Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Öreigabrandarar

Í upphafi árs hleypti Fox sjónvarpsstöðin af stokkunum sjónvarpsþættinum Knock Knock Live, sem gekk út á að ríkt og frægt fólk bankaði upp á heima hjá fólki sem er hvorki ríkt né frægt til að gefa því pening. David Beckham tók þátt og Justin Bieber var væntanlegur en áhorfið reyndist undir væntingum og eftir aðeins tvo þætti var efnið tekið af dagskrá.

Aðrar sjónvarpsstöðvar virðast nú hins vegar veðja á að vandinn hafi ekki verið að fátækt sé óheppilegt skemmtiatriði, heldur að úrvinnslan hafi verið of meinlaus.

Í nýtilkynntri þáttaröð CBS, The Briefcase, fá í hverjum þætti tvær fjölskyldur í alvarlegum skuldavandræðum boð um 101 þúsund dali að gjöf. Án þess að vita af tilboði hvor annarrar þurfa fjölskyldurnar að ákveða hvort þær halda fénu eða deila því með hinni fjölskyldunni, sem þau fá endurtekið að heyra hversu sárt eigi um að binda: pabbinn missti fótlegg í Írak, amman kemst ekki í aðgerð, húsnæðislánið gjaldfallið og svo framvegis – vitaskuld fyrir framan myndavélar. Hvor viltu að verði heimilislaus, börnin þín eða börnin þeirra? Skemmtunin felst í að sjá þátttakendur fást við þá siðferðilegu klípu að forgangsraða eigin vandamálum og annarra, velja á milli reisnar og ef ekki bjargálna, þá í það minnsta stundarfriðar. 

Þetta öreigagrín eða hungurleikatrend meðal dagskrárstjóra er ekki sér-bandarískt fyrirbæri. Í Bretlandi hefur ríkissjónvarpið, BBC2, hafið framleiðslu á raunveruleikaþætti sem stöðin nefnir „Britain's Hardest Grafter“: harðasti vinnuþjarkurinn eða eitthvað í þá veru. Í þáttunum munu tuttugu og fimm fátæklingar, það er láglaunafólk eða bótaþegar, reyna sig við ólík störf. Þeim sem áhorfendum þykir standa sig lakast við starfið hverju sinni er hent úr keppni þar til eftir stendur einn sigurvegari. Sá eða sú heppna fær sem nemur árslaunum eða bótum í verðlaun: 15.500 pund, um þrjár milljónir króna.

Bandaríkin reiða sig með öðrum orðum á einkaframtakið en í konungsveldinu er niðurlægingin í boði hins opinbera. Forsvarsmenn BBC verjast gagnrýni með því að kalla þættina félagslegt rannsóknarverkefni og nefna dæmi um leiðarspurningar: leggja innflytjendur sig harðar fram en innfæddir? Er vinnusiðferði fyrri kynslóða fyrir bí? og svo framvegis. Fylgist með og fáið svör í næsta þætti.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu