Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hvers vegna sækja þau ekki um sem au-pair?

Hvers vegna sækja þau ekki um sem au-pair?

Lög um útlendinga, frá árinu 2002, lögin sem breyttu nafni Útlendingaeftirlitsins í Útlendingastofnun, tóku aftur nokkuð veigamiklum breytingum árið 2008, fyrir tilstilli dómsmálaráðuneytis Björns Bjarnasonar. Helstu nýmælin voru flokkun dvalarleyfa eftir tilefni þeirra, í reynd lögbundin stéttskipting milli aðkomufólks á Íslandi, sem hefur staðið óhögguð.

Lög um nýtingu útlendinga 2002 nr. 96

Tveir flokkar dvalarleyfa varða mestu – ásamt þeim þriðja, sem ég vík að á eftir. Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar er fyrri flokkurinn, það eru dvalarleyfi háskólamenntaðra vegna starfa sem krefjast slíkrar menntunar. Dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli er hinn flokkurinn, það eru dvalarleyfi verkafólks vegna starfa sem ekki krefjast háskólanáms. Fyrri dvalarleyfin, þau sem eru ætluð langskólagengnum, geta, samkvæmt lögunum „verið grundvöllur búsetuleyfis“. Dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli, eru aftur á móti afar tímabundin og geta það ekki. Samsvarandi girðingar er að finna í lögum um atvinnuréttindi útlendinga – „atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki orðið grundvöllur óbundins atvinnuleyfis“ o.s.frv.

Búsetuleyfi er í stuttu máli forsenda þess að manneskja geti mótað sér líf og framtíð í landi. Án búsetuleyfis hefur aðkomufólk aðeins tímabundin dvalar- og atvinnuleyfi. – Afar tímabundin: samkvæmt lögunum má ekki veita óbreyttu verkafólki dvalarleyfi lengur en til eins árs í senn. Leyfið má framlengja um annað ár en að þeim tíma loknum verður manneskjan að hverfa frá landinu í að minnsta kosti tvö ár áður en hún getur sótt um dvalarleyfi á ný – sem væri þá aftur tímabundið á sama hátt.

Samkvæmt lögum stendur ríkisborgararéttur aðeins þeim til boða sem hafa átt lögheimili í landinu í sjö ár. Búsetuleyfi er því einnig, í reynd, nauðsynlegur undanfari ríkisborgararéttar. Sérmenntað starfsfólk leggur þannig, við komuna til landsins, upp í hæga en nokkuð markvissa vegferð í átt til aukinna réttinda sem getur lokið með fullum ríkisborgararétti, hafi viðkomandi áhuga. Verkafólk án sérmenntunar nýtur minni réttinda frá upphafi, án möguleika á öðru.

Með öðrum orðum getur millistéttarfólk komið til að vera, en lögin ætlast til að verkafólk komi til að fara.

Og við hvað starfar þú?

Þessi stéttskipting grundvallarréttinda er væntanlega hagkvæm. Í það minnsta má ímynda sér að með henni tryggi Ísland sér ákveðið lágmarks-aðdráttarafl fyrir fólk sem sagt er að lönd og borgir keppist um að draga til sín, en stemmi um leið stigu við kostnaði af framlagi hinna, fátæklinganna sem er alltaf nóg til af á einhverri atvinnuleysiskrá og má grípa til í uppgripum en fleygja svo burt, skuldbindingalaust, þegar um hægist. 

Til viðbótar þessum tveimur meginflokkum eru í lögunum sérákvæði um nokkrar aðrar hugsanlegar forsendur dvalarleyfa, fyrir íþróttafólk, námsfólk og au-pair-ungmenni. Í öllum tilfellum blasir við að reglurnar eru samdar til að bregðast við hagsmunum tiltekinna innlendra hópa: heldri heimili landsins þurfa sína húshjálp, fótboltafélögin sína leikmenn, og svo framvegis. Aðeins einn flokkur dvalarleyfa hefur engin svo augljós tengsl við þarfir þeirra sem heima sitja: dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og dvalarleyfi flóttafólks.

Ef Útlendingastofnun hafnar umsókn um hæli getur hún engu að síður veitt umsækjandanum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Slík afgreiðsla er almennt álitin jákvæð niðurstaða hælisumsóknar: umsækjandanum er þá, í það minnsta, ekki fleygt á dyr. Viðurkenning á stöðu flóttamanns er veigameiri skuldbinding: hún leiðir til fjögurra ára dvalarleyfis og felur í sér rétt á endurnýjun; dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er aðeins veitt til eins árs í senn og því fylgir aðeins heimild til endurnýjunar. Bæði leyfin geta hins vegar, samkvæmt lögunum, leitt til búsetuleyfis. Í báðum tilfellum opnast með öðrum orðum möguleikinn á að manneskja sem kemur til landsins verði þar um kyrrt, án tillits til þess hvort eða hvernig hann nýtist nokkrum innlendum hagsmunaðilum.

Mannúðarmálfræðin

Ákvarðanir Útlendingastofnunar virðast, á yfirborðinu, furðulegar og metnaðurinn skrítinn: að segja nei við fólk og henda því úr landi, með handafli, hvenær sem þess er kostur. Rasismi er möguleg, og virðist stundum sennileg, skýring. Sá möguleiki er hins vegar líka opinn að almenn bissness-sjónarmið nægi til að skýra mynstrið: að það viðhorf sé ríkjandi í stjórnsýslunni – allt frá Alþingi til skrifstofustarfsfólks í Útlendingastofnun – að fólk utan úr heimi komi þessu landi aðeins við að því leyti sem það þykir brúklegt. Að því leyti sem hægt er að nota það. Eins og sjávarauðlind.

Það er jafnvel hugsanlegt að við metum ekki aðeins aðkomufólk út frá mögulegri nýtingu þess heldur búi rótfastari prinsippafstaða að baki. Að við myndum jafn fúslega sparka okkur sjálfum úr landinu og öðrum, ef eitthvað væri að græða á því. Eins og við vitum að þorskur er til vegna þess að við veiðum hann og aðrir kaupa hann, vitum við að annað fólk er til því það getur unnið störf sem einhver er tilbúinn að borga fyrir. Í öðru samhengi er þetta sjónarmið kallað nýtingarstefna, sem er ágætt orð. Að nýtingarstefna okkar sé heilsteypt prinsipp og gildi um okkur öll virðist hótinu notalegri tilhugsun en að landið sé bara gegnsýrt af rasisma. 

Eitthvað slíkt sjónarmið gæti skýrt þessa mótsögn sem birtist nú enn eitt sinn í fréttum: á meðan ráðgert er að hundruð erlendra verkamanna og -kvenna komi til landsins, til að sinna hundruðum þúsunda alveg jafn erlendra ferðamanna, á meðan forstjóri Vinnumálastofnunar segir „gríðarlega mikla“ ásókn eftir erlendu vinnuafli og Samtök atvinnulífsins áætla að landið þurfi að fjölga erlendu starfsfólki um 2–3 þúsund árlega á næstu árum, þá skulum við samt beita hinum vopnaða armi ríkisins til að flæma burt fólk sem er þegar komið til landsins, býr þar og starfar, á þar vini, ástvini, fjölskyldu, samfélag. – Rasismi? Nei, við fyrirlítum alla fínni þræði mannlegrar tilveru jafnt, óháð litarhætti, uppruna, trúarbrögðum …

Með jafningi

Fólkið sem nú er fyrirhugað að starfi á Leifsstöð verður hýst, segja þeir, í blokkum gömlu herstöðvarinnar á Reykjanesi. Það er ekki í fyrsta sinn sem svæðið er notað í þeim tilgangi, né voru bandarískir hermenn síðastir til að dvelja þar afgirtir. Þegar kínversku verkamennirnir sem reistu Hörpuna voru að störfum í miðborginni var þeim haldið við störf innan vírgirðingar. Á milli vakta var þeim síðan ekið út á Reykjanes þar sem þeir voru geymdir, í einni af þessum blokkum þarna, og kostir landsins þannig nýttir til þess tryggja að samneyti útlendinganna við heimamenn yrði næstum ekki neitt. Enginn þyrfti að kynnast neinum. Vírnetið kringum byggingalóðina var í samræmi við reglugerð um möskvastærðir til veiða á botnfiski, rækju og humri. Kínversk yfirvöld hafa áreiðanlega verið jafn sátt við fyrirkomulagið og þau íslensku.

Myndina hér að ofan tók Sigfús Eymundsson af íslensku flóttafólki á leið til Vesturheims.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu