Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eitthvað dýrmætt um lífið

Í vikunni sem leið var ég í kaffiboði hjá fólki sem kom til Íslands fyrir innan við ári síðan sem flóttafólk og er hægt og bítandi að byggja sér nýja tilveru í nýju landi. Þau  nýta tækifærið sem þau fengu vel - eru einbeitt í því að læra sem mest en um leið svo flink að nýta grunninn úr sínu gamla lífi sem undirstöðu fyrir nýja tilveru á Íslandi. Þau hafa líklega aldrei leitt hugann að fræðum sem fjalla um gagnkvæma aðlögun og undirbúningurinn sem þau fengu fyrir kúvendinguna sem varð þegar þau stóðu uppi sem flóttafók vegna stríðsátaka í landinu sem þau höfðu aldrei ímyndað sér að þau myndu nokkurn tíma yfirgefa, var eðli málsins samkvæmt hvorki mikill né ítarlegur. 

En viðhorf þeirra og afstaða til tilverunnar gerir það að verkum að þau hafa búið sér forsendur til þess að nýta það besta úr nútíðinni á Íslandi, fortíðinni í Sýrlandi, lífinu sem í þeim býr og mótast af menningu, hefðum og sögu þjóðar í fjarlægum heimshluta, þeirri sáru reynslu sem þau hafa gengið í gegnum og treganum og sorginni sem óhjákvæmilega er hlutskipti þeirra sem glata öllu og neyðast til að leggja á flótta. 

Úr öllu þessu vefa þau listilega tilveru úr gömum og nýjum þráðum sem er þrátt fyrir allt full af hlýju, trausti, þakklæti - já og gleði og fegurð sem er einhvern vegin svo djúp og sönn. Þetta er fólk sem hefur reynt svo mikið, grátið svo mikið , misst svo mikið að gleðin verður stór og einlæg loksins þegar hún gefst. Ekki spennt og æpandi gleði - eru ekki allir í stuði? - einsog stundum vill vera hjá fólki einsog mér sem hef varla upplifað sárlega andstæðu gleðinnar. Þið vitið - stöðuga lífshættu, öllu sem þér er kærast er ógnaði, botnlausa sorg og missi- heldur mjúk og heilandi gleði þes sem hefur lært að meta hæglátan gang sjálfs lífsins og tilverunnar.

Lífið er auðvitað ekki einber dans á rósum fyrir þessa fjölskyldu þó hún hafi fengið skjól á Íslandi - en það er líf fullt af möguleikum, sem er ekki sjálfgefið. Þið fyrirgefið mér þessa hástemmdu lýsingar, þetta fólk bara snerti mig svo djúpt að ég get ekki lýst því án þess að grípa til skrúðmælgis.

Fyrir mig var þetta ekki bara heimsókn - þetta var upplifun og kennslustund í mennsku. Um hvernig manneskjur geta afborið hið óbærilega með reisn. 

Eins undarlega og það nú hjómar var það nefnilega beinlínis upplífgandi - hugljómand, heilandi - að setjast niður með þessu góða fólki og tala um erfiðleikana sem þau hafa lagt að baki (einsog aðstæður leyfa), tækifærin framundan og hvernig þau takast á við sitt nýja líf. Myrkur í skammdeginu? Ekkert mál - hér er stöðugt og ódýrt rafmagn og við kveikjum bara ljósin. Kuldi og rok? Ekkert mál - við bíðum það af okkur inni við og njótum þess að vera lifandi og örugg á meðan. Framandi tungumál og menning?  Ekkert mál - bros og vingjarnlegheit eru án tungumáls og landamæra og fólk á Íslandi brosir mikið og er mjög vingjarnlegt. Við munum læra málið með tíð og tíma. Auðvitað er margt öðruvísi hér en heima í Sýrlandi - en margt af því er skemmtilega öðruvísi og mjög áhugavert. Við höfum til dæmis verið dolfallinn yfir norðurljósunum undanfarna daga, þau sáum við aldrei heima í Sýrlandi.

Þar sem ég sat undir súð í huggulegri en fábrotinni stofunni þeirra að spjalla um lífið og tilveruna bar fjölskyldufaðirinn í mig alskonar krásir sem hann hafði framreitt í lilta eldhúsinu þeirra. Hafi ég einhverntíma borðað mat sem var eldaður með hjartanu var það þetta síðdegi. Hann sýndi mér stoltur að hann hafði fundið hráefni á Íslandi og spunnið áfram uppskriftir af uppáhaldsmatnum sínum frá Sýrlandi svo úr varð dásamlegur bræðingur íslenska og sýrlenska eldhússins. Þvílík veisla fyrir bragðlaukana mína! Heimagerð jógurt, heimagerður ostur, einhverskonar samblanda kotasælu og rjóma,nýbakað flatbrauð, smákökur sem minntu á vanilluhringina sem mamma bakar fyrir jólin nema þessar voru fylltar með pistasíum og döðlum, rjúkandi te og ilmandi kardimommikaffi. 

Það var bjart og slólríkt í stofunni og svipur og bros (það var mikið brosað) allra sem voru þarna samankomnir voru líka björt og hlý. Það var lífið sem leiddi okkur saman- fólk sem ef ekki væri fyrir stríð og hörmungar hefði verið bláókunnugt alla sína tíð - og þrátt fyrir þá dapurlegu atburði sem leiddu okkur saman í þessa risíbúð var eitthvað fallegt og gott við þessa stund.

Þessi andartök fannst mér ég læra eitthvað óendanlega dýrmætt um lífið, sjálft lífið. Eitthvað sem ekki er hægt að koma í orð í stuttum pistli - þetta var upplifun, tilfinning sem umbreytir og sýndi mér fram á að hvað sem gerist, hversu gjörsamlega sem tilvera manneskjunnar splundrast og hrynur, getum við byggt veröld okkar aftur á nýjum grunni fáum við til þess suðning. 

Efniviðurinn í þá byggingu er hjartarúm og mannúð og grunnurinn er lagður þegar fólk einsog ég og þú og þú og þú ákveðum að líf og erfiðleikar annarra komi okkur við.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu