Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Martröðin: Óflutt ræða 1

Martröðin: Óflutt ræða 1

Kæru gestir!

 

Þetta verður játning.

 

Mig langar bara að byrja á því að þakka ykkur fyrir að taka slaginn. Fyrir að halda áfram að berjast. Einu sinni var ég nefnilega eins og þið. Svo gafst ég upp.

 

Ég er nefnilega einn af þeim brottfluttu – fyrir tæpum tveimur árum síðan seldi ég allt dótið mitt og flutti úr landi. Ástæðan var sú að mig var farið að dreyma sömu martröðina aftur og aftur og aftur og áttaði mig á endanum á því að það var verið að eitra fyrir mér.

 

Lífið var nefnilega um margt ágætt áður en ég fór. Það var hellingur af góðu fólki eins og ykkur í kringum mig og sumarnæturnar voru fallegar þótt það væri kalt. Svo kom maður heim og hefði getað farið glaður að sofa. En þá fellur maður, kveikir á tölvunni og andar að sér eitrinu, það liggur yfir Facebook og fjölmiðlunum og internetinu og heimabankanum og þegar maður sofnar svo eftir háltíma netráf, þá, já þá, hefst martröðin.

 

Martröð þar sem ríkisstjórn lækkar veiðigjöld á útgerðir þannig að þær geti komist upp með að skila sem minnstu til annarra sameiginlegra sjóða, eins og heilbrigðiskerfisins sem er látið drabbast niður til að einn daginn geti misskilin albönsk frjálshyggjudraumsýn Ásdísar Höllu orðið að raunveruleika – þótt allir alvöru Albanir og veik albönsk börn séu send heim við fyrsta tækifæri af stofnun sem starfar með það aðalmarkmið að losna við útlendinga og gera þeim lífið leitt og gerði það lengstum undir forsjá ráðherra sem ásamt aðstoðarmönnum sínum reyndi allt til að sverta mannorð Tony Omos, útlendings á flótta – og í kjölfarið á fréttaflutningi var líka reynt að sverta mannorð þeirra blaðamanna sem seinna unnu ítrekað verðlaun fyrir fréttaflutinginn. Það eru miklu fleiri flóttamenn en Tony í Evrópu núna, fleiri en nokkru sinni, og þótt að 18 þúsund manns hafi boðið fram aðstoð og stuðning þá hummar ríkisstjórnin það fram af sér og sýnir flóttamannavandanum lítinn áhuga, því þótt á Íslandi séu endalausar víðáttur og feikinóg pláss fyrir fleira fólk þá er það sem einkennir þessa ríkisstjórn einfaldlega skortur á mannúð og samkennd. Já, fyrir utan spillinguna auðvitað.

 

Því þótt hægrimenn fullyrði að markaðurinn hygli þeim sem standi sig best þá eru ótal dæmi um hversu mikið andverðleikasamfélag Ísland er – hér ræður frændhygli, kunningsskapur og flokksskírteini miklu meiru um hversu langt þú nærð en hæfileikar – og þar eru flestir samsekir – Ísland er ennþá samfélag klíkunnar. Það mætti mögulega laga að einhverju leyti með því að lofta út og leita út í heim – en  loforð um kosningu um Evrópusambandsumsókn voru svikin og íslenski kúrinn kynntur í staðinn. Sá kúr reyndist enn dýrari en útlit var fyrir því matarskattur var hækkaður á meðan auðlegðarskattur var lagður niður. Það kosningaloforð sem þó var staðið við snérist um að ræna yngri kynslóðir leigjenda til að borga niður skuldir eldri og ríkari íbúðareigenda, til að yngri kynslóðin yrði svo enn fjær því að geta eignast eigin íbúð þótt leiguverðið ryki upp í kjölfar túristabylgju sem gæti verið gleðiefni ef það væri einhver minnsta hugsun lögð í vernda það gullegg og lágmarka óæskileg áhrif þessarar flóðbylgju á leigumarkað, sem var samt nógu galinn fyrir.

 

Þessir túristar koma margir helst út af náttúrunni sem ríkisstjórnin hefur sýnt svo fáheyrt áhugaleysi að hún trassaði að hafa umhverfisráðherra lengstaf kjörtímabilinu. Framtíð þessarar óspjölluðu náttúru er í hættu og sömuleiðis framtíð næstu kynslóðar – menntamál eru svelt, breytingar á framhaldsskólum eru unnar án raunverulegrar umræðu eða samráðs og fólk sem hefur tekið sér námshlé frá framhaldsskólum er bannað að taka upp þráðinn eftir að það verður 25 ára. Á meðan voru 30 prósent ríkisstjórnarinnar með tengls við skattaskjól – núna eru það bara 20 prósent – og virðast sannfærð um að þau nái að sannfæra okkur um að þau séu eina fólkið í veraldarsögunni sem notar skattaskjól án þess að hafa neitt að fela. Ef það er svo útvarpað stygðaryrðum um eitthvað af öllu þessu þá berast margháttaðar misvel dulbúnar hótanir upp í fjársvelt Efstaleiti.

 

Þessi martröð heldur áfram og tilveran fer að snúast um að vakna og vinna og koma svo heim og sjá tölurnar í heimabankanum verða rauðari og rauðari því þetta reikningsdæmi ríkisstjórnarinnar gengur ekki upp nema fyrir hana sjálfa og bestu vini hennar. Þessa ríkisstjórn sem við kusum. Já, við kusum þau. Kannski ekki við persónulega – en við gerðum það sem þjóð. Við þurfum að taka ábyrgð á þessu atkvæði okkar – og við gerum það bara með því að koma þessum yfirvöldum frá.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni