Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Nokkur þarfaverk

Nokkur þarfaverk

Ég lifi frekar þægilegu forréttindalífi. Ég er miðaldra hvítur karl og hef því ekki þurft að þola mótlæti sem margir minnihlutahópar hafa þurft að þola. Ég er í “góðri innivinnu” sem er krefjandi og gefandi og á möguleika á að taka þátt í að breyta heiminum. Það er ef til vill óskynsamlegt að hreyfa við þessu þægindalífi og bjóðast til þess að fara í þann leðjuslag sem stundaður er á Alþingi. Ég brenn hins vegar fyrir því að leiðrétta ýmis konar óréttlæti sem viðgengst í þjóðfélaginu, þó það snerti mig ekki persónulega.

Það er farið að nálgast áratug eftir hrun. Enn bólar ekkert á aðgerðum til að stemma stigu við hrægamminum sem hefur níðst á leigjendum eða okurvöxtum húsnæðislána. Það er eins og þetta aðkallandi vandamál flestra (allra?) í landinu sé bara ekki nægjanlega sýnilegt stjórnvöldum. Á lánamarkaði hafa bankarnir belti og axlabönd og eru fullverndaðir fyrir þeim skaða sem þeir geta sjálfir valdið á efnahag þjóðarinnar. Ég hef skrifað um mína lausn á því máli sem veltir ábyrgðinni yfir á bankana, þar sem hún á heima. Það er skortur á fasteignamarkaði. Við þurfum að byggja svo sem eitt Breiðholt í höfuðborginni, strax.

Það er mjög erfitt fyrir ungt fólk að kaupa fyrstu eign. Dæmi eru um fólk sem byrjar að leggja fyrir samkvæmt algerlega sturluðum áætlunum Íslandsbanka og upplifir síðan að útborgunin sé lengra í framtíðinni við hver mánaðarmót vegna þess að hækkanir á fasteignaverði er meiri en þau geta lagt fyrir. Ungt fólk á að eygja einhverja von. Ef staðan er ekki þannig þá þarf að breyta kerfinu.

Heilbrigðiskerfið er í molum. Ég varð vitni að því um daginn að einstaklingur með verulega skert ónæmiskerfi var settur á sömu stofu og manneskja með kvef. Ástæðan var að ekki var til rúm á deild sem gat tekið við ónæmisviðkvæmum einstakling. Á sama tíma er verið að auka þann hluta fjárlaga sem fer í að greiða fyrir þjónustu í einkarekstri. Það á ekki að vera til peningur fyrir starfsemi með gróðavæntingar þegar ekki er til peningur til að reka grunnþjónustuna sómasamlega.

Mannvonskan sem hefur birst okkur í gegn um stjórnvaldsákvarðanir Útlendingastofnunar og yfirvalda virðist ekki vera tilviljun. Börn eru ódýr. Meiri manngæska finnst fyrir barnaníðinga en flóttabörn sem þrá ekkert annað en að eiga heimili þar sem þau verða ekki sprengd í loft upp, eða sýru kastað í andlit þeirra fyrir að sækja skóla.

Táningar eru brennimerktir fyrir lífstíð eftir smávægileg vímuefnabrot. Á aldri sem einkennist af uppreisn gegn öllu og að blása upp í vindinn gerist ýmislegt sem ekki á að brennimerkja fólk fyrir. Það er bara viss ómennska í mínum huga. Ég held að þetta verði fordæmt síðar og litið sömu augum og við lítum á mannréttindabrot fyrri tíma.

Það er samt mikilvægast að breyta grunnjöfnunni fyrir því hvernig stjórnmál eru stunduð. Stjórnmálamenn þurfa að vera ábyrgir fyrir einhverju meiru en að syngja loforð á 4 ára fresti og geta síðan gert breytingar á samfélagsgerðinni án þess að kjósendur geti rönd við reist. Frumkvæðisrétt og andmælarétt þjóðarinnar verður að binda í Stjórnarskrá!


Ef þú ert sammála mér um þessi atriði, þá bið ég þig um að styðja framboð mitt í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu sem verður kynnt á næstu dögum. Ég mun taka það sæti sem mér verður treyst fyrir og vinna til að tryggja gott kjörgengi flokksins, sama hver niðurstaða prófkjörs er.  Stefnumál okkar eru skýr. Við viljum vinna að betra Íslandi, með og fyrir Íslendinga.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni