Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

„Af því það er aumkvunarlegt að vita menn vera þræla“ – Fréttir 1836

„Af því það er aumkvunarlegt að vita menn vera þræla“ – Fréttir 1836

Eftir að gera grein fyrir hugmyndinni um fréttir segir í greininni „Frjettir frá vordögum 1835 til vordaga 1836“ í tímaritinu Skírni síðarnefnda árið: „Víkur nú að so mæltu til þess er merkilegast hefir viðborið árið sem er að líða; og verður first gjetið þeirra þjóða, sem oss eru fjærstar að ættum og bústöðum, og þokast síðan nær og nær.“

Tíu blaðsíðum síðar má lesa um þá baráttu Kúrda fyrir sjálfstæði sem enn stendur yfir – Skírnir nefnir þá Kurða: „það mun vera þjóðkunnugt að Kurðar eru skattgildir, Tirkjum þær ættirnar, sem vestar búa, enn hinar eístri Persum. Nú vilja Kurðar, að lokið sje þeirri venju; og hafa sagst úr lögum og sambandi bæði við Persa og Tirki. Hefir Tirkja-keisari gjört her á hendur þeim, og mælst til af Persum, að þeir ljetu ekki sitt eptir liggja, og færu að þeim austanvert. Sá maður ræður firir Tirkja-hernum, er Reskiður („Reschid“) heitir, og jarð („Pascha“) að nafnbót. Hann hefir átt við þá Kurðana orustur margar og smáar. Skjaldmær eín rjeð firir kurðneskum flokki; enn Tirkir náðu henni, og var hún flutt til Miklagarz. Ekki hefur spurst, hverjar málaliktir hafi síðan orðið með þeim Kurðu og Reskiði jarli.“

Enn fjörutíu blaðsíðum síðar hefjast fréttir af „sambandsírkjunum (þjóðveldunum) í norðurhluta Vesturálfunnar“, þar sem við nú köllum Bandaríkin. „Kaupskapur sambanzþjóðanna“ er sagður „í uppgángi“ og sýnt fram á það með upptalningu fjárhæða. Svo segir: „Einn hlutur er sá, að þjóðveldum þessum er til mikillar hneisu; enn það er meðferðin á svörtu-mönnum; og sannast það hjer, að „fátt er so ágjætt að ekki meígi að því finna.“ Í norðurhluta þessara landa er að sönnu aftekinn þrældómur; enn hinir svörtu menn eru þó firirlitnir sökum litarins. Í suðlægu ríkjunum eru þeir enn í dag þjáðir og þrælkaðir þúsundunum saman; og ef sá líður risi uppi að hefna sín, eins og hann er albúinn til: þá mættu margir, sem þikjast af hvíta litnum, biðja til guðs, að þeir irðu svartir sem hrafnar. Bæði til að forða þeim þessari bæn, og á hinn bóginn af því það er aumkvunarlegt að vita menn vera þræla; verða margir til að prjedika frelsi þeirra; enn hinir, sem þrælanna eiga, og verra hafa málstaðinn, verða bálvondir (eins og vant er að fara), og vinna mörg grimdarverk bæði á þrælunum og þeirra talsmönnum. Samt er valla efandi, að þetta kjemst í lag seínt eða snemma, so sannarlega sem heiminum er að fara fram!“

Stundum heyrist um sögu rasisma á Íslandi að fólk hafi ekki vitað betur: ekki þegar við neituðum flóttafólki um komu til landsins í seinna stríði, ekki þegar ríkisstjórn Íslands krafðist þess að engir svartir menn yrðu í herliði Bandaríkjanna, ekki þegar Tíminn sló upp fyrirsögn um það að þeldökkur maður hefði sést á landinu upp úr 1970, og svo framvegis. Í hvert einasta sinn reynist þetta þvæla, þegar vel er að gáð: drjúgur hópur fólks vissi alltaf betur. Um átök þeirra við útilokunarsinna eru í hvert sinn til ítarlegar heimildir. Að árið 1836 hefði á Íslandi fundist skýr og gagnrýnin meðvitund um kúgun og mismunun svartra í Bandaríkjunum – rúmri öld fyrir seinni heimsstyrjöld – vissi ég hins vegar ekki.

Skírnismönnum virðist þykja heldur vandræðalegt að fréttirnar séu ekki ítarlegri og skuli ekki „nálægjast þeírri hugmynd, sem við höfum gjert okkur um þetta efni“. Til útskýringar telja þeir upp eftirtaldar takmarkanir: „það first, að þeir sem best eru að sjer, vita ekki enn í dag hvursu margar þjóðir eru til í heíminum. Það þvínæst, að sumra þjóða er að aungvu gjetið, af því hamingjan, eða vilji sjálfra þeirra, hefir hagað því so, að þær eru haldnar og kallaðar annara undirlægjur. Það þriðja, að þær fregnir sem berast úr sumum löndum, eru so bjagaðar og heímskulega afbakaðar, að ekki verður við þær átt; eíns og þeír gjeta nærri, sem eitthvað hafa komist á snoðir um, hvurskins sögur utan af Íslandi gánga hjer um þetta land — þó auðvitað sje, að ekki leggi trúnað á þær, utan óvitrir menn. Það er hið fjórða, að annríki og tímaskortur banna okkur að leggja á þettað alla þá stund, sem þirfti og vera bæri — eínkanlega þar eð frjettaritin eru ekki að eíns áframhald þjóða-sögunnar, enn eíga þar á ofan að skíra frá öðru því sem viðber, t.a.m. jarðeldum, halastjörnu-komum o.s.frv.“

Fréttaflutningur var með öðrum orðum háður takmörkunum árið 1836, skyldum þeim sem við þekkjum í dag: af undirokuðum löndum heyrum við minna en herraþjóðum, sumt er óáreiðanlegt, jafnvel logið, og svo þarf að segja frá öllum þessum halastjörnum … Þrátt fyrir takmarkanirnar sem Skírnir tókst á við þykir mér þessi 180 ára gamla grein ljóstra upp um hvernig daglegur fréttaflutningur er ekki endilega meira upplýsandi en þær fréttir sem þá bárust árlega. Ekki til nostalgíu, ekki að ég láti mig dreyma um frið fyrir internetinu, eða telji hraðann einskis virði. En gildi hans felst sennilega ekki í meiri þekkingu. Í það minnsta myndi þekking mín á viðburðum heimsins árið sem er að líða ekki fylla fleiri síður, hvað þá fylla þær betur, en fréttagrein ársins 1836.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu