Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Mannréttindabrot morgundagsins

Einhvern tíman í fyrndinni var það staðreynd lífsins að þegnar sem voru með uppsteyt gegn kóngi hyrfu í skjóli nætur og sæjust ekki framar í konungsdæminu.  Þetta þótti jafnvel ekki óvænt í einhverjum tilfellum.  Á einhverjum tímapunkti var samt ástæða til að lögleiða habeus corpus sem réttindi þegnanna gegn konungi í stað þess að hann hefði vald til að fangelsa fólk og jafnvel lífláta án dóms og laga.  Í dag finnst okkur þetta kannski sjálfsögð mannréttindi en þau eru ekki óumdeild í heiminum.  Forsetar Bandaríkjanna hafa í gegn um tíðina viljað leggja af habeus corpus tímabundið og kemur því ekki á óvart að brotin eru mannréttindi fjölda fanga sem horfið hafa að nóttu til og verða ekki færðir fyrir dómara.

Blessunarlega er þó gangur mála aðallega á þann veg að mannréttindi aukast yfir tíma frekar en að þau séu afnumin.  Við lítum jafnvel til baka og getum næstum ekki hugsað okkur hvernig samfélagið gat samþykkt að einhverjir væru rétthærri en aðrir.  Við skiljum ekki alveg Ísland fyrir rúmlega 130 árum þegar konur gátu ekki kosið.  Við skiljum ekki alveg Bandaríkin fyrir 50 árum síðan þegar blökkumenn voru hunsaðir sem þjóðfélagsþegnar.  Við skiljum hins vegar að samkynhneigð er eðlilegur litur í regnboga mannlífsins og höldum áfram að berjast gegn því að kynhneigð aðgreini okkur.

Við höfum sem tegund unnið sigra á fordómum fortíðarinnar og áttað okkur á hvar við gerðum á hlut samþegna okkar og bundið í lög og venjur hvernig við viljum koma fram hvert við annað.  Þrátt fyrir þann vilja þá er nú samt alveg örugglega einhverjir þættir mannlífsins þar sem við erum enn röngum megin við réttlætið og bara vitum það ekki ennþá.  Ég velti því fyrir mér hvaða sjálfsögðu þættir nútímalífs verða álitnir mannréttindabrot eftir 15,  50 eða 100 ár?  Hvar erum við að koma fram við samferðafólk okkar þannig að þjóðfélagsrýnir framtíðarinnar kemur ekki til með að skilja hvernig við gætum verið svona grimm eða hugsunarlaus?

Ég er nokkuð viss um að hvernig við komum fram sem samfélag gagnvart þeim sem velja að nota ólögleg vímuefni verði álitið mannréttindabrot einhverntíman.  Hættum að gera heilsugæslumál að lögreglumálum.  Afglæpavæðum neyslu og vörslu fíkniefna í neysluskömmtum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni