Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Borgaralaun, bótakerfi og nýsköpun

Borgaralaun, bótakerfi og nýsköpun


Það gladdi mig að taka kosningapróf Pírata um daginn. Ekki út af niðurstöðunni – heldur af því að þarna var loksins kosningapróf sem sannarlega spurði um þau málefni sem mér þykja skipta mestu máli.

Helsti gallinn var þó sá að stöku sinnum voru tvær fullyrðingar splæstar saman í eina spurningu – og maður var kannski bara sammála annarri þeirra. Besta dæmið var þetta: 

„Við eigum að rannsaka mögulegar leiðir til að leggja niður almenna bótakerfið og innleiða í stað þess skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun)“

Það virðast flestir Píratar vera fylgjandi borgaralaunum, miðað við stutta stikkprufu sem ég gerði á frambjóðendum. Það er ég líka – en ég er ekki hlyntur því að um leið eigi að leggja niður almenna bótakerfið – og með því að flétta þetta tvennt of mikið saman þá er hætt við að við missum sjónar af mörgum stærstu kostum borgaralauna.

Nú er bótakerfið meingallað eins og það er núna og þarf sannarlega að bæta. Þegar fólk þarf ýmist að sanna aftur og aftur að það sé óvinnufært eða að það sé án atvinnu þá er hvatakerfið augljóslega rammskakkt. Hins vegar er líka augljóst að örorka sumra er þess eðlis að þeir eru aldrei líklegir til þess að verða vinnufærir – það er ekkert sérstaklega sanngjarnt að festa þá í þeirri fátækragildru að vera ávallt á lægstu mögulegu tekjum, sem borgaralaunin ein og sér yrðu eðli málsins samkvæmt alltaf. 

Nýsköpunin

Það sem skiptir þó kannski mestu máli er að borgaralaun eru eitthvað sem allir myndu fá. Fyrir marga yrðu þau einfaldlega, í praxís, hluti af laununum þeirra – en þau myndu líka gefa fólki færi á að taka sér launalaus leyfi eða minnka mjög við sig vinnu til þess að sinna alls kyns hugðarefnum, hvort sem það er að skrifa bók eða stofna fyrirtæki, hanna ódýra orkugjafa eða nýja tískulínu. Hvað sem er í sjálfu sér – en án þess að vera jafn múlbundnir launatékkanum og þeir eru núna.

Með öðrum orðum, borgaralaun eru langbesta nýsköpunartækið sem hægt er að hugsa sér. Vegna þess að flest nýsköpun – og sköpun yfirhöfuð – strandar á því sama; við höfum ekki tíma til að framkvæma. Þegar helmingur vökustunda fara í vinnu þá er ekki mikill tími eftir fyrir annað – og flest þurfum við að nota megnið af þeim tíma í fjölskyldu, vini, áhugamál og já, bara einfaldlega að vera í fríi og þurfa ekki að gera neitt.

Þetta er stóri kerfisvandinn sem borgaralaun gætu leyst; sköpunarkrafturinn er ítrekað kæfður af fyrirtækjum og kerfinu. Fyrirtækjum út af því þau taka alla okkar starfsorku – og þótt fyrirtæki séu auðvitað jafn misjöfn og þau eru mörg og sum leyfi vissulega heilmikla sköpun þá er sú sköpun samt ávallt á einhvern hátt á forsendum fyrirtækisins, því þau borga launin. Þetta kerfi felur líka í sér meingallað hvatakerfi, sem virkar svona: þegar starfsmaður finnur góðar leiðir til vinnusparnaðar (og starfsmenn á gólfinu eru í langbestri stöðu til að koma auga á mögulegan vinnusparnað) þá borgar sig varla fyrir hann að segja næsta yfirmanni frá því, því þótt hagur starfsmannana væri að fá að vera nokkrum klukkutímum skemur í vinnunni þá er hagur fyrirtækisins sá að spara – og ef þeir ná að spara vinnustundirnar um 40 þá er hægt að segja heilum starfsmanni upp. Mögulega þeim sem kom með þessa frábæru hugmynd. Framsýn fyrirtæki vita auðvitað að úthvíldir og vel launaðir starfsmenn eru líklegri til afreka en örmagna vinnuþrælar sem hafa sífelldar áhyggjur af næstu mánaðarmótum – en  framsýn fyrirtæki  eru því miður ekki alltof algeng, fyrirtæki sem miða að því að viðhalda sjálfum sér með sömu aðferðum og notaðar voru í fortíðinni eru mun fleiri.

Kerfið er svo þannig uppbyggt að ef þú ert ekki að vinna hjá einhverju fyrirtækinu þá áttu þrjá kosti; 

1)      að vera frílans, sem veitir um sumt meira frelsi en þú þarft eftir sem áður að vinna við eitthvað sem einhver er tilbúinn til að borga þér fyrir. Fyrir utan að það tekur alltof langan tíma að leita sér að verkefnum, tíma sem væri betur varið í að vinna verkefni.

2)      að vera atvinnulaus. En þá áttu að vera að leita þér að vinnu, sanna ítrekað að þú sért í „virkri atvinnuleit,“ – jafnvel þegar enga vinnu sé að hafa, jafn kjánalegt og það er.

3)      Vera tekjulaus. Lifa á sparnaði eða yfirdrætti. Eitthvað sem gengur ekki til lengdar nema þú sért nýbúin/n að selja fyrirtæki, sért á svívirðilega háum starfslokasamningi eða sért fædd/ur með silfurskeið í munninum.

Hvað gerist?

Ef borgaralaunum yrði komið á væri vissulega flókið úrlausnarefni að ákveða hversu há þau væru – líklega væri ekki óeðlilegt að miða einfaldlega við að það sé hægt að lifa á þeim án þess að leyfa sér neinn lúxus. Slíkt líf tekur á – því mætti reikna með að sumir  myndu vera í einhverjum hlutastörfum til að drýgja tekjurnar eða myndu taka sér nokkra mánuði í vinnu þegar þyrfti, en fólk hefði altént miklu rýmri tíma.

Einhverjir myndu sjálfsagt vera á borgaralaunum og gera ekki neitt. En það yrði mikill minnihluti, stærstur hluti fólks hefur þörf fyrir að vera að gera eitthvað og lúterska vinnusiðferðið er sterkt í okkur Íslendingum, jafnvel þeim okkar sem erum löngu orðin trúlaus. En það er alltof algengt að þessi athafnasemi markist af nauðhyggju og peningahyggju, við finnum okkur eitthvað að gera sem tryggir öruggar og góðar tekjur og hugsum alltof lítið um hvort okkur finnist þetta gaman og hvort við séum að vinna eitthvað raunverulegt gagn með vinnunni okkar. Jafnvel þeir sem velja harkið sem fylgir því að reyna að gera það sem þeir hafa gaman af og trú á lenda ósjaldan í að þurfa samt að spyrja sig; hvernig get ég selt þetta?

Sem er ekki endilega besta leiðin til að vinna hlutina eða einu sinni til að skapa verðmæti; spurningin felur í sér hvernig hægt er að koma hlutunum í verð miðað við núverandi ástand – en heimurinn breytist hratt og fólkið á götunni er líklegt til þess að skynja það fyrr en rótgróin fyrirtæki – ef þau eru ekki of samdauna þessum sömu fyrirtækjum.

Prófum bara að ímynda okkur samfélag þar sem borgaralaun væru til staðar. Einhverjir yrðu eftir sem áður í fullri vinnu, en þeir sem væru á borgaralaunum yrðu margir frílansarar – þeir hefðu ákveðið öryggi til þess að ráða sínu lífi sjálfir og um leið fengju þeir tækifæri til þess að sinna sínu, rannsóknum eða sköpun eða hönnun eða hugmyndavinnu, sem yrði svo í fyllingu tímans að verðmætum sem myndu gagnast bæði þeim og öðrum. Svo myndu þeir sem væru á borgaralaunum ósjaldan hópa sig saman til að skapa eitthvað, þannig að líkast til yrðu fyrirtæki framtíðarinnar til á mun lífrænni hátt; þau myndu vaxa út frá hæfni og áhugasviði starfsfólksins, en ekki með valdboði að ofan.

Kannski myndi þetta ekki gerast. Borgaralaun eru frábær hugmynd, en þau hafa ekki ennþá verið reynd að neinu ráði – það myndi þurfa að gera tilraunir. Og við höfum alveg efni á að gera tilraunir. Við höfum hins vegar ekki efni á að gera þær ekki.

Heimurinn er nefnilega að breytast hratt. Við skulum nefna loftslagsmálin, flóttamannavandann og uppgang rasisma – allt hlutir sem væri hægt að gera miklu meir í að leysa ef við værum ekki alltof upptekin við að vinna óþörf störf. Vegna þess að það stór hluti allra starfa í hinum vestræna heimi eru í raun óþörf, búin til til þess að viðhalda kerfinu, þrátt fyrir að öll tækniþróun sé í átt að aukinni sjálfvirkni sem ætti að þýða meiri frítíma og minni vinnu, en viðbragðið hefur alltof oft orðið að búa til meiri óþarfa vinnu. Tökum bara fjármálakerfið – auðvitað þurfa einhverjir að vinna með peninga – en peningar ættu að vera olían sem heldur kerfinu gangandi, ekki kerfið sjálft. Svipað má segja um sístækkandi stéttir almannatengla og auglýsingagerðarmanna; sem stækka á meðan þrengir sífellt að blaðamönnum og háskólafólki, öðrum stéttum sem líka starfa við að miðla þekkingu, en á töluvert öðrum forsendum þó, forsendum fólksins en ekki forsendum þeirra sem vilja selja okkur eitthvað.

Og heimurinn á eftir að verða miklu sjálfvirkari von bráðar. Róbótar munu bráðum keyra bílana okkar, afgreiða okkur í verslunum og svo mætti sjálfsagt lengi telja. Það ætti að gera líf okkar allra auðveldara – ætti að þýða meiri frítíma sem og betri tíma til að gera það sem manni brennur í brjósti. En reynslan sýnir okkur að raunin getur orðið þveröfug; fyrirtækin spara en fyrir almenning þýðir þetta einfaldlega færri störf og verri efnahag, sem getur svo leitt að sér alls kyns óárán – og ennþá óþarfari vinnu en núna.

Þessu þurfum við að vera tilbúin að bregðast við – og þar gætu borgaralaun verið frábær lausn. Við vitum auðvitað ekki fyrir víst hvernig þau munu virka fyrr en við prófum – og þess vegna verðum við að vera óhrædd við að gera tilraunir, einhvers konar milliveg eins og þennan hér mætti prófa – en það eina sem við vitum fyrir víst er að núverandi kerfi er ekki að virka sérlega vel til neins annars en að viðhalda sjálfu sér – og það býr til alls kyns óþarfa sem gæti þess vegna tortímt okkur á endanum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu