Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Fjaðrir stjórnmálavængjanna og langi “shit-listinn”

Ég vil ekki óbreytta stöðu í heilbrigðiskerfinu, ég kýs ekki flokkinn sem er stjórnað af manneskju sem er með svo langan “shit-lista” af skandölum og siðferðislega vafasömum vafningaviðskiptum að engin leið er fyrir almenning að trúa því að eitthvað annað en hans eigin hagsmunir séu þar að verki. Flokk sem segist hlusta á þolendur en virðist hafa ítrekað og kerfisbundið hunsað öll samtöl við þá. Flokkur sem vill ekki, kann ekki og getur ekki losað sig við formanninn sem er eins og fullur pabbi í maníukasti og heimtar að allir haldi því fram að hamingjan búi í Valhöll. Af því það telst vera einhverskonar hefðarréttur hans.

Flokkar sem ríghalda í dysfúnksjónal formanninn sinn fá aldrei mitt atkvæði.
Eins og í alvöru sápuóperum þá eru stjórnmál alltaf reglulega á dagskrá, aðalpersónur virðast seindrepnar og þó þær séu skrifaðar út úr handritinu þá rísa þær upp frá dauðum, jafnvel sem vondur tvíburi með exem, í nýjum jakkafötum og öðruvísi bindi.

Í dag kýs ég Pírata. Af því ég veit að þeir munu hlusta á samfélagið og gefa okkur sem þurfum á tafarlausum breytingum á heilbrigðiskerfinu rödd til þess að breyta til hins betra. Valið stóð á milli þeirra og Vinstri Grænna. Vonandi fá þessir flokkar tækifæri til þess að starfa saman.

Ég er opin fyrir samræðum við allar fjaðrir stjórnmálavængjanna, frjálshyggja getur verið falleg hugsjón ef forystan er einlæg og án spillingar. Mig langar til þess að skilja alla einstaklinga samfélagsins, ég vil taka það fram að þó við séum ósammála þá ber ég virðingu fyrir atkvæði þínu þó áherslur okkar og hugsjónir séu ekki eins.

En spilling, lygar, leyndarhyggja og slæm framkoma gagnvart þolendum kynferðisofbeldis gerir mér erfitt fyrir og stjórnmálahnitin í heilanum mínum hnipra sig saman og staðfastlega hjúpa sig í jafnaðarmennskunni til þess að komast í gegnum daginn og halda í þá trú að gott vinni illt á endanum.

Það sem ég er að reyna að segja er, að sama hversu mikið ég reyni að hlusta á og skilja stjórnmálaöfl sem skilgreina sig til hægri, þá virðist íhaldið alltaf rjúfa tengingu samtalsins með leyndarhyggju og orðaflaumi.

Det er nu det.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu