Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Af hverju stutt kjörtímabil?

Píratar eru ekki eins máls flokkur eins og sjá má á málaskrá flokksins.  Fjölmargir þjóðfélagsrýnar hafa bent á þessa staðreynd og jafnvel hrifist af því að málefnavinnan skuli vera jafn vönduð og raun ber vitni.  Það er samt eitt málefni sem er nokkuð sameiginlegt og er það breyting á stjórnarskrá.  Stærsti ágreiningurinn snýst um hve mikið og hversu hratt eigi að ganga í verkið.  Þar eru tvær fylkingar sem takast á.  Allt-eða-ekkert hópurinn langar helst til að sjá eitt þingmál á næsta þingi, helst óbreytt frumvarp Stjórnlagaráðs með einhverjum smávægilegum breytingum og boða til kosninga svo hægt sé að staðfesta breytinguna.  Hinir vilja ná fram öllum þeim breytingum sem hægt er hverju sinni þó það þurfi að taka smærri skref í einu.

Ég hef séð hvað gerist í hugbúnaðarverkefnum þegar einhver fær þá hugmynd að besta leiðin til að leysa ágalla kerfa sé að endurskrifa þau.  Það er ekki lítil áhætta í því fólgin að reyna slíkt.  Ég þurfti sjálfur að vera talsmaður þess í verkefni sem mér var treyst fyrir, að taka nokkurra mannára vinnu og sturta henni niður vegna þess að ég sá ekki leið til að klára.  Mér var sagt að halda mér við verkið og gerði það.  Nokkrum vikum síðar var yfirmönnum farið að lengja eftir árangri og manni bætt við verkið sem á öðrum degi sinnar aðkomu sagði það sama og ég:  Þetta myndi aldrei klárast.  Okkur var svo falið að taka gamla kerfið og laga ágallana sem best við gátum.

Lög eru ekkert voðalega frábrugðin forritskóða.  Við erum með einhverja keyrsluvél (dómstóla) sem túlkar forritskóða (lög) á einhverjum fyrirspurnum eða tilfellum (mál).  Til er formlegt útgáfuferli (Alþingi til forseta í birtingu og gildistöku) sem ræður hvaða forrit (lög) keyrir hverju sinni (gild lög í landinu).  Alþingismenn eru ekki endilega í þeirri vinnu að skrifa lögin.  Þau koma oft frá ráðuneytum eða eru samin af fræðimönnum.  Alþingismenn eru frekar í gæðastjórnunareftirliti og gæti það kannski útskýrt að hluta af hverju þjóðþing eru almennt svona óvinsæl (allir sem hafa unnið við gæðastjórnun vita hvað allir innan fyrirtækisins eru ánægðir með störf þeirra /sarcasm).

Það er mantra innan kerfa sem unnin eru með aðferðarfræði opins hugbúnaðar (Open Source): "Release early - Release often", eða að haga útgáfu þannig að breytingar komist eins fljótt og mögulegt er og eins oft og mögulegt er til að kóði fái rýni sem víðast og sem fyrst.  Útgáfuferli stjórnarskrár er eins fjarri þessu og hugsast getur.  Ef flokkar velja að nýta allt umboð sitt til setu þá er tækifæri til breytinga á 4 ára fresti.  Þess vegna hefur verið erfitt að koma á lýðræðisumbótum þrátt fyrir mikinn vilja þjóðarinnar.

Til að breyta stjórnarskrá þarf samþykki tveggja þinga.  Það er mikilvægt að umbótaöflin lendi ekki í því sama og við sáum á seinasta kjörtímabili.  Þjóðin var þreytt á stjórnvöldum og tilbúin til að afhenda afturhaldinu taumana aftur.  Það myndi koma í veg fyrir að við kæmum þessum langþráðu breytingum í verk.

Í ljósi reynslu minnar af hugbúnaðargerð og pólitískum raunveruleika styð ég styttra kjörtímabil með örari "útgáfu" stjórnarskrárbreytinga.  Tökum á brýnustu ágöllum stjórnarskrár og gerum það í opnu ferli með þjóðinni.  Tökum okkur tvö ár til að koma þeim breytingum gegn um þingið.  Það væri sorgleg staða að hafa náð einhverjum árangri sem úrbótahreyfing og skilja síðan þjóðina eftir vopnlausa til að verja þann árangur sem næst.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni