Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Snapað og sníkt á lyfjamarkaðnum

Snapað og sníkt á lyfjamarkaðnum

Hér er örstutt framhaldssaga um" #snapaðogsníkt lífsnauðsynlegra lyfja" málið sem kannski einhverjir urðu varir við fyrir nokkrum vikum, þ.e.a.s., þegar ég og aðrar konur sem þurfum andhormónameðferð eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein lentum í lyfjaskorti. Eftir að hafa vakið athygli á þessu "lauk" málinu með fögrum fyrirheitum Lyfjastofnunar, Landlæknisembættisins og hagsmunaaðilum eins og heildsölum og lyfjaframleiðendum um stórkostlega úrbótaáætlun og samræmingu á verkþáttum til þess að koma í veg fyrir lyfjaskort. Þessi vinna er væntanlega enn í vinnslu.

Kvíðatilfinningin sem leggst ofan á óvissuna um hvort og hvenær lyf sem eiga að fyrirbyggja að lífshættulegir sjúkdómar taki sig upp aftur verði fáanleg, er tilfinningaþrælkun sem enginn einstaklingur ætti að láta bjóða sér.

Í dag er svokallaður sprautudagur varði ég óvænt morgninum keyrandi á milli apóteka til þess að tryggja mér Zoladex sprautu, sem er lyf með verkun á innkirtla, í stuttu máli þá slekkur lyfið á eggjastokkunum. Lyfið var nefnilega ófáanlegt hjá framleiðanda og Apótekarinn átti bara til 2 sprautur á lager af þeim 15 útibúum sem eru á höfuðborgarsvæðinu. Ég var því heppin og gat brunað útí Austurver, með háan blóðþrýsting og mikla vanmáttartilfinningu yfir því hversu glatað það er að þurfa að eyða dýrmætum tíma í þessa vitleysu. Á biðlistanum inn á Distica stóð að Zoladex væri "í skoðun vegna frávika sendinga", en nú virðist sem lyfið verði afhent úr vöruhúsi á morgun, 13.nóvember. Fjúff, léttir, ekki satt?!

Ég hef oftast nýtt mér lyfjastyrk Krafts, sem er í gegnum Apótekarann og fengið lyfið frítt. Því ég fer aldrei í "núllið" þegar kemur að Zoladex-inu góða, af því það er til ódýrara samheitalyf sem er verra, það er ekkert leyndarmál, það er bara verra. Punktur.

Ef þið heyrið einhvern segja "nálin er ekki jafnbeitt og á frumlyfi" mynduð þið ekki veigra ykkur undan samheitalyfinu?

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það er glötuð tilfinning að vera þræll samheitalyfsins og tilraunadýr heilbrigðiskerfisins ef maður er blankur eða vill spara sér á bilinu 6.000 - 20.000 kr. eftir því í hvaða þrepi maður er í.

Dýrmætur tími og krabbamein sem kostar

Við þurfum að fara úr vinnu eða skóla á 28 daga fresti (Krabbameinsdeildin tekur á móti okkur á mánudögum milli kl. 14:00 - 15:30) með tilheyrandi tekjuskerðingu (ef vinnuveitandinn er ekki með sómakennd og dregur af launum þetta vinnutap), sækja sprautuna sem við verðum að muna eftir að panta fyrirfram með símtali í apótekið sem er ódýrast. (Landspítala apótekið er eitt dýrasta apótek á landinu), þetta er dýrt lyf, fáir nota það og enginn er með það á lager að óþörfu. Ef við viljum borga minna þá getum við keypt samheitalyf sem er, eins og ég sagði hér að ofan, ekki með jafn beittri nál og veldur því meiri sársauka.

Þegar sprautan er komin í bakpokann þá skundar maður uppá Landsa, borgar í stöðumæli, skellir sér inn á 11B, skráir sig inn, labbar yfir á 11E, bíður þar á biðstofunni, hittir yndislegan og hlýjan hjúkrunarfræðing sem stingur mann og tekur við fyrirspurnum, labbar aftur yfir á 11B, fer í röð til að borga fyrir þjónustuna og fer svo að lokum aftur út í daginn (stundum með smá goserelin höfuðverk). Badabúmm! Ekkert mál! Er það ekki? Toppþjónusta. Bara smá vesen þegar lyfið er ekki til. #lyfjaskorturinn

Mér finnst við brjóstakrabbameinskonur ("including, but not limited to") vera ógeðslega miklir töffarar sem viljum bara halda áfram lífinu. Við höldum heimili, sinnum vinnu, skóla, börnum og fjölskyldu og gefum okkur engan afslátt í lífi, leik eða starfi.

Er of mikið að biðja um minni tilraunastarfsemi, meiri afslátt, góða þjónustu og sjálfsagt öryggi í heilbrigðiskerfinu þegar maður er (áframhaldandi) sprellifandi, frískari með hverjum deginum og ungur skattgreiðandi sem er nýbúinn að ganga í gegnum áfall sem er á topp 5 listanum yfir "stærstu áföllin í lífinu"??

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu