk og lestur. Og ég held að fjölmiðlar séu dálítið blindir á það að til eru fleiri sterkar tilfinningar en neikvæðar. 

Ég held líka að fjölmiðlar ýti undir þá ranghugmynd að reiði og gremja séu öflugustu hvatar framfara og betrumbóta. 

Það má margt gera betur í samfélaginu okkar. Af hverju einasta slysi þarf að læra. En lærdómurinn má ekki grundvallast eingöngu á tilfinningalegu uppnámi. Hann á líka að grundvallast á skynsemi og vandvirkni. 

Það var algjörlega óþarft að reka hljóðnema framan í manneskjur, sem stuttu áður sátu yfir líki ungrar konu og syrgjandi og slösuðum samferðamönnum hennar, og reyna að róta upp hneyksli. Það var hvorki töff né fagmannlegt heldur. Þvert á móti helgaðist það af ávana eða ósið – sem í þessu tilfelli gerði fréttamennina glámskyggna á það sem raunverulega skipti máli.

Við þurfum að læra af þessu máli. Ég sting upp á að fjölmiðlar geri það líka. Ég held þeir þurfi smá tilfinningalega afvötnun. Þeir eru margir orðnir háðir hatri og heift.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu