Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Hinn ævintýralegi kostnaður geðheilsu minnar

Ég hef greitt 280.000 kr. fyrir sálfræðiþjónustu síðan ég greindist með krabbamein í febrúar. Ástæðan er einföld: ég vil ná fullum bata, andlega og líkamlega. Svona atburðir í lífi manns eru mjög þungbærir og það er mikið áfall sem nauðsynlegt er að vinna úr með aðstoð heildrænna meðferða á líkama og sál.


Fjölskyldan mín þarf á mér að halda, og ég þarf á því að halda að vinna með sálfræðingi sem hentar mér og mínum þörfum. Í mínu tilfelli er ég að sækja aðallega sálræna aðstoð og áfallahjálp.


Þetta kostar. En þetta kemur mér hraðar útí samfélagið og hefur fiðrildaáhrif fyrir umhverfið og alla í kringum mig. Sonur minn á skilið að eiga heilbrigða mömmu. Maðurinn minn á skilið að endurheimta konuna sína frá kvíðanum og óvissunni sem fylgir svona atburði.


En það gerir mig sorgmædda að það skuli teljist til forréttinda að geta flýtt bata þínum eingöngu af því þú hefur efni á því. Samfélagið okkar á betra skilið. Sálfræðiþjónustan sem er í boði fyrir okkur sem veikjumst, sú niðurgreidda eða fría, er ekki burðug til að geta þjónustað alla og einnig er það þannig að ekki allir sálfræðingar henta öllum. Þetta er einstaklingsbundin meðferð.


Þetta eiga ekki að vera forréttindi, heldur sjálfsagður og órjúfanlegur hluti af meðferðinni.


Mitt atkvæði fer til flokks sem ætlar að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Þetta eru ekki fríðindi. Heldur okkur lífsnauðsynlegt.

 

#krabbameinkostar #kosningar

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu