Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

IceHot1 og Kata

IceHot1 og Kata

Undanfarin ár hefur Feisbúkkin mín reglulega verið troðfull af gagnrýni – og stundum skítkasti – á Bjarna Ben og Simma, eða IceHot1, eða Panamaprinsanna – eða hvað sem þeir kunna að vera uppnefndir þann daginn.

Sumu hristi ég hausinn yfir, öðru er ég sammála, en ég er vissulega sammála megininntakinu – að þetta séu vondir stjórnmálamenn (í merkingunni vondir fyrir þjóðina) og ég vildi helst vera laus við þá úr pólitík.

En þessum mönnum kemur sjaldnast neinn til varnar – nema mögulega að einhver Sjalli eða Frammari villist inní okkar vinstrisinnaða bergmálshelli.

En svo kemur fyrir að einhver svíkur lit, einhver meintur vinstri maður gengur í björg hægrisins. Fyrst Óttarr Proppé í fyrra og nú er útlit fyrir að VG geri það sama. Gagnrýnin frá vinstrinu verður vissulega hörð – en samt ólíkt kurteislegri heldur en gagnvart Bjarna og Sigmundi, þetta er eftir sem áður „okkar“ fólk – við erum ekki alveg tilbúin til að afmennska það strax, við viljum ennþá trúa því að þau snúi aftur heim – þetta sé bara léttvægt hliðarspor.

En þrátt fyrir að gagnrýnin sé miklu vægari þá eru andsvörin miklu háværari. Ekki mótrök, nei, bara ákall um að vera ekki svona vond við hann Óttar – eða núna, um að vera ekki svona dónaleg við Kötu. Ó, sorrí, það má ekki kalla hana Kötu, það er karlremba. En það má samt áfram kalla Panamaprinsana Sigmund Davíð og Bjarna Simma og IceHot1.

Þetta ákall var vel að merkja ekki svona hávært fyrir kosningar, þegar hægri sinnuð nettröll fótósjoppuðu Skatta-Kötuna sína inná stóriðjumyndir – en nú eru þau auðvitað þögul, enda virðist hún gengin í þeirra björg.

Nú er örugglega hægt að finna einhverja rætna og ógeðslega gagnrýni á Katrínu í einhverjum afkima internetsins og það er um að gera að fordæma það og reyna að uppræta. En þessum ávirðingum um virðingarleysi gagnvart henni fylgja sjaldnast dæmi. En  það virðist þó oft sem þar sé verið að tala um miklu léttvægari hluti. Sem  dæmi birti Auður Jónsdóttir Facebook-status nú í dag þar sem stóð meðal annars:

„Það er sagt að henni sé ekki treystandi til að láta karlana ekki plata sig, að hún sé blinduð af Bjarna Ben, að hún sjái ekki í gegnum aðferðafræði Sjálfstæðisflokksins og svona má endlaustu upp telja.“

Þessu er stillt upp sem karlrembu – og tengt við #metoo og tengd átök. En við erum hins vegar ansi mörg sem treystum Bjarna Ben ekki eitt hænufet, ekki undir neinum kringumstæðum – enda hefur hann margsannað að hann sé ekki traustsins verður. Af þeirri einföldu ástæðu þá getur það að hann fái þig með í ríkisstjórn bara þýtt tvennt fyrir mér; að hann hafi gabbað þig til fylgilags – eða það sem verra er, að þú sért sammála honum um hvernig þjóðfélag þú vilt. Ég mundi draga nákvæmlega sömu ályktun um Kolbein, Ara Trausta, Ólaf Þór eða Steingrím J. ef þeir setjast í ríkisstjórn með Bjarna Ben – en munurinn er bara að þeir eru ekki formenn flokksins og væntanlegt forsætisráðherraefni.

Það eru pottþétt hægrimenn í næsta bergmálshelli sem eru svo lafandi hræddir við  Katrínu að þeir eru sannfærðir um að hún sé að gabba hann Bjarna þeirra í einhverjar svívirðilegar skattahækkanir eða einhvern ennþá verri sósíalisma, og það er alveg skiljanlegt líka.

En að afgreiða þessar áhyggjur sem einhverja kvenfyrirlitningu er einfaldlega firra. Og eiginlega er það í raun einkennilega öfugsnúin kvenfyrirlitning, að ætlast til þess að hún fái eitthvað óvægnari gagnrýni en aðrir er hin raunverulega smættun, hin raunverulega kvenfyrirlitning – að halda  að kona, sem er mögulega næsti forsætisráðherra, eigi að vera stikkfrí frá harðorðri gagnrýni er einfaldlega ansi vaföm bómullarkarlremba.

Nú má pottþétt finna einhverja bullandi  kvenfyrirlitningu gagnvart Kötu einhvers staðar – það er um að gera að reyna að uppræta hana. En ekki búa til kvenfyrirlitningu úr eðlilegri gagnrýni – og jafnvel eðlilegu ranti. Ef þið getið sætt ykkur við að Bjarni Ben sé kallaður IceHot1 á samfélagsmiðlum þá hljótið þið að geta sætt ykkur við það  að væntanlegur yfirmaður hans sé kölluð Kata – og að hún fái sömu gagnrýni og hann fékk þegar hann var í sama starfi.

------------------------------------
Mynd: Kristinn Magnússon

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu