Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kjósum um Borgarlínuna

Kjósum um Borgarlínuna

Ljóst er að eitt mögulegt umfjöllunarefni sveitstjórnarkosninganna í vor verður það sem kallað er ,,Borgarlína“ - nýtt samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða kerfi þar sem þétta á byggð og ,,stýra“ fólki í almenningssamgöngur og uppistaðan í þessu kerfi verða ,,sterastrætóar“ eins og kynnungarfulltrúi Borgarlínunnar orðaði það svo skemmtilega í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 18.janúar síðastliðinn. Ekki veit undirritaður hinsvegar hvað það þýðir.

Í skýrslu sem heitir ,,Vinnslutillaga vegna breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 – Afmörkun samgöngu og þróunaráss höfuðborgarsvæðisins (af hverju heitir skýrslan ekki bara ,,Borgarlína“?) er farið í saumana á verkefninu.

Þar kemur meðal annars fram að stefnt sé að því að hlutur almenningssamgangna árið 2040 verði um 12% af heildarmagni ferða innan höfuðborgarsvæðisins. Væri ekki æskilegt að hafa þetta hærra, sérstaklega fyrir þá peninga sem á að leggja í þetta? Sem eru samkvæmt áætlunum dagsins í dag um 70 milljarðar króna.

Og hér kemur að miklu áhyggjuefni. Sem er sú staðreynd að nánast allar opinberar framkvæmdir hérlendis fara yfirleitt hressilega fram úr áætlun. Dæmi eru til um verkefni sem hafa farið tugi prósenta fram úr áætlun, t.d. voru Vaðlaheiðargöng komin 30% fram úr áætlun í febrúar á síðasta ári og verkinu ekki lokið!

Það er næsta víst að ef af Borgarlínu verður, þá mun þessi lína ,,lengjast“ all verulega og fara hressilega fram úr áætlun. Hver á að bera ábyrgð á því? Þeir fulltrúar sveitarfélaganna og þær sveitastjórnir sem skrifuðu undir þetta verkefni á sínum tíma?

Nei, eins og alltaf þá munu borgarbúar fá að taka á sig þann kostnað, það er jú alltaf þannig að hinn almenni borgari fær að borga brúsann, sama hvort um er að ræða ríki eða sveitarfélög. Í þessu tilfelli yrði það sennilega í formi hækkaðs útsvars.

Annars var annað atriði sem vakti einnig athygli, og sem kom einnig fram í fréttatímanum sem ég vitnaði í hér að ofan, en þá sagði kynningarfulltrúinn að verkefnið væri ekki endanlega fjármagnað. Það hlýtur að teljast svolítið sérkennilegt í sambandi við jafn risavaxið verkefni og þetta, sem kostar ríflega meira en rekstur alls menntakerfisins á Íslandi á einu ári.

Einnig er talað um þetta sem langtímaverkefni og við það skapast hætta á því að það verði byggt í bútum og nái því aldrei almennilega markmiði sínu (,,Kerfið mun byggjast upp á næstu árum og mögulega áratugum,“ segir í skýrslunni). Það hlýtur þá kannski sömu örlög og Hallgrímskirkja, sem var byrjað að gera við áður en hún var fullkláruð?

En það er hinsvegar þannig að það læðist að manni sá grunur að hér sé um að ræða ,,gæluverkefni“ sem ætlað er að ýta með nettum hætti ofan í kok íbúa höfuðborgarsvæðisins. Sem, mér vitanlega, hafa ekki verið spurðir um verkefnið með formlegum hætti. Í Borgarlínuverkefninu virðist því ekki vera snefill af íbúalýðræði. Er það gott og æskilegt? Hefði ekki verið sniðugt að spyrja íbúana? Því, það eru jú mjög miklir peningar í húfi. Og menn hafa á síðustu árum sífellt verið að tala um að auka lýðræði, gagnsæi og hvaðeina í íslensku samfélagi. Á þeim nótum hefur umræðan að minnsta kosti verið. En er það bara eitthvað út í loftið?

Það er því kannski bara sniðugt að láta ,,Borgarlínuna“ verða alvöru kosningamál og leyfa íbúnum að kjósa; Ertu fylgjandi því að setja upp Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu? Já eða nei. Væri það svo galið?

Höfundur er stjórnmálafræðingur og hefur búið í samfélagi með alvöru almenningssamgöngum. Grein þessi birtist fyrst í Kjarnanum. Myndin er frá Kaupmannahöfn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu