Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Myllusteinn snýr aftur

Það er búið að vera soldið absúrd að fylgjast með atburðarrásinni eftir að Sigmundur Davíð varpaði sprengju inn í þjóðmálaumræðuna með tilraun til endurkomu.  Það var hægt að spá fyrir um nokkra þessa hluti.  Augljósast var að stjórnarandstaðan myndi taka þessu illa og það stóð ekki á þingmönnum að lofa því að standa fastar fótunum gegn öllum málum sem upp væri borin. Sjálfstæðismenn yrðu ekki hrifnir vegna þess að Sigmundur er holdgerfingur Panamaskjalanna.  Ráðherrar Sjálfstæðisflokks hljóta að þakka æðri máttarvöldum sætin og undrast hvernig þau komust hjá afsögn.  Það er í þeirra óþökk að almenningur sé minntur á vorið og mótmælin.

Það er hins vegar að verða nokkuð ljóst að kosningar verða í haust alveg sama hvað menn sem ekki þekkja sinn vitjunartíma halda.  Það er ekki hægt að ráða annað á viðtölum við stjórnarþingmenn en að staðið verði við loforðið, með einhverjum undantekningum þó.

Það yrði vissulega skaði af því að núverandi valdhafar þekktu heldur ekki sinn vitjunartíma en það kemur að skuldadögum. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna hefur ekki verið yfir 40% síðan í desember 2014 samkvæmt MMR. Sama könnun sýnir samanlagt fylgi þeirra um 32%. Lífvera sem veit af yfirstandandi hættu berst um á hæl og hnakka fyrir lífi sínu. Stjórnmálaflokkar eru ekkert öðruvísi gagnvart valdi. Við þurfum held ég að anda með nefinu og einbeita okkur að því sem við gerum best: Bjóða valkost við ríkjandi aðferðir og sýna fólki af hverju það væri betri leið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni