Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Meðvirk smáblóm: Óflutt ræða 2

Meðvirk smáblóm: Óflutt ræða 2

Ég ætla ekki að byrja þessa ræðu á því að segja bara góðir Íslendingar – af því á síðustu mótmælum sem ég var á hitti ég útlenska stelpu sem var að mótmæla – sem er vísbending um að hægt og rólega sé allur heimurinn búinn að fá nóg af þessari ríkisstjórn. Nei, ég ætla að byrja þessa ræðu svona:

Kæru gestir; ég ætla að biðja ykkur um að hlusta. Ég ætla að biðja ykkur um að hlusta vel á þetta fallega lag þótt þið hafið heyrt það þúsund sinnum áður – út af því að þetta lag er sungið um okkur öll.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!

Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!

Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans

þínir herskarar, tímanna safn.

 

Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár,

og þúsund ár dagur, ei meir;

eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,

sem tilbiður guð sinn og deyr.

 

Íslands þúsund ár,

Íslands þúsund ár!

eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,

sem tilbiður guð sinn og deyr.

 

Afsakið að ég stoppaði sönginn – ég bara gat ekki hlustað lengur. Það er ekki út af því ég sé trúlaus – heldur af því að skyndilega heyrði ég að Matthías Jochumson hafði árið 1874 dreymt martröð um framtíðina og skrifað hana niður. Framtíð þar sem Sigmundur Davíð og Ólafur Ragnar og Bjarni Ben hafa túlkað atkvæði okkar á þann veg að þeir séu guðir. Þeir séu guðir vors lands og það sé okkar eina hlutverk að hnýta þeim kransa. Þeir eru svo veruleikafirrtir að þeir skynja ekki muninn á einum degi og þúsund árum – og þess vegna reyna þeir að eyðileggja náttúru og menntakerfi og efnahagsgrundvöll heillar þjóðar fyrir skyndigróða, því þannig hugsa menn sem halda að einn dagur skipti jafn miklu máli og þúsund ár.

Fyrir þessum mönnum erum við bara grenjandi smáblóm sem höfum ekki annað hlutverk í lífinu en að tilbiðja þá og deyja svo sem barðir þrælar.

En ég sætti mig ekki við að vera eitthvað helvítis smáblóm. Við erum nefnilega öll spendýr og síðustu árþúsundunum höfum við eytt í það að læra að standa upprétt. Við skulum halda áfram að standa upprétt.

Vegna þess að þessir menn eru ekki guðir í alvörunni. Þeir halda það bara sjálfir, af því þeir eru komnir úr öllum tengslum við raunveruleikann. Við skulum hjálpa þeim að komast aftur í tengsl við raunveruleikann. Við skulum hætta að hnýta þeim kransa, við skulum hætta að haga okkur eins og smáblóm, við skulum hætta að tilbiðja þá.

Í staðinn skulum við koma fram við þá  eins og manneskjur og hjálpa þeim. Hjálpa þeim að skilja að þeir eru í starfi sem þeir ráða ekki við. Þeir eru í starfi sem gerir þá sjálfa og okkur öll óhamingjusöm. Þeir eru í starfi sem þeir eiga að hætta í eins og skot til þess að bjarga sálarheil þeirra sjálfra og geðheilsu þjóðarinnar allrar.

Þess vegna skulum við öll vakna núna. Vakna af þessari eldgömlu martröð og byrja að dreyma almennilega drauma. Drauma um þjóð sem stendur alltaf upprétt, þjóð sem kýs ríkisstjórn sem vill vernda náttúruna, bjarga menntakerfinu og laga efnahag fjöldans en ekki hinna fáu. Þjóð sem kýs ríkisstjórn sem krefst ekki tilbeiðslu en reynir frekar í auðmýkt að vinna sér inn traust kjósenda. Ríkisstjórn sem skilur að ef hún hugsar um næstu þúsund ár en ekki bara næsta dag þá verður næsti dagur góður – og líka öll þessi þúsund ár sem fylgja. Ríkisstjórn sem er raunverulega ríkisstjórnin okkar – ekki ríkisstjórn sægreifa og bankastjóra.

Ég horfi yfir þetta torg og sé að þið eruð öll vöknuð. Það er samt ekki nóg. Við þurfum líka að vekja fólkið í þessari gráu byggingu þarna. Við þurfum að vekja það og reka það út. Því það er á okkar ábyrgð að það er þarna inni – þess vegna er það okkar ábyrgð að koma þeim út.

Þetta fólk sefur svo fast að við þurfum að öskra og öskra og öskra og öskra áður en það vaknar, við þurfum að öskra okkur hás, við þurfum að halda vöku okkar þegar við erum að bugast, við þurfum að halda áfram þangað til þetta fólk vaknar.

Þannig að núna skulum við öskra eins hátt og við getum og vekja þetta fólk!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni