Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hættuleg mynd

Hættuleg mynd

Ég finn hana ekki í fljótu bragði, myndina sem ég sá í gær eða fyrradag, af sprengdri brú í Sýrlandi. Það hlýtur að hafa verið Sýrland, þar erum við að sprengja, ég las þó ekki myndatextann af nægri athygli til að ég myndi veðja lífi kattar upp á það. En myndin var tekin að ofan. Eins og kort, nema með fleiri smáatriðum. Hún var svarthvít en við sáum að einhverju leyti áferð vega, þakefna og jarðar. Við sáum líka reykský kringum brúna sem var sprengd. Hafandi einhverja hugmynd um hvað sprengjur eru og hvað þær gera, getum við áætlað að skýið sé að breiða úr sér einmitt þegar myndin er tekin. Sem þýðir að sennilega er myndin tekin úr vélinni sem varpaði sprengjunni frekar en til dæmis gervihnetti: þessi mynd berst frá auganu sem mat aðstæður, miðaði og sprengdi.

Mér finnst eins og myndin hafi verið á forsíðu dagblaðs en ég sé svo sjaldan dagblöð þessi árin að sennilega misminnir mig. Líklega birtist hún á upphafssíðu fréttavefs, dvaldi þar svolitla stund og hvarf svo niður í fréttastreymið milli annarra frétta. Mér finnst líka eins og ég hafi séð myndina margoft áður. Einhverjir vegir, einhver hús, eitthvað í ætt við kort, og reykbólstur frá sprengju. Ég er samt ekki viss - kannski var það í tölvuleik. Kannski sá ég annars ekki sprenginguna sjálfa á fyrri myndum heldur aðeins sprengjurnar sem þær féllu.

Flugvélar þjóta áfram. Þær staldra ekki og horfa á afrakstur verka sinna. Það gera bara drónar. Dróni er ágætt orð, samsett úr dóna og róna.

Hingað til hefur sá kostur dróna helst aukið vegsemd þeirra að sá sem býr að góðum drónum þarf ekki að leggja eigin lið í hættu til að koma höggi á andstæðinginn. Ef til vill er þá vanmetið gagnið af því að þurfa ekki einu sinni að sjá andstæðinginn. Á forsíðuljósmyndinni á dagblaðinu sem var sennilega ekki til birtast húsþök og vegir, eitthvað í ætt við landslag og kort, en engin einasta manneskja. Ljósmyndin gefur tilfinningu fyrir yfirsýn og þar með skilningi en veitir hvorugt: þar þvælist enginn fyrir áætluninni með því að vekja samkennd, hvorki flugmanna né okkar sem stöndum þeim að baki.

Var fólk í húsunum? Var fólk á brúnni? Var þetta brú sem þeir sprengdu? Var þá á eða fljót á myndinni líka? Er yfirleitt fólk í húsum? Fer fólk yfir brýr? Ef til vill bara vont fólk.

Það sem ég vildi fara: þetta er hættuleg ljósmynd. Hún þykist vera blaðamynd en hún er það ekki. Að vanmeta myndir er að vanmeta skynfæri okkar og áhrif þeirra á heiminn. Að öðrum uppfinningum ólöstuðum er hugsanlega sjónglerið það sem nútíminn helst hvílir á. Kíkirinn kom fyrstur og færði fjarskann nær. Með honum horfði Galileó upp og sá að tunglið er gert úr jörð. Við sjáum fjarlæga heima og langar að komast þangað. Síðan kom smásjáin. Með henni horfum við niður og inn - og sjáum að þar morar allt af lífi, hugsanlega fjandsamlegu. Við horfum ekki gegnum smásjá með ferðalög í huga heldur valkvæma tortímingu: bakteríur, veirur og rykmaura burt.

Síðast í sögu sjónglersins kom tæknin til að sjá beint fram fyrir okkur, í þeirri mannlegu stærðargráðu sem við eigum að venjast hvort eð er, sjá það upp á nýtt. Einkum hvert annað. Ljósmyndin gerði okkur kleift að horfa hvert á annað. Enginn kemst upp með að stara á aðra manneskju eins og þú getur starað á ljósmynd: andlit, líkama, klæðnað, nekt, samskipti, viðbragð, líf á götu.

Saga augans - ég veit ekki hvort hún hefur verið rituð í þessum skilningi, hvernig skynjun okkar á heiminum hefur þróast með sögu sjónglersins. En ef það er eitthvert vit að halda slíkri sögu til haga, sem ég held að geti verið, þá er það stórviðburður þegar augað ferðast upp í himinhvolfin og horfir niður á mannheiminn frá sama sjónarhóli og við áður horfðum í smásjá. Í samanburði virðist sú áróðurstækni sem beitt var fyrir miðja síðustu öld frumstæð, þar sem ákveðnum hópum fólks var líkt við meindýr til að greiða fyrir útrýmingu þeirra. Ef við horfum nógu langt að ofan þarf ekki einu sinni að færa slíkar hliðstæður í orð: þá birtist áður sársaukafullt sprengjuregn okkur sem snyrtileg aðgerð, eins konar uppskurður, fjarlæging á því sem fjarlægja þarf. Og allir koma af fjöllum þegar skyndilega rekur á fjörur okkar fólk á flótta: við vorum að horfa allan tímann, hvaðan í ósköpunum komuð þið?

Við - hver? Við handabrúðurnar í brúðuleikhúsinu á Facebook, andlitin í ferköntuðu myndarömmunum sem erum með áhugaverðar skoðanir á hinu og þessu og þrætum þar með lækhnapp fyrir kylfu. Kannski er það meðal annars þess vegna sem #nakinnikassa heillar áhorfendur svona mikið. Heil manneskja. Sýnileg. Sóðaleg. Brothætt. Ég hef ekkert að gefa, yrkir Almar, strákurinn okkar, upp á nýtt, ekki neitt sem ég hef, nema von mína og líf mitt, hvort ég vaki eða sef, ét, kúka, pissa, les eða drepleiðist. Einhverjir tala um narsissisma listheimsins, þegar listamaðurinn sýnir ekkert nema sjálfan sig. Kannski ættum við heldur að fagna því, sem varnarsigri, að manneskjunni sé þó einhvers staðar haldið inni í myndinni. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu