Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Dónaskapur Morgunblaðsins

Dónaskapur Morgunblaðsins

Því er troðið upp á fólk, án þess að óskað sé eftir því. Með reglulegu millibili. Það er eins og leiðinlegi gaurinn sem kemur óboðinn í partí. En hann kemur samt. Og þetta hefur verið í gangi í mörg mörg ár.

En þetta geta þeir gert, eigendur Morgunblaðsins, sægreifarnir. Sent okkur hinum, sem hafa ákveðið að kaupa blaðið ekki, af því við viljum það ekki, snepilinn óumbeðinn. Skítt með pappírskostnaðinn og hallareksturinn á blaðinu. 

Til dæmis var blaðið borið í öll hús á höfuðborgarsvæðinu þann 22.febrúar síðastliðinn. Og hvað var á forsíðunni? Jú, frétt þar sem spjótunum var beint að meirhlutanum í borginni, en "fréttin" (best að nota gæsalappir, eins og Morgunblaðið sjálft gerir grimmt) er í rauninni stutt aðsend grein ínni í blaðinu frá Eyþóri Arnalds og fjallar um fjölda ráða og nefnda í borginni. Sem hann gagnrýnir. Hann vill sennilega "straumínulaga" þetta, en einmitt orðið "straumlínulaga" er eitt af uppáhaldsorðum frjálshyggjumanna.

Með þessum vinnubrögðum er að sjálfsögðu verið að dreifa til okkar pólitískum áróðri. Og myndin sem fylgir með á forsíðunni, er að sjálfsögðu af leiðtoga Sjálfstæðismanna í borginni, Eyþóri sjálfum, sem er einn af stærstu eigendum Morgunblaðsins. Hann keypti hluta útgerðarrisans Samherja ekki fyrir svo löngu síðan.  Eyþór segist þó ætla að losa sig við sinn hlut, en á skrifandi stundu er það ekki orðið að veruleika. Það er ekki gott að selja nauðbeygður. Kemur niður á verðinu.

Fyrrnefnd grein er því í raun dæmi um það þegar einn helsti eigandi Morgunblaðsins sendir sjálfum sér grein, en skrifar hana sem frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í borginni. Eyþór á um 26% af hlutafé Þórsmerkur ehf, sem á Árvakur ehf, sem er útgáfufélag Morgunblaðsins.

Hegðun og vinnubrögð við þessar frídreifingar Morgunblaðsins eru í raun alger dónaskapur. Það er að senda fólki eitthvað sem það vill ekki. Og sérstaklega þegar þarf að koma á framfæri einhverjum pólitískum boðskap og til dæmis koma höggi á pólitíska andstæðinga eða álíka. Þetta eru lúaleg vinnubrögð og líka ranglátt gagnvart áskrifendum blaðsins. Reglulega fær fullt af fólki blaðið sent heim til sín, en áskrifendur borga!

Þetta er alveg sér-íslenskt og mér er ekki kunnugt um að í nágrannalöndum okkar séu ástunduð vinnubrögð af þessu tagi. Þar fær fólks til sín þau dagblöð sem það vill fá og kaupir og svo getur það nálgast fríblöðin þar sem næst í þau. En Morgunblaðið er ekki fríblað, það er áskriftarblað.

En það er fríblað þegar hentar og sérstaklega ef það hentar eigendum þess og pólitískum markmiðum þeirra, eins og t.d. að kæfa umræðu um Evrópusambandið og finna því allt til foráttu. Nú eða slást um völdin í höfuðborginni. Og það er ausið úr skálum sínum. Fyrrum forsætisráðherra Íslands sér um það.

Auk þess að vera dónaskapur, þá eru þessar frídreifingar Morgunblaðsins sóun á pappír.

Skilaboðin eru í raun þessi: Morgunblað: Gerðu vel við áskrifendur, en láttu okkur hin í friði!

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni