Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Drengir sjáið þið ekki veisluna?

Drengir sjáið þið ekki veisluna?

Þessa dagana birtist skýrslan á fætur annarri þar sem flett er ofan af þeim sýndarveruleika sem ríkisstjórnir Framsóknar og Sjálfstæðisflokks héldu á lofti árin fyrir Hrunið með dyggri aðstoð Seðlabankans og Viðskiptaráðs. Afleiðingarnar urðu skelfilegar fyrir mikinn hluta íslenskrar þjóðar þar sem 10 þús. heimili urðu gjaldþrota, þúsundir launamanna misstu vinnuna og sátu í óviðráðanlegri skuldasúpu. Fjölmargir lífeyrisþegar horfðu á eftir ævisparnaði sínum hverfa úr íslensku bönkunum í leyndarbankabækur útrásarvíkinga á aflandseyjum.

Eftir standa fjölmörg ummæli sem munu sannarlega verða áberandi í kennslubókum í grunnskólum framtíðarinnar. Þar má t.d. nefna ummæli sem Árni M. Mathiesen þáv. fjármálaráðherra viðhafði á Alþingi þann 17. mars 2007 sem endurspeglar afskaplega vel hið mikla andvaraleysi sem einkenndi viðhorf stjórnvalda gagnvart því hvert stefndi. „Hér á Alþingi er fólk að tala sem sér bara ekki til sólar, það bara sér ekki til sólar fyrir einu eða neinu....... Háttvirkur þingmaður sem hér galar fram í tekur meira mark á greiningardeildunum úti í heimi en þeim staðreyndum sem hér liggja........ Ég verð að segja eins og vinur minn, Björn á Hofsstöðum, sagði: Drengir, sjáið þið ekki veisluna? Þetta fólk sér ekki hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum. Það sér það bara ekki, sennilega af því að það vill það ekki.“

Ólafur Ragnar Grímsson forseti fór misserin fyrir Hrunið ásamt nokkrum ráðherrum víða um heimsbyggðina í einkaþotum fjármálamannanna og hrósaði íslensku útrásarvíkingunum fyrir áræðni þeirra. Þann dug og kjark sem einkenndi hina íslensku þjóðarsál og gerði Íslendinga svo sérstaka og stæðu framar öðrum þjóðum.

Í þessu sambandi er oft vitnað í fræga ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands „How to succeed in modern business. Lessons from the icelandic voyage“ þar sem hann var á ferð með helstu viðskiptamönnum Íslands að kynna útrásarvíkingana við opnun bækistöðvar Avion Group við Gatwick-flugvöll í Bretlandi þann 24. febrúar 2005. Ólafur Ragnar forseti sagði í lok ræðu sinnar að Avion Group væri einstakt dæmi um afrek á heimsmælikvarða. Afbragðsgóða sönnun á hæfileikum íslenskra athafnamanna og lauk ræðu sinni með orðum sem hann að eigin sögn fékk lánuð frá Hollywood: „You ain’t seen nothing yet.“

Það er fjallað sérstaklega um umsvif Ólafs Ragnars Grímssonar með hinum svokölluðu útrásarvíkingum í Rannsóknarskýrslu Alþingis í löngum kafla (8. bindi, bls. 170-178) um nauðsyn þess að forsetaembættinu væru settar „siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning“ Einnig „Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli. Þótt stjórnkerfið í heild beri með margvíslegum hætti ábyrgð á því sem gerðist verður ekki hjá því komist að skoða embætti forseta Íslands sérstaklega, svo hart gekk forsetinn fram í þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki.“

Viðskiptaráð Íslands birti kostulega skýrslu árið 2006 um stöðu íslensks efnahagslífs : „Íslensku fyrirtækin sem leitt hafa útrásina á undanförnum árum byggja öll meira eða minna á þeim kostum og einkennum sem við teljum okkur hafa sem þjóð í augum útlendinga. Við erum lítil þjóð, vel tengd innbyrðis, erum fljót að átta okkur á stöðu mála, erum hugmyndarík, tökum ákvarðanir strax og lærum fljótt og örugglega af reynslunni. Markmiðið er að gera Ísland að samkeppnishæfasta landi í heimi."

Viðskiptaráð lagði til að íþyngjandi regluverki sem hvíli á viðskiptalífinu verði afnumið. Íslendingar ættu að láta vinda viðskiptafrelsis leika um sem flest svið hagkerfisins. Því meira sem frelsið væri, þeim mun meira svigrúm hefði viðskiptalífið til að vaxa og dafna. Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum. Ísland ætti þess í stað að bera sig saman við þau ríki sem standa hvað fremst á hverju sviði fyrir sig.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni