Þessi færsla er meira en ársgömul.

Rafmagnaðar kosningar í Svíþjóð 11.september?

Rafmagnaðar kosningar í Svíþjóð 11.september?

Rafmagnskosningarnar? Kannski verður það nafnið sem þingkosningarnar árið 2022 í Svíþjóð verða kallaðar í sögubókum framtíðarinnar, sem fara fram næsta sunnudag, 11. september.

Það er að sjálfsögðu vegna stríðsins í Úkraínu og þeirra hrikalegu hækkana á orkuverði sem nú tröllríða Evrópu. Margir Svíar eru komnir að sársaukamörkum varðandi raforkuverð og það mikið rætt í kosningabaráttunni.

En það er fleira sem Svíar þurfa að hafa áhyggjur af, til að mynda aukið ofbeldi og hugmyndir fólks um öryggi. Það er sláandi staðreynd, en það sem af er ári hafa um 47 manns verið skotnir í Svíþjóð, til og með 1.september. Alls hafa 74 slasast í skotárásum fram að sama tíma, samkvæmt tölum frá sænsku lögreglunni.

Þetta er grafalvarlegt mál, en niðurskurður í löggæslu hefur löngum verið mikill í Svíþjóð. Um 200 löggur eru pr.100.000 íbúa í Svíþjóð, en voru 216 árið 2010. Aðeins Finland og Danmörk eru með færri löggur pr. 100.000 íbúa.

Þetta ástand hafa Svíþjóðardemókratar nýtt til hins ítrasta, en þeir eru nú orðnir annar stærsti flokkur landsins samkvæmt könnunum. Þeir græða á óánægju fólks. Margt bendir til þess að Hægriflokkurinn (Moderaterna) muni fá slæma kosningu og eru spekúlantar þegar farnir að ræða um eftirmann í staðinn fyrir Ulf Kristerson. Stefnir í verstu kosningu þeirra síðan 2002, þegar flokkurinn fékk aðeins um 15% fylgi. Fylgið er nú um 17% samkvæmt könnunum.

Magdalena Anderson, forsætisráðherra, hefur lofað 10.000 nýjum löggum á götur landsins vinni hún kosningarnar. Hún er formaður flokks, sem er vanur að stjórna í Svíþjóð, en á síðustu öld voru sænskir jafnaðarmenn í ríkisstjórn um 80% af öldinni. Það var nánast ekki mynduð ríkisstjórn á síðustu öld í Svíþjóð, nema ,,Sossarnir“ væru þar við völd.

Þeir eru núna með um 29% fylgi samkvæmt könnunum, en það fór hæst í júní á þessu ári í 33,7%. Hefur heldur dalað. Stjórnin þarf 50% eða meira til að fá meirihluta og er það æskilegast, þó svo að oft hafi minnihlutastjórnir verið í Svíþjóð, þar sem Jafnaðarmenn hafa t.d. reitt sig á stuðning Vinstriflokks eða Umhverfisflokksins, til að ná málum í gegn. En þetta hefur oft ekki gengið andskotalaust fyrir sig.

Ástandið í orkumálunum og umrót vegna ofbeldismála hefur sett önnur hefðbundnari mál út á jaðarsvæði kosningabaráttunnar. Mál á borð við skólamál, heilbrigðismál, málefni barna og aldraðra. Sem og umhverfismálin. Þetta er óvenjulegt.

Eitt sem fræðimenn telja sig líka sjá er að flokkshollusta virðist vera á stöðugu undanhaldi í Svíþjóð. Kjósendur virðast vera reiðubúnari að skipta um flokk og jafnvel kjósa ,,taktískt“. Þetta sagði stjórnmálafræðiprófessorinn Henrik Oscarsson frá Gautaborg í samtali við Sænska ríkisútvarpið á dögunum. Flökt kjósenda er nú meira en áður.

Alls eru átta flokkar sem bjóða sig fram; Jafnaðarmenn, Hægriflokkurinn, Svíþjóðardemókratar, Frjálslyndi flokkurinn, Miðflokkurinn, Kristilegir demókratar, Umhverfisflokkurinn og Vinstriflokkurinn.

Þrír þessara eru ,,stórir“: Jafnaðarmenn(turninn), Svíþjóðardemókratar og Hægriflokkurinn. Hinir eru allir undir 10% í fylgi og sumir hafa verið tæpir í könnunum að komast yfir 4% þröskuldinn, sem þarf til að ná inn á sænska þingið, þar sem eru 349 þingmenn í einni deild. Eins og staðan er núna virðast þó allir þessir flokkar komast á þing.

Blokkirnar, sú vinstri og sú hægri, eru nánast jafnar að stærð og er staðan tvísýn. Mestu skiptir hvort Jafnaðarmenn nái að gera góða kosningu og hversu mikið fylgi Svíþjóðardemókrata verður.

Hvort þeir nái að næla sér í fleiri óánægjuatkvæði, t.d. vegna aukinnar morðtíðni og himinhás orkuverðs kemur í ljós á næstu dögum. Orkuverðið kemur við budduna hjá fólki og það skiptir máli í pólitík. Eða eins og einhver sagði; ,,it‘s the economy, stupid.“

Ps. Myndin er auðvitað af sænskum kjötbollum. Hver verður stærsta kjötbollan eftir kosningarnar? Jú, sennilega ,,jafnaðarmannakjötbollan.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni