Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Brexit og Trump - getum við sjálfum okkur um kennt?

Á fimmtudaginn, í kjölfar þess að úrslit lágu fyrir í forsetakosningunum í Bandaríkjnum, birtist í myndbandi á facebook skörp greining á niðurstöðunum á síðu fréttamannsins Jonathan Pie. Þetta er kannski besta skýring á kjöri Donald Trump - og Brexit og uppgangi þjóðernissinnaðra hærgriflokka í Evrópu og svo framvegis - sem ég hef séð. Þess vegna er svolítið svekkjandi að Jonathan Pie er ekki raunverulegur náungi heldur tilbúin persóna. Um leið er það svo brjálæðislega viðeigandi og klikkað að sá sem greinir ástandið best er djók!

Jonathan Pie er karekter sem skapaður var af leikaranum Tom Walker eftir að Jeremy Corbin var kjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi. Jonathan Pie hóf þá að birta hugleiðingar sínar um fjölmiðla- og samfélagsumræðuna, iðulega í  formi íronískra æsikasta sem umfjöllun fjölmiðla framkallaði þar sem allt er látið flakka umbúðalaust og ekkert dregið undan. Einsog í þessu kasti þar sem hann lætur gamminn geisa um ástæður kjörs Trump inn í Hvíta húsið. Og niðurstaða Pie er að líkindum ekki sú sem við, sem erum óánægð- já eiginlega bara óttaslegin yfir kjörinu, vildum heyra. En þó er held ég í orðum hans fólginn sorglega mikill sannleikur

Eftir því sem Pie deilir fleiri æsiköstum á samfélagsmiðlum virðast æ fleiri hallast að því að þessu gamni fylgi mikil alvara og brandararnir lýsi veruleika okkar og þróun hans vel. Við erum komin á þann stað í samfélagsumræðunni að bara grínisti getur tekist á við hana af alvarleika og án undanbragða. Það er galið en satt. 

Um það sem Pie segir hafa farið úrskeiðis hef ég reyndar talað oft og víða undanfarið - af fullkominni alvöru og án allrar léttúðar. Fyrir vikið hef ég verið kölluð landráðamaður, fyrir að gera mér of dælt við innflytjendur, útlendinga og fjölmenningu, og fasisti, fyrir að tala fyrir samræðu um mörk og gildi fjölmenningarsamfélagi - og allt þar á milli.

Sem betur fer hef ég þó aldrei lent í verulega rætnum eða ógnandi aðstæðum eða umræðum - mér hefur til dæmis til allrar lukku aldrei verið hótað lífláti eða líkamsmeðingum einsog sumir hafa mátt þola - og iðulega fer það svo að þegar tími gefst til einlægra skoðanaskipta, eiginlegrar samræðu, dregur saman með mér og þeim sem ég tala við, hversu ósamrýmanlegar sem skoðanir okkar virtust í upphafi, og í ljós kemur að við erum giska sammála um ansi margt þegar allt kemur til alls. Ekki allt - en ansi margt og nóg til þess að geta verið sammála um að vera ósammála um það sem á milli skilur án teljandi vandræða. Átakalínurnar reynast nefnilega iðulega langtum óskýrari en uppaflega virtist þegar til kastanna kemur.

En því miður eru þeir þó fjári margir sem eru ekki til í samræðuna, bara alls ekki til tals um að mögulega hafi "andstæðingurinn" eitthvað til síns máls, eða að viðhorf hans séu annað en tóm vitleysa sem ekki er svara verð. Bara dúndrað úr fallbyssunum - búmm, búmm! Þrætulist fremur en rökræður sumsé. 

Þetta er að verulegum hluta til ástæða þess að Trump komst í Hvíta húsið - einsog Jonathan Pie bendir á. Og það ætti ekki að koma okkur svo mjög á óvart ef við pælum í því vegna þess að ef valið stendur á milli þess að hörfa til baka inn í einsleit og einfaldari samfélög fortíðarinnar (sem er falskur vakostur, þrá eftir veröld sem var), þar sem fólki fannst það hafa vald,skilning og stjórn á aðstæðum í lífi sínu, eða láta áskoranirnar þróast áfram í aðstæður sem fólki þykja sífellt  meira ógnandi og óviðráðanlegar (hnattvæðing og marbreytileiki) - þá velur fólk auðvitað það sem það telur öruggt og þekkt fram yfir hið óþekkta og óörugga.  Það segir sig næstum því sjálft. Þannig er að vera manneskja - við veljum sjálf okkar og það sem er þekkt og öruggt fram yfir hina ókunnugu sem okkur stendur (raunveruleg eða ímynduð) ógn af. Þannig er það og hefur alltaf verið - og þess vegna ættum við hafa lært hversu mikilvægt það er að brúa bilið, efla skilning, samræðu og traust ef við ætlum að ráða við framtíðina. 

Ég get nefnt dæmi um hvernig ég upplifað þennan skort á samræðu og afdráttarleysi í skoðnum. Fyrir ári síðan sendi ég frá mérbók í kompaníi við vin minn, Ibrahem Faraj, sem er kom til Íslands sem hælisleitandi frá Líbíu árið 2002, trúaður múslimi og mikill sóma piltur. Bókin, sem er lífssaga Ibrahems, var hugsuð sem einskonar brúarsmíð sem hefði það að markmiðið að efla traust og skiling milli ólíkra hópa sem nú deila samfélagi á Íslandi. Margir hafa persónulega rætt um þessa bók við mig og þakkað fyrir hana. Mjög margir. En sagan fór þó líka, og jafnvel um leið, í taugarnar á mörgum í báðum herbúðum og fékk litla almenna umjöllun miðað við hversu brýnt viðfangsefni hún fjallar um; málefni hælisleitenda og flóttamanna, íslam í Evrópu og á Íslandi, radíkalíseringu ungra múslima í Evrópu, hryðjuverk, stríðið gegn hryðjuverkum, samtal milli menningarheima og svo framvegis.

Bókin fór, að því að mér er sagt, svolítið í taugarnar á öfgahægrinu og öfgavinstrinu af því  að sjónarmið beggja rúmast í sögunni að einhverju leyti. Hún er ekki annað hvort eða. Það er ekki svo að bókin hafi ekki fengið góðar viðtökur - alls ekki.Og við fengum líka tækifæri til að ræða hana nokkuð í fjölmiðlum. Þetta er ekki súr höfundur sem finnst hann sniðgenginn að tala hér því við fórum víða að kynna bókina og fengum hvarvetna glimrandi góðar móttökur. En hún vakti sáralitla samræðu, sem olli mér ákveðnum vonbrigðum, ég viðurkenni það. Og sumir viðurkenndu sumsé að þeir ættu í erfiðleikum með að ræða um hana fyrir opnum tjöldum því þeir voru ekki vissir hvoru megin hún félli og voru hikandi við að taka afstöðu þess vegna. Er hún málsvörn hægrisins? Eða staðfesting á mikilvægi viðhorfa vinstrisins? Í raun er svarið hvorugt - sagan er tilraun til brúarsmíði og hugsuð sem upphafspunktur samræðu sem víkur sér undan þessum merkmiðum. Bráðnauðsynlegt innleg í brýna samfélagsumræðu. 

Nokkrum mánuðum síðar kom svo út önnur bók sem fjallaði um svipað viðfangefni - múslima á Norðurlöndunum, fjölmenningu, hryðjuverk. Sú bók ber titilinn Þjóðarplágan Íslam og er eftir Hega Storhaug. Það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta hvoru megin hún fellur. Sú bók var talsvert til umfjöllunar, vakti mikla eftirtekt og fólk á samfélagsmiðlum á Íslandi áttu í litlum vanda með að staðsetja sig gagnvart henni - með eða á móti. Ég fékk reyndar sjálf góð tækifæri til að tala um þá bók og mína sýn á innihald hennar á RÚV - og er þakklát fyrir það. En það vakti mig samt til umhugsunar að þegar saga sem byggir brýr og er tilraun til sameiningar kemur út vekur hún lítil viðbrögð - þegar bók sem sundrar og meiðir kemur út hafa flestir skoðun á henni - án þess að hafa kafað á djúpið um innihaldið einsog þó er gerð tilraun til í bók okkar Ibrahems.. 

Sannleikurinn er auðvitað sá að veruleikinn er sjaldan klipptur og skorinn. Auðvitað eru flestir hælisleitendur og múslimar gott og almennilegt fólk einsog fólk er flest og auðvitað blasa fjölmargar áskoranir við þeim sem er að hefja nýtt líf við framandi aðstæður í samfélagi sem er að breytast hratt. Þetta þurfum við að kannast við og þora að ræða til að finna sameiginlegan útgangspunkt fyrir ólíka hópa og einstaklinga sem deila samfélagi - einsog samfélög hafa ekki beinlínis þekkst fyrr - og eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta.  

Í grundvallaratriðum rekur Jonathan Pie ástæðuna til þess að Trump var kjörinn forseti til þessa skorts á samræðu um flest brýnustu viðfangefni samtímans og allt of einfaldrar og afdráttarlausar afstöðu okkar sem tökum þátt í samfélagsumræðunni til stóru málanna. Í stað þess að tala saman ástundum við allt of mörg, bæði stjórnámlamenn og við óbreyttir þegnar í samfélaginu til hægri og vinstri, skotgrafahernað þar sem tvö afdráttalaus, já ég ætla að leyfa mér að kalla það öfgafull sjónarmið, takast á í hatrammri baráttu um athygli og fylgismenn, en nýtur takmarkaðrar skynsemi og yfirvegunar; öfgahægrið og öfgavinstrið. Og þeir sem brenna fyrir og hafa burði til að taka þátt í samræðu hætta sér ekki nógu margir út í hana af ótta við afleiðingarnar. Sér í lagi ekki þeir sem hafa vald til að þoka málum á dagskrá og halda þeim þar. Og valið stendur á milli "okkar" og öryggis eða "hinna" og upplausnar ætti ekki að koma neinum á óvart hvað fólk mun í auknum mæli velja. 

Við þetta bætist að "við" erum svo gjörn á að túlka allt sem kemur úr herbúðunum "hinna"  á versta veg og svörum herská og blint úr skotgröfunum - sem hraðar þróuninni. Slíkar upphrópanir snúast oft ekki bara um hugmyndir heldur persónur. Þannig urmæða er loftbóla sem springur framan í okkur. Hver sá sem opnar munninn og lætur út úr sér rangt orð, ranga hugmynd, ranga afstöðu, er umsvifalaust dæmdur óhæfur til samtals, heimskur, fáfróður og skotgrafirnar dýpka - eða tómlætið er í besta falli látið lýsa því hversu smánarleg hugmyndin og manneskjan sem hana hefur er . Kíkið á kommentakerfi safmélagsmiðlanna og þá áttið þið ykkur á því um hvað ég er að tala - ef þið gerið það ekki nú þegar.  Ég veit að við gerum þetta ekki öll alltaf - en þessar raddir eru háværastar í umræðunni hverju sinni. 

En sannleikurinn er sá að ef við öndum með nefinu, gefum okkur sjens og einsetjum okkur að ástunda samræðu, raunverulega, einlæga SAMræðu þar sem við treystum hvert öðru og stöndum undir trausti um að vera málefnaleg og kurteis, lútum rökum og leggjum okkur fram um að læra og skilja, frekar en grípa á lofti frasa eða órökstuddar staðhæfingar - loftbólur án innihalds sem springa framan í okkur - þá er bilið milli hugmynda okkar og þeirra sjónarhóla sem við horfum af oft ekki eins mikið og virðist í fyrstu. Þetta hef ég ítrekað reynt í samærðum við fólk. Og samræðan er það eina sem getur brúað bilið nóg til þess að við getum sammælst um að halda áfram yfir hyldýpið og byggja upp eitthvað gott og traustvekjandi - saman. Það er eina farsæla leiðin fram á við. 

Þess vegna er sorglega mikið til í því að við vinstrafólk getum að einhverju - jafnvel verulegu leyti - sjálfum okkur um kennt hvernig tilveran er að þróast.

It takes two to tango ............... 

Það er óþægilegt að skrifa þetta - og ég viðurkenni fúslega að í aðra röndina nenni ég tæplega að standa í mögulegum viðbrögðum við þessum pistli - tómlætið væri þó skömminni skárri en skotgrafahernaður. Og það sökkar örugglega líka að lesa þetta og ég er viss um að það er freistandi fyrir einhvern að varpa sér í skotgrafirnar. Stundum er óþægilegt að horfast í augu við sannleikann - sorrý en stundum eru klisjunar bara það eina sem dugar til að lýsa ástandinu.

Ég læt samt slag standa með þetta því sá tími er kominn að við verðum að horfast í augu við ruglið í okkur og temja okkur nógu mikla virðingu hvert fyrir öðru til að ryðja braut samræðunni sem miðar að skilningi fram yfir kappræðurnar og þrætulistina sem sífellt krefst heimsyfirráða eða dauða. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu