Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Nokkrar spurningar eftir helgina

Nokkrar spurningar eftir helgina

Á laugardag héldu fimm ráðherrar fréttamannafund, þar sem þeir viðurkenndu skyldur Íslands gagnvart umheiminum og nauðsyn þess að bregðast við vanda flóttafólks, með loforði um verulegt fé.

Ráðherranefndin mun skipa sérfræðinganefnd til að gera tillögur um hvernig fénu verði best varið. Í fréttatilkynningu um málið eru þó taldir þrír afmarkaðir liðir sem fjárveitingin skal nýtast innan: flýta skal umsóknarferlum um hæli á Íslandi og losa um þá flöskuhálsa sem mynduðust síðast þegar reynt var að flýta sömu ferlum; taka skal á móti fimmtíu kvótaflóttamönnum; og veita skal stuðning við „alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis“.

Í fyrirspurnatíma á Alþingi á mánudag sagði forsætisráðherra að úthlutunin væri hrein viðbót við það fé sem þegar hafði verið ráðstafað til málaflokksins. Ekki er ljóst hvað það þýðir um fyrri liðina tvo: lengi hefur mátt gera ráð fyrir fé til móttöku fimmtíu flóttamanna. Þeim hefur ekki fjölgað. Þá var þörfin fyrir aukið afl í úrvinnslu hælisumsókna orðin knýjandi, þó að lengi megi auðvitað fresta vandræðum atkvæðalausra.

Eina efnislega nýjungin virtist í öllu falli vera síðasti liðurinn, stuðningur við flóttafólk í flóttamannabúðum erlendis. Fjárhæðin sem um ræðir er hærri en margir bjuggust við. Nálgunin, hins vegar, að styðja fólk í búðum erlendis frekar en bjóða fleirum til Íslands, er í samræmi við þær áherslur sem forsætisráðherra hefur átt sameiginlegar með þáttastjórnendum á Útvarpi Sögu, í umræðum síðustu vikna.

Nú þegar helgin er liðin og koffíninntaka hafin á ný er því aftur kominn tími á leiðinlegar spurningar.

  • Eins og forsætisráðherra sagði í viðtali á Útvarpi Sögu á föstudag þá er „ástæðan fyrir því að menn koma ekki með flugi … ekki sú að þeir hafi ekki efni á flugmiðanum. Ferð með smyglarabáti er tvöfalt eða þrefalt dýrari en flugmiðinn.“ Í umfjöllun RÚV um flóttann frá Sýrlandi hafa birst viðtöl við lækna, háskólakennara og annað fólk sem skortir ekki fyrst og fremst peninga. Það er fyrst og fremst valdlaust yfir eigin tilveru. Að búa einhvers staðar virðist góð byrjun. Hvers vegna batt ráðherranefndin sjálf nýtingu fjármuna við aðstoð utanlands, frekar en að fela verkefnisstjórninni, sem skipuð verður sérfræðingum, að ákveða hvort féð nýtist betur þar eða hér, það er til móttöku fleira flóttafólks á Íslandi? Lágu rannsóknir til grundvallar þeirri ákvörðun? Hvaða rannsóknir? Hvaða mælikvarða var beitt á væntan árangur? Lá álit sérfræðinga að baki? Hvaða sérfræðinga? Ef ekki, á hverju byggðist þessi ákvörðun?
  • Um síðustu mánaðamót lýstu sautján þúsund manns yfir stuðningi við ákallið „Kæra Eygló Harðar: Sýrland kallar“. Andvirði eins vinnudags þessara sautján þúsunda væri, á hóflegu tímakaupi, um 250 milljónir króna. Ætla má að ýmsir hefðu lagt meira af mörkum en svo. Hvernig var þessi yfirlýsti vilji almennings á Íslandi til að koma að liði metinn við greiningu á bestu nýtingu fjármuna?
  • Ein af þeim spurningum sem ráðherra gafst ekki tími til að svara í fyrirspurnatíma Alþingis á mánudag var hvort vænta megi breyttrar stefnu í meðferð hælisumsókna, einkum hvort fallið verður frá endursendingum án efnislegrar meðferðar umsókna, sem enn eiga sér stað í krafti Dyflinnar-reglugerðarinnar? Ef ekki, hvernig samræmast slíkar endursendingar þeim góða vilja sem birtist í aðgerðunum sem kynntar voru á laugardag?

Mögulega eru til mjög góð svör við þessum spurningum. En til að þau heyrist þarf að afla þeirra. Stjórnarandstaðan vill líklega gæta sín á að líta ekki út fyrir að stunda hefðbundið pólitískt karp um stórt og alvarlegt viðfangsefni. Þá hafði fréttamannafundurinn á laugardag yfirbragð málalykta og fjölmiðlar hafa í kjölfarið, um stundarsakir, hljóðnað. Forsætisráðherra kallar enda fyrirhugaða nálgun Íslands á viðfangsefnið „heildstæða“ og ætlar að kynna hana fyrir Sameinuðu þjóðunum nú í vikunni.

Til að orða það ruddalega en skýrt virðast nýmælin við heildstæðu nálgunina, við fyrstu sýn, einkum felast í að borga sýrlensku flóttafólki fyrir að halda sig sem lengst frá Íslandi. Ég sit á mér að setja það í fyrirsögn því ég er ekki viss. Ég gæti verið að misskilja. Ef svo er væri gott að fá misskilninginn leiðréttan. Óháð því hversu vegleg fjárhæðin er þarf að ganga úr skugga um að gagn verði af henni, sem mest og helst fyrir flóttamenn sjálfa. Og það væri að mörgu leyti gott að hafa fleiri heimildir en Sigmund, jafnvel óháðar honum, um hvernig það allt saman lítur út.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni