Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Hversdagshetjur og hversdagsrasismi: hetjurnar sem við þegjum um

Hversdagshetjur og hversdagsrasismi: hetjurnar sem við þegjum um

Mig langar að segja ykkur frá honum Hassan Zubier. Ég ætti samt ekki að þurfa þess, út af því að allir fjölmiðlar ættu að vera löngu búnir að því, andlitið á honum ætti að vera á forsíðum allra dagblaða og vefmiðla heimsbyggðarinnar einmitt núna. En það virðist einfaldlega ekki passa inní stórsöguna sem fjölmiðlar Vesturlanda vilja búa til handa okkur.

Ég finn samt eitthvað örlítið um Hassan þegar ég slæ nafnið inn í Google. Ég finn til dæmis þessar fyrirsagnir úr bresku pressunni:

„Finland 'terror' attack: Briton injured 'trying to save' women targeted in attack which left two dead“

Þetta sagði Daily Telegraph okkur. The Sun fannst það ekki nóg og bætti um betur:

„Finland attack – Brit hero ‘who came to rescue of stabbed women and children’ among those injured in Turku terror rampage… as it emerges teen suspect is Moroccan – just like Barcelona jihadis“

Hvað segja þessar fyrirsagnir okkur? Jú, að hugrakkur Vesturlandabúi, Breti, hafi reynt að bjarga saklausum konum frá þessum skelfilegu múslimum frá Marokkó og öðrum löndum þarna í Langtiburtistan. Og hver er þessi Hassan sem ég er að tala um, er það ekki örugglega bara einhver af þessum ógurlegu hryðjuverkamönnum?

Nei, Hassan er ekki hryðjuverkamaður. Hassan er þvert á móti hetjan sem allir ættu að vera að tala um. Þessi Breti sem slasaðist á örugglega allt gott skilið, en ég veit ekkert um hann – á bak við fyrirsagnirnar virðast bara vera einhverjar minniháttar skrámur og lítil saga, hann var bara einn af mörgum sem reyndu að hjálpa konum í neyð eins og gott fólk gerir.

En svo kom árásármaðurinn aftur. Og þá hörfuðu allir. Líka Elena. Hún segir frá því á Facebook hvernig einhver öskraði að hann væri að koma aftur – „og þá hörfuðum við öll.“ Nema einn maður sem heyrði sömu viðvörun og allir aðrir. Einn maður sem hélt hendinni við slagæð á hálsi deyjandi konu sem hann þekkti ekki neitt til að reyna að stöðva blæðinguna. Hann hélt áfram fast við slagæðina þegar árásarmaðurinn kom aftur og stakk hann sjálfan í hálsinn, í bringuna, í axlirnar og aðra hendina. Þessi maður sem ég er að tala um er Hassan Zubier. Hann liggur nú þungt haldinn á spítala og gæti misst aðra hendina. Hann er hetjan sem við ættum öll að vera að tala um – en þótt hann sé sænskur og fæddur í Kent á Englandi þá er hann af egypskum ættum – og það er kannski þess vegna sem hann er ekki á öllum forsíðunum?

Hassan er sjúkraflutningsmaður sem býr í Märsta, úthverfi Stokkhólms. Ég er ekki svo gæfusamur að vera Facebook-vinur hans en nýjasti pósturinn sem ég sé á síðunni hans er falleg stuðningskveðja vegna Gleðigöngunnar í Stokkhólmi og neðar finn ég samúðarkveðjur vegna hryðjuverkaárása í Bretlandi. Lífsmottóið hans samkvæmt Facebook er fallegt og harmrænt í senn: „Dreymdu eins og þú munir lifa að eilífu, lifðu eins og þú munir deyja í dag.“ Þetta er ekki þessi skelfilegi kvenhatandi múslimi sem bresku götublöðin reyna að draga upp mynd af fyrir okkur, þetta er miklu frekar ósköp dæmigerður frjálslyndur og hjartahlýr nútímamaður – sem vill svo til að er múslimi. Rétt eins og margir aðrir frjálslyndir og góðhjartaðir nútímamenn.

Hassan er heldur ekki neitt einsdæmi. Þegar ég spurði finnska vinkonu mína nánar út í málið benti hún mér á þetta myndband hér, þar sem við getum séð blökkumann frá Suður-Afríku – sem flutti til Svíþjóðar fyrir áratug – tala undurfagra finnsku með afrískum sönglanda. Hann heitir Pauli Sitoi og er næturvörður og var á torginu að drepa tímann fram að næstu vakt þegar hann sér menn koma hlaupandi. Stuttu síðar sér hann annnan þeirra liggja í blóði sínu og gerði sitt besta til að stöðva blæðinguna og lýsir því í viðtali hvernig heimurinn hafi horfið – hann var bara með fórnarlambinu og tók ekki eftir látunum í kringum þá.

En núna er Pauli hræddur. Ekki við hryðjuverkamenn heldur alla hina. Því viðmótið gagnvart hælisleitendum og innflytjendum hefur farið stigvaxandi og núna er það bara líklegt til að versna. Enda flytja jafnvel frjálslynd stórblöð eins og The Guardian fréttir af því að árásarmaðurinn hafi verið hælisleitandi en minnast ekkert á hetjuna sem var það líka. Einmitt svona lítur hversdagsrasisminn út – meinleysislegur en ísmeygilegur. Við sjáum hann líka í bíó, þar sem allir eru að lofa Dunkirk, sem virðist í fyrstu um margt mögnuð frásögn af sigri mannsandans – þangað til við lítum í alvöru sögubækur og áttum okkur á að þarna er bara fjallað um hvíta mannsandann, ekki allan þann fjölda Afríkubúa úr þeim frönskum og breskum nýlendum sem gerðu miklu, miklu meira til þess að tryggja Bandamönnum sigur í stríðinu en okkur órar fyrir, svo rækilega hafa þeir verið skrifaðir út úr mannkynssögunni.

Og þetta þýðir það að hetjur geta orðið hræddar eftir hetjudáðirnar, ekki við þá, heldur við okkur.

En vonandi mun það breytast, vonandi munu fjölmiðlar stunda jafngóða blaðamennsku og borgarablaðamennskuna sem hún Elina Rauhala stundar á Facebook. Hún líkur orðsendingunni á því að segja okkur að hún eigi eftir að muna hugrekki Hassans, það hafi verið ljósið í myrkrinu og hún vonist til þess að geta faðmað hann einn daginn og þakkað honum fyrir. Svo má líka smella á áðurnefnda Guardian-frétt - ekki til þess að lesa hana endilega, heldur til þess að skoða langbestu fréttamyndina frá atburðinum. Hún sýnir ekki þungvopnaðan finnskan sérsveitarmann eins og BBC heldur dökkhærða stúlku í rauðum kjól sem situr á götunni og lætur regnið ekki stoppa sig í að spila á torkennilegt hljóðfæri sem ég kann ekki nafnið á í minningu fórnarlambanna og við hliðina á henni eru tveir menn að bæta á kertahafið. Ég veit ekkert hvaða fólk þetta er, ég veit ekki hvort þetta eru Finnar eða útlendingar, innfæddir genetískir norðurlandabúar eða innflytjendur. Allir þessir möguleikar eru jafn líklegir - því þetta er bara fólk sem syrgir og vill vera gott við hvort annað.

P.S.: Sérstakar þakkir til Lumi fyrir aðstoð við finnskuna og góðar ábendingar - kiitos!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu