Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Erum við fullvalda þjóð?

Erum við fullvalda þjóð?

Allt frá lýðveldisstofnun hefur stjórnmálaflokkunum tekist að koma í veg fyrir endurskoðun lýðveldisstjórnarskrárinnar. Allmargar nefndir hafa verið skipaðar af hálfu Alþingis til þess að takast á við þetta verkefni, en ráðandi öfl hafa jafnan gripið inn í það ferli með fullyrðingum um að ástæðulaust sé að umbylta stjórnarskránni. Hún sé „listileg smíð“ og jafnvel gengið svo langt að fullyrða að lýðveldisstjórnarskráin sé „helgur gjörningur“ hvorki meir né minna.

Þessu er haldið að okkur þrátt fyrir að fyrir liggi ítrekuð ummæli allra þingmanna, þegar lýðsveldisstjórnarskráin var lögð fram, um að hún væri hugsuð og í rauninni yfirlýst sem bráðabirgðastjórnarskrá, enda styrjaldarár og skammur tími til stefnu til að ná langþráðu fullveldi þjóðarinnar.

Í þessu sambandi má minna á nýársávarp Sveins Björnssonar 1949 en þar kvartaði hann undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Í samfélagi okkar hefur í skjóli meingallaðrar lýðveldisstjórnarskrár viðhaldist misskipting í íslensku samfélagi og fámenn valdastétt hefur nýtt sér þessa stöðu og virt að vettugi samþykktum kjósenda. Þetta er réttnefnt valdarán. Samfélagsleg gildi sem við höfum viljað halda í heiðri hafa þannig verið leyst upp með vaxandi einstaklingshyggju án tillits til afleiðinganna og þróunar samfélagsins. Allar áherslur hafa tekið mið af sérréttindum þeirra sem aðgang hafa að fjármagninu og auðlindum íslensks samfélags.

Þetta kemur m.a. glögglega fram í nýútkominni bók Sveins Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóra. „Sumir segja að stjórnvöld, Seðlabankinn og viðskiptabankar hefðu lítið getað aðhafst 2006 og 2007,“ skrifar Øygard en hann sýnir hins vegar fram á að þetta sé einfaldlega ekki rétt. Það hafi verið hægt að koma í veg fyrir þær gríðarlegu hörmungar sem dundu á þjóðinni. Øygard vildi láta kanna hverjir fluttu fjármagn úr landinu fyrir hrun og hvert það fjármagn hefði farið. En valdastéttinni tókst að koma veg fyrir þá rannsókn.

Hrunið varð til þess að samstaða myndaðist um að ekki yrði lengur komist hjá því að endurskoða stjórnarskránna og það tókst með opinni og gegnsærri aðferð sem átti eftir að vekja heimsathygli. Ferlið var opnið og hófst með 1.000 manna þjóðfundi og síðan umfangsmikilli forvinnu stjórnlaganefndar skipaðri af Alþingi. Stjórnlagaráð kosið af þjóðinni tók við skýrslu stjórnlaganefndar og vann úr henni í opnu samstarfi við þjóðina og sérfræðinga.

Drög að nýrri stjórnarskrá voru borin undir þjóðina þann 20. október 2012. Niðurstaðan var ;

• 67,4% vildu að tillögur Stjórnlagaráðs yrði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

• 81.3% vildu að náttúruauðlindir sem eru ekki í einkaeigu yrðu lýst sem þjóðareign.

• 76.4% vildu aukið persónukjör við Alþingiskosningar.

• 57% vildu að ákvæði um þjóðkirkju væri í stjórnarskrá.

• 70,5% vildu að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.

• 55,6% vildu að atkvæði kjósenda vegi jafnt sama hvar þeir byggju.

Guðrún Pétursdóttir dósent við Háskóla Íslands og formaður stjórnlaganefndar sagði síðar um þetta ferli ; „Maður gerir sér ekki alltaf grein fyrir því þegar maður lifir merka tíma. Við höfum átt þátt í ferli sem skiptir máli og það hefur verið ævintýri líkast að fá að taka þátt í einhverju sem er fallegt og unnið af einurð. Og það er tilfinning mín fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar.“

Í lýðræðisríkjum er það þjóðin sem setur Alþingi ramma með stjórnarskrá, ekki öfugt. Stjórnarskrá hvílir ekki á ákvörðun stjórnvaldsins. Það er ákvörðun þjóðarinnar sem er grundvöllur ríkisvaldsins. Það er vægt sagt undarlegur lýðræðisskilningur hjá alþingismönnum að neita að hlýða ákvörðun meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu um að landinu verði sett ný stjórnarskrá reistri á tillögum stjórnlaganefndar og Stjórnlagaráðs, en ætla að ráða einir hverju verði breytt. Afstaða stjórnmálastéttarinnar virðist markast af þeirri skoðun að stjórnarskráin sé eign þingflokka á Alþingi.

Í drögum að nýrri stjórnarskrá er gert ráð fyrir að það sé ekki einungis stjórnmálastéttin sem geti boðið þjóðinni upp á þjóðaratkvæðagreiðslu og þá aðeins þegar það varðar þeirra eigin helstu hugðarefni og þeir sjái fram að geta nýtt niðurstöður sjálfum sér til málsbóta.

Í drögum Stjórnlagaráðs er hins vegar gert ráð fyrir að beint lýðræði sé í formi lýðræðislegs réttar kjósenda sem er hafinn yfir geðþótta stjórnmálamanna. Það er reist á óumdeilanlegri kenningu um fullveldi fólksins og allt vald komi frá þjóðinni.

Það er sannarlega hlutverk þjóðarinnar að ákveða hvaða vald hún framselur stjórnvöldum og hvernig hún skiptir því á milli þeirra. Það er þjóðin sem mælir fyrir um takmarkanir á því valdi. Það gengur ekki upp að stjórnmálamenn geti einir sett sínar eigin leikreglur. Þingmenn eru fyrir fólkið, en fólkið ekki fyrir þá. Það er nákvæmlega þarna sem átakapunktinn er að finna. Valdastéttin óttast að missa þau kverkatök sem henni hefur tekist að ná í skjóli gömlu stjórnarskrárinnar. Þar endurspeglast að hennar mati hin listilega smíð og hinn helgi gjörningur.

Andstæðan er hins vegar afrek íslensku þjóðarinnar sem samdi stjórnarskrá með opinni og gegnsærri aðferð sem hefur vakið heimsathygli. Alþýða sem spyr hverjum fullveldið tilheyri. Er þjóðin fullvalda eða einungis Alþingi? Nú eru liðin 7 ár síðan stjórnarskrárdrögin voru samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fullvalda þjóðin krefst þess að vilji hennar sé virtur.

Vigdís Finnbogadóttur forseti hefur sagt um niðurstöðu stjórnlaganefndar og Stjórnlagaráðs : „Árið 2008 steig Alþingi verulega merkilegt skref sem átti að verða til þess að draumurinn um nýja stjórnarskrá rættist loksins. Þá hófst víðfeðmasta og lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina, og hefur vitaskuld vakið athygli um víða veröld. Stjórnlagaráð var kjörið með lýðræðislegum hætti svo þar fengju raddir ólíkra afla í íslensku samfélagi hvert sína rödd, og hin nýja stjórnarskrá var síðan samþykkt samhljóða. Þar að auki sýndi þjóðaratkvæðagreiðsla síðan fram á að íslenskir kjósendur vildu að hin nýja stjórnarskrá yrði tekin upp. En það hefur þó ekki verið gert enn. Íslenska þjóðin hefur beðið nógu lengi.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu