Blogg

Réttlætið náði Mladic

Bosníu-Serbinn Ratko Mladic hefur nú bæst í hóp þeirra manna sem dæmdir hafa verið fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu (crimes against humanity) en það var stríðsglæpadómstóllinn í Haag sem felldi dóm sinn 22. Nóvember síðastliðinn. Þar með lauk réttarhöldum sem staðið höfðu yfir í fjölda ára.

Mladic var þriggja stjörnu hershöfðingi og með þeim virtustu í Alþýðuher Júgóslavíu (JNA = Jugoslavenska narodna armija), sem á sínum tíma var einn stærsti her Evrópu. Júgóslavía var fjölþjóðaríki, sem eftir seinni heimsstyrjöld var stjórnað með harðri hendi af kommúnistaleiðtoganum, Josep Broz Tito, eða Tító marskálki, eins og hann var kallaður.

Júgóslavía brotnar

Hann lést árið 1980 og frá þeim tímapuntki fór að halla undan fæti í Júgóslavíu, þar sem Serbar voru stærsti þjóðernishópurinn, en bæði Króatar, Slóvenar, Makedónar, múslimar og fleiri voru hluti af landinu. Í sinni lokamynd samanstóð Júgóslavía af sex lýðveldum og tveimur sjálfsstjórnarsvæðum.

En þetta átti allt eftir að fara fjandans til í blóðugu borgarastríði, sem stóð frá árunum 1991-1995, féllu og særðust hundruð þúsunda manna, það skapaði gríðarlegt flóttamannavandmál og innihélt bæði þjóðernishreinsanir og kynferðisglæpi sem vopn, í formi skipulagðra nauðgana kvenna. Ekki má gleyma grimmilegum fanga og þrælkunarbúðum, til dæmis í Omarska, en þær drógu upp á yfirborðið hryllilegar minningar frá stöðum á borð við Auswitch, Saschenhausen og fleiri slíkum. 

Allar sættir mistókust

Fyrst lýðveldanna til að lýsa yfir sjálfstæði og kljúfa sig frá Júgóslavíu var Slóvenía og þar hófst stutt 10 daga stríð, sem Serbar (þá Alþýðuherinn) töpuðu, voru hraktir til baka frá Slóveníu. Síðar fylgdu Króatía og Bosnía í kjölfarið. Allar tilraunir til að halda Júgóslavíu saman höfðu farið út um þúfur og sættir mismunandi sjónarmiða tókust ekki. Þegar Króatía lýsti yfir sjálfstæði 1991 braust einnig út stríð þar og Serbar reyndu að halda ríkinu saman með hervaldi. En það var tilgangslaust.

Þetta var versta og blóðugasta stríð sem Evrópa hafði séð eftir lok seinni heimsstyrjaldar og í því birtust myrkustu myndir öfgafullrar þjóðernishyggju og þjóðernisrembings, sem og hreinræktuð mannfyrirlitning og hatur. Fordómar í sinni tærustu og mest skemmandi mynd.

Bosnía tákn um umburðarlyndi

Hvergi birtist þetta jafn skýrt og í bænum Srebrenica í Bosníu sumarið 1995, en þar bjuggu þá um 35.000 manns. Bosnía hafði lýst yfir sjálfstæði vorið 1992 og þangað hafði stríðið færst  Í Bosníu bjuggu bæði Serbar(31%), Króatar(17%) og Múslimar, sem voru stærsti hópurinn, tæp 44% íbúanna. Fram að sjálfstæðisyfirlýsingu Bosníu höfðu þessir hópar búið í sátt og samlyndi í hinni ,,fjölþjóðlegu“ Bosníu, sem var táknmynd um frið og umburðarlyndi.

Sumarið 1995 hafði her Bosníu-Serba farið mikinn og ,,vann“ við það að ná landi af bæði Króötum og Múslimum. Í byrjun júlí kom her þeirra til Srebrenica, sem hafði verið lýstur verndarsvæði undir vernd Sameinuðu þjóðanna, en þar voru hollenskir friðargæsluliðar. Þeir komu hinsvegar engum vörnum við þegar hryllingurinn byrjaði og margir þeirra hlutu varanlegan sálrænan skaða af. Mikið gefur verið rætt um aðgerðir og meint aðgerðarleysi SÞ, en út í þá sálma verður ekki farið hér.

Á myndbandi sem notað var í réttarhöldunum sést þegar Mladic og liðsmenn hans koma til bæjarins. Með honum var annar herhöfðingi, Radislav Krstic, sem árið 2001 var dæmdur fyrir stríðsglæpi. Það tók bara mun lengri tíma að ná Mladic, það gerðist ekki fyrr en 2011, en hann fannst í felum hjá frænda sínum í Bosníu.

Á öðru myndbandi frá Srebrenica sést Mladic tala við og sannfæra íbúa Srebrenica um að ekkert muni koma fyrir þá og að allir geti verið öruggir.

8000 aftökur

Annað kom á daginn, því nánast strax og Bosníu-Serbar komu til bæjarins var hafist handa við að aðskilja alla karlmenn (frá unglingsaldri og nánast upp úr) frá öðrum íbúum. Á næstu dögum voru um 8000 karlmenn og ungir drengir skipulega myrtir af hersveitum Bosníu-Serba í og við Srebrenica. Þeim sem tókst að flýja upp í skógana og hlíðarnar við bæinn voru eltir uppi og myrtir.

Ekki frá dögum Adolfs Hitlers höfðu menn gengið jafn skipulega til verka í fjöldamorðum á saklausum, almennum borgurum í Evrópu. Til eru myndbönd sem sýna aftökur múslima í Srebrenica en í þau verður ekki ,,krækt“ hér. Hinsvegar má benda á áhugaverð myndbönd þar sem Mladic er að niðurlægja fulltrúa Sameinuðu þjóðanna og setja þeim úrslitakosti, hér og hér.

Fyrir þessa hryllilegu glæpi hefur nú Ratko Mladic verið dæmdur til lífstíðarfangelsis. Réttlætinu er fullnægt, það bætir hinsvegar ekki fyrir glæpi hans og þúsundir aðstandenda eiga enn um sárt að binda.

Þjóðhetja meðal Serba

En í lýðveldi Bosníu-Serba (Republika Srpska) í Bosníu er útgáfan af sögunni örðuvísi; þar er tilvist fjölamorðanna afneitað og í augum Bosníu-Serba (og fleiri Serba) er Mladic sönn þjóðhetja.

Ratko Mladic bætist þar með í nokkuð fjölmennan hóp serbneskra stríðsglæpamanna sem dæmdir hafa verið fyrir slíka glæpi og glæpi gegn mannkyninu í borgarastríðinu í Júgóslavíu; Slobodan Milosevic (fyrrum forseti Serbíu, nú látinn), Radovan Karadzic (forseti Bosníu-Serba, nú í fangelsi), áðurnefndur Krstic og Milan Babic (leiðtogi meðal Króatíu-Serba, lést í fangaklefa sínum árið 2006), svo nokkrir séu nefndir. Hafi lesendur áhuga á að lesa um fleiri sem dæmdir hafa verið fyrir stríðsglæpi (og af öðrum þjóðernum/þjóðarbrotum) má sjá lista á Wikipedia hér.

Höfundur er MA í stjórnmálafræði og skrifaði BA-ritgerð sína ,,Hrun Júgóslavíu“ undir leiðsögn Dr. Jóns Orms Halldórssonar árið 1996.

-------------

Vert er að benda á BBC-myndina A Cry From the Grave sem gerir þessum hræðilegu atburðum skil.

Afar vel gerð og áhugaverð heimildamynd um sjálft stríðið er The Death of Yugoslavia, einnig frá BBC.

Grein þessi birtist fyrst í Kjarnanum í lok nóvember.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Jón Steinar þrýsti á að Robert Downey fengi uppreist æru „eftir þá hrakninga sem hann lenti í“

Fréttir

Guðni mátti ekki sjá minnisblöð um Downey og Hjalta: „Ber að eyða því í pappírstætara“

Fréttir

Frásagnir kvenna í læknastétt: „Það þarf nú bara að þvinga lykkjuna upp á ykkur “

Pistill

Með bakið upp við vegginn

Fréttir

Pressan borgaði ekki af jeppa Björns Inga og stefnir í þrot út af ógreiddum iðgjöldum starfsmanns

Pistill

Hvernig er hægt að losna við Trump?

Mest lesið í vikunni

Rannsókn

„Skelfilegar sögur“ úr Kvikmyndaskóla Íslands

Fréttir

Áralangar deilur innan fjölskyldu Ásmundar Einars hafa ratað til lögreglunnar

Fréttir

Björn Ingi keypti hús með auglýsingasamningi og kúlulánum frá GAMMA

Fréttir

Jón Steinar þrýsti á að Robert Downey fengi uppreist æru „eftir þá hrakninga sem hann lenti í“

Fréttir

Guðni mátti ekki sjá minnisblöð um Downey og Hjalta: „Ber að eyða því í pappírstætara“

Pistill

Okkar eigin Weinstein