Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Áfram PSV!

Áfram PSV!

Það er bara ár síðan við kusum síðast. Þá voru þreifingar um kosningabandalag. Þreifingar sem sannarlega hefði mátt höndla betur, þetta var frekar klaufalegt í framkvæmd. En það sem eftir stóð var þó fyrst og fremst þetta; eftirá voru þessar þreifingar afskrifaðar sem vond hugmynd, aðallega af því þær þóttu ekki nógu klókar. Klókindi þykja mörgum einn helsti kostur í fari íslenskra stjórnmálamanna. Jafnvel þótt þau klókindi séu frekar hálfvitaleg í raun og ósjaldan óheiðarleg. Jafnvel þótt þessi klókindi snúast helst um það að komast á innihaldsleysinu einu saman inná Alþingi, þetta eru sjaldnast sömu klókindi og þarf til að byggja upp gott samfélag.

En skorturinn á kosningabandalögum og sá skelfilegi frasi að lofa að ganga óbundin til kosninga er einhver mesta meinsemd íslenskra stjórnmála. Með því afsala flokkar sér algjörlega allri ábyrgð á því hvað gerist eftir kosningar og gera kjósendur sína oft samseka í alls kyns eiturbrasi sem þeir skrifuðu aldrei upp á. Það má sannarlega segja allan fjandann um kjósendur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í fyrra – en eitt mega þeir þó eiga; þeir kusu ekki Sjálfstæðisflokkinn. Nema hvað, þeir gerðu það bara víst, í þessu klikkaða kerfi ábyrgðarleysis sem íslenskur stjórnmálakúltúr hefur þróað. Og ríkisstjórn sem kolféll hélt samt í raun velli – því Sjálfstæðisflokkurinn fann sér bara tvær hækjur í staðinn fyrir eina.

Þess vegna langar mig að gera grein fyrir atkvæði mínu, sem greitt var utan kjörfundar. Ég kaus Pírata, Vinstri-græn eða Samfylkingu. Það skiptir ekki öllu máli hvern þessara flokka ég kaus, enginn þessara flokka er fullkominn, langt í frá – en þetta eru einu flokkarnir í boði sem ég gæti hugsað mér að styðja (að undanskildum kannski eins og einum örflokki), af því þrátt fyrir ýmsa galla má ýmislegt gott segja um alla þessa flokka.

En ég vil engann þessara flokka í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, Miðflokkinn eða Flokk fólksins, enda hefur sá fyrstnefndi holað íslenskt samfélag að innan svo árum skiptir og hinir tveir hyggjast fljóta inná þing í nafni rasisma, þjóðrembu og popúlisma, hversu mikið sem þeir reyna að þræta fyrir það.

Björt framtíð og Viðreisn eru nýkomin úr skelfilegu ríkisstjórnarsamstarfi, þar sem flokkarnir gerðu fátt af viti annað en að slíta loks samstarfinu – og Framsókn er ennþá sá afturhaldsflokkur sem nafnið reynir að fela þótt þeir megi eiga það að hafa hreinsað aðeins til. Þessa flokka er ekki ástæða til að tala við nema í ítrustu neið (Lesist: ef PSV nær ekki hreinum meirihluta).

Þetta blogg er því áskorun um ríkisstjórnarsamstarf. Það er of seint að mynda kosningabandalag – en það er ekki of seint fyrir okkur kjósendur að senda ítarlegri skilaboð en þetta litla x sem við getum sett á kjörseðilinn. Ég er auðvitað bara stakur kjósandi – en ef fleiri vilja þessa sömu ríkisstjórn er þeim frjálst að deila þessu bloggi. Ef þið viljið einhverja allt aðra ríkisstjórn hvet ég ykkur líka til að láta flokkana vita af því, blogga um það sjálf, setja Facebook-status eða tvít, standa á stól í Smáralind eða á Glerártorgi eða hvaða aðferð sem hentar best.

Gerið einfaldlega allt sem ykkur dettur  í hug til að minna flokkana á að þeir ganga ekki óbundnir til kosninga – þeir eru nefnilega bundnir kjósendum sínum og skulda þeim öll sín þingsæti.

P.S.: Það skal tekið fram að hið ágæta fótboltafélag PSV Einhoven tengist færslunni ekki beint – ég ákvað bara að fá lógóið þeirra lánað frekar en að kvelja fólk með vondu fótósjoppi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu