Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eru Píratar hættulegir?

Stóra hættan!

Nú þegar hillir undir kosningar þá má sjá einn og annan ráðast fram á ritvöllinn með yfirlýsingum um að Píratar séu stórhættulegir.  Birtingarmyndirnar eru ýmsar.  Píratar vilji galopna landið, hafi ekki átt rétt á þingsetu vegna smæðar, að þeir hafi ekki vald til að boða til kosninga og að þeir tali fyrir þjófnaði. Þetta eru allt saman birtingarmyndir ótta þeirra sem tala.  Ég treysti kjósendum til að meta fullyrðingarnar út frá þeim sem talar og líta frekar á Pírata út frá því sem við segjum sjálf um það sem við viljum gera.

Flóttamannamál

Píratar hafa samþykkt stefnu í málefnum flóttamanna.  Þar eru nú ekki róttækari hlutir nefndir en að framfylgja sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um flóttamenn og að Dyflinar-reglugerðinni sé beitt of víðtækt.  Ekkert er talað um að flytja inn flóttafólk í massavís.  Stuðningur við það er hins vegar þó nokkur eins og sjá má á tölum frá MMR og stuðningur í þeirri könnun fyrir flestum flóttamönnum kom frá stuðningsmönnum Bjartrar Framtíðar en ekki Pírata.  Við höfum samþykkt stefnu sem segir einfaldlega að við viljum koma vel fram við þá sem hingað eru komnir og virða mannréttindi þeirra.

Píratar eru litlir

Mig grunar að þessi athugasemd Bjarna hafi sprottið út frá ótta hans um að Píratar verði í lykilhlutverki við stjórnarmyndun.  Einstaka Pírati hefur lýst því yfir að ekki komi til greina að vinna með Sjálfstæðismönnum en ekki hefur komið nein slík yfirlýsing frá félaginu eða aðildarfélögum svo ég viti til.  Pírötum er nefnilega sama hvaðan góðar hugmyndir koma.  Það stendur berum orðum í grunnstefnu okkar: "Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru."

Píratar boða ekki til kosninga

Þessi ummæli spretta að vissu leyti út frá eigin skömm vænti ég.  Austurvöllur lét undan látunum þegar Panamaskjölin voru birt.  Þar rúmaðist ekki sú óánægja sem fólk vildi láta í ljós.  Til þess að halda stærri mótmæli á Íslandi þá þarf að velja þeim annan samastað.  Sigmundur reyndi klækjabrögð til að halda velli en mistókst.  Þar sem Píratar eru aflið sem mest hefur sótt á frá seinustu kosningum þá velur hann þau sem holdgerfing eigin mistaka og reynir að velta yfir á okkur ábyrgðinni.  Því er auðvísað til föðurhúsanna.  Stjórnarandstaða hvers þings stefnir að sjálfsögðu alltaf að því að fella sitjandi stjórn.  Krafan um kosningar kom hins vegar ekki fyrst frá Pírötum.  Það voru mótmælendur sem kröfðust að eitthvað léti undan.  Píratar voru sammála.

Píratar eru þjófar

Fyrir þessum ummælum standa nokkrir þjóðþekktir menn.  Margir þeirra eru kyrfilega spyrtir við flokka sem hafa setið lengi á þingi, en það þarf ekki að ógilda gagnrýnina.  Hún er hins vegar til komin vegna þess að skráardeilisíða setti Yarrr!!! á forsíðu sína og samkvæmt tilgátunni þá væri það Píratakveðja og eignaði því stjórnmálaflokknum Pírötum allar gjörðir og tilætlanir skráardeilisíðunnar.  Það er svona álíka eins og að ætla öllum sem hyllt hafa Ísland með "Íslandi allt!" í gegn um tíðina, skoðanir Sigmunds Davíðs fyrst hann lauk endurkomubréfi sínu á þeim orðum.  Þetta er líka svo öfugsnúið því Píratar eru eina stjórnmálahreyfingin sem hefur sett fram stefnu í höfundarréttarmálefnum sem er lausnarmiðuð og hefur að markmiði að höfundar fái greitt fyrir sína vinnu á stafrænni öld.

Nú, hvað eru Píratar þá?

Píratar eru lýðræðissinnuð hreyfing sem langar til að reyna nýja aðferð í stjórnmálum.  Við trúum ekki á leiðtogadrifna stefnu heldur sanna grasrótarstefnu.  Kjörnir fulltrúar verða fyrst að sannfæra grasrótina um að eitthvað sé góð hugmynd og saman þurfa fulltrúar og grasrót að sannfæra þjóðina.  Við viljum vera þú og ég, og við.  Við viljum að fólkið í landinu fái að ráða.  Þess vegna eru ráðandi öfl svo óttaslegin.  Þau óttast það að landslýður læri eitthvað nýtt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu