Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hugsað út fyrir kassann (Borgaralaun)

Árið 2009 var framkvæmd mjög áhugaverð tilraun í London.  Þrettán heimilislausum mönnum var boðið að eyða 3000 pundum (uþb 466þ. ISK) eftir eigin hentisemi.  Eina "kvöðin" var að þeir þurftu að segja frá hvað þeir ætluðu að eyða peningunum í.  Kerfislægur kostnaður af þessum mönnum var töluvert hár.  Heilsugæsla, lögregla, félagsleg úrræði og ónæði af þeim var metið á tugþúsundir punda á ári fyrir hvern þeirra. Sumir þeirra höfðu sofið á götunni í 40 ár.  Allir höfðu þeir hafnað öðrum úrræðum og litu jafnvel með stolti á þá staðreynd að þeir þyldu við í verstu veðrum utan dyra.

Það kom stuðningsfulltrúum þeirra á óvart hvað þeir vildu eyða peningunum í.  Enginn vildi nota þá í brennivín, dóp eða fjárhættuspil.  Þeir voru með litlar hófstemmdar þarfir.  Einn vildi hafa síma, annar vildi orðabók, enn annar vildi eiga vegabréf.  Ári síðar voru 11 af 13 komnir með þak yfir höfuðið.  Þeir höfðu hafið skólagöngu, lært að elda, farið í vímuefnameðferð og gert einhvers konar áætlun um hvernig þeir ætluðu að lifa lífinu.  Eftir áratuga átök lögreglu og velviljaðra félagsráðgjafa með hefðbundinni niðurlægingu og sektum fyrir útigang þá var það smá sjálfsákvörðunarréttur og möguleiki til að hrinda einhverju jákvæðu í framkvæmd sem fékk 11 einstaklinga til að endurheimta trú á lífið.

Kostnaðurinn var ekki mikill fyrir þann áragur sem náðist.  Þrettán líf fengu annað tækifæri til að blómstra.  Ellefu náðu rót.  Var ekki miklu til kostandi til þess?  Heildarkostnaður verkefnisins þar með talin laun stuðningsfulltrúa var um 50 þúsund pund en kerfislægur sparnaður var metinn á 350 þúsund pund.

Það er látið eins og fátæktarvandinn sé flókið vandamál en orsökin er einföld.  Fátækir eiga ekki pening (sjokkerandi, veit).  Hugmyndin um borgaralaun fær stuðning frá hagfræðingur sem aðhyllast alls konar pólitík.  Þau leysa af hólmi "bótakerfi" sem búa til fangelsi fyrir fólk sem það jafnvel losnar ekki úr fyrr en það yfirgefur þennan heim.  Borgaralaun skapa aðstöðu þar sem fólk getur bætt hag sinn án þess að fórna grunnframfærslunni. Borgaralaun snúast um það að þú eigir ekki lífsviðurværi þitt undir því að pappír liggi stimplaður í skúffu einhvers staðar í kerfinu.

 Píratar eru þekktir fyrir að vera hugsjónafólk með framandi hugmyndir.  Þetta lítur út fyrir að vera ein af þeim.  Hún er það hins vegar ekki, þetta er eitt af því sem margir Íslendingar álíta grunngildi þjóðarinnar.  Við álítum að allir eigi rétt á framfærslu og viðurværi.  Enginn er svo ódýr meðal okkar að hann megi bara falla á milli skips og bryggju í bútasaumsbótakerfi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni