Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Þriðjungur þjóðarinnar stendur í vegi fyrir nýjum samfélagssáttmála

Þriðjungur þjóðarinnar stendur í vegi fyrir nýjum samfélagssáttmála

   „Það er ekki til nein ný stjórnarskrá“ svaraði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í færslu á Facebook nýverið þegar sem spurt var um stöðuna í stjórnarskrármálinu. Þetta svar er dæmigert fyrir þá stjórnmálamenn sem setið hafa við stjórnvölinn hér á landi undandarna áratugi og hafa fært ákvörðunarvaldið til fjármálaflanna. Alþjóð veit að ný stjórnarskrá sem Stjórnlagaráð samdi í opnu ferli í samvinnu við þjóðina var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það gerðist í kjölfar þess að þjóðin ákvað í kjölfar hrunsins að endurskoða stjórnarskránna og setti málið í ferli sem vakti heimsathygli og hefur m.a. verið tekið til umfjöllunar marga háskóla og sérfræðingahópa.

   Ferlið hófst á því að 1000 einstaklingar voru valdir með slembiúrtaki á þjóðfund sem setti saman ramma um hverskonar stjórnarskrá þjóðin vildi. Í kjölfar þess valdi Alþingi sérfræðinga í stjórnlaganefnd til þess að vinna ítarlega skýrslu um niðurstöður þjóðfundarins. Þjóðin kaus síðan 25 manns til þess að setja saman nýja stjórnarskrá. Sú vinna var reist á niðurstöðum stjórnlaganefndar og fór fram í opnu ferli með þátttöku þjóðarinnar ásamt fjölda sérfræðinga innlendra og erlendra.

   Niðurstaða Stjórnlagaráðs var sett í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem tæp 70% kjósenda samþykkti drög að nýrri stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði. Allt eru þetta ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá. Feneyjarnefndin gerði athugasemdir við nokkrar greinar, en það voru allt greinar sem höfðu verið teknar nánast óbreyttar úr gömlu stjórnarskránni, en hafa eftir ath.s. verið lagfærðar.

   Nýlegar skoðanakannanir sýna að það er engin breyting á þjóðarviljanum, 6 af hverjum 10 Íslendinga vilja skipta um stjórnarskrá, 90% vilja að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera og 80% að auðlindirnar séu eign þjóðarinnar. Þrátt að þessi staðreynd hafi blasað við árum saman gerist ekkert. Fjármálaöflin hafa náð það sterkum tökum á stjórnvaldinu.

   Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár hafa beitt fyrir sig þeim rökum að hér muni rísa upp réttaróvissa verði skipt um stjórnarskránna í heilu lagi. Þessi fullyrðing stenst ekki nánari skoðun því að yfir 70% af tillögum Stjórnlagaráðs eru í fullu samræmi við gildandi lög. Það gerist reyndar ávallt þegar þjóðir skipta um eða breyta stjórnarskrám að lagfæra þurfi einhverja lagabálka. Einnig þarf reglulega að endurnýja lagabálka í samræmi við samfélagslegar breytingar og vegna bindandi alþjóðlegra samninga sem Ísland hefur undirgengist.

    Ég hef nýlega verið á tveimur ráðstefnum þar sem fjallað var um stjórnarskránna. Á annarri ráðstefnunni var lagakennari Háskólans í Reykjavík, hann fullyrti þar ýmislegt um nýju stjórnarskránna og var spurður í lok innleggs síns hvort hann gæti ekki bent á hvaða greinar nýju stjórnarskrárinnar hann væri að vísa til. Hann gat það ekki og viðurkenndi svo að hann hefði aldrei lesið nýju stjórnarskránna. Sama gerðist á fundi hjá  Stjórnarskrárfélaginu á Sólon nýlega þekktur lögmaðru var þar í pallborði og hann lenti í nákvæmlega sömu vandræðum og fullyrti að nýja stjórnarskráin endurspeglaði einungis rómantíska hugaróra, en gat ekki bent á eitt einasta atriði máli sínu til stuðnings.        

Mikið er kvartað um ógangsæi í íslenskri stjórnsýslunni. Í stjórnarskrá Stjórnlagaráðs er kveðið á um allt eigi að vera upp á borðum og öll leyndarhyggja bönnuð.

   Nýja stjórnaskráin er á skiljanlegri íslensku fyrir alla þjóðina, andstætt hinni snöggsoðnu þýðingu á gamalli danskri konungsstjórnarskrá. Allt frá fjölmiðladeilunni hefur ítrekað verið komið fram að það vanti skýr ákvæði um störf forseta landsins og um störf Alþingis. Nýr forseti hefur bent á þetta atriði sé fært til betri vegar í nýrri stjórnarskrá.

   Sé litið til ummæla margra stjórnmálamanna er full ástæða til þess að halda því til haga að stjórnarskrá er regluverk um störf stjórnmálamanna. Það er fólkið í landinu sem á að setja stjórnmálamönnunum hömlur ásamt því að kveða á um réttindi þeirra og skyldur, ekki öfugt. Það er hlutverk Alþingis að fara eftir settum ramma og vilja þjóðarinnar.

„Við þurfum að ræða það hvort þjóðin eigi að koma að breytingum á stjórnarskránni“ sagði varaformaður og ritari Sjálfstæðisflokksins nýverið. Á þeim forsendum hafa þingmenn haldið tillögum þjóðarinnar í herkví og framlengt ráðherraræðið. Ný stjórnarskrá þjóðarinnar tryggir beint lýðræði, m.a. í þjóðaratkvæðagreiðslum, minnkar ráðherraræðið og er forsenda virkara lýðræðis.

Forsenda lýðræðislegra umræðna snýst um efnisatriði mála en ekki persónulegar ásakanir um framgöngu og viðhorf einstakra manna. Frá þjóðinni er allt vald komið, hún er æðsti dómarinn. Við þessa staðreynd verða allar lögskýringar á stjórnarskrá að miðast. Alþingi og ríkisstjórn hafa ríkar skyldur gagnvart stjórnarskránni og þjóðinni. Sá er kjarni lýðræðis, mannréttinda og réttlátra stjórnarhátta.

Sorglegt er að andstæðingar nýju stjórnarskránna koma aldrei með neina málefnalega gagnrýni eða eigin tillögur til úrbóta á núverandi stjórnarskrá sem í grundvallaratriðum er byggð á stjórnarskrá konungsríkisins Danmerkur - frá 1849.

   Í örvæntingu er gripið til hreinna ósanninda um hina miklu sátt sem ætíð hafi ríkt um breytingar á íslensku stjórnarskránni. Reyndar er ótrúleg bíræfni að halda slíku fram. Átökin um kjördæmabreytinguna árið 1959 eru nefnilega í fersku minni allra núlifandi Íslendinga sem þá voru komnir af barnsaldri.

   Íslenskt þjóðfélag logaði nefnilega þá í einum allra heiftarlegustu deilum í sögu lýðveldisins sem klufu þjóðina í tvær andstæðar fylkingar. Sjálfstæðisflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur tóku höndum saman um að einangra Framsóknarflokkinn og gera grundvallarbreytingar á kjördæmaskipan og kosningakerfi. Í stað 28 kjördæma komu átta kjördæmi þar sem kosið var hlutfallskosningu. Reykjavík eina kjördæmið sem var óbreytt fyrir og eftir breytinguna. Þar með var lagður niður fjöldi kjördæma sem staðið höfðu allt frá því að Alþingi var endurreist árið 1845.

Deilur um stjórnarskrá snúast nefnilega ekki síst um að afnema forréttindi valdahópa. Kjördæmakerfið fyrir 1959 þjónaði Framsóknarflokknum og tryggði flokknum lykilstöðu við myndun ríkistjórna.

Nýja stjórnarskráin kveður á að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum og afrakstur þjóðarinnar af eigum sínum. Sægreifarnir vilja viðhalda gjafakvótakerfinu sem tryggir þeim nýtingu auðlinda sjávar til eigin fénýtingar og brasks.

   Fráleitt er að veita fulltrúum sægreifanna á Alþingi neitunarvald um nýja stjórnarskrá sem um 70% þjóðarinnar samþykkti í grundvallaratriðum í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. okt. 2012. Framsóknarflokkur hafði ekki neitunarvald árið 1959. Sjálfstæðisflokkur á ekki nú að hafa neitunarvald um nýjan Samfélagssáttmála og nýja stjórnarskrá.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni