Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Srákurinn sem er að anda úr sér manneskjunni

Fyrir fáum misserum skrifaði ég pistil um ákaflega indælan ungan mann sem ég hitti í strætóskýli - hælisleitanda frá Sómalíu sem var samferða mér í strætó einn rigningardag í sumar sem leið og deildi með mér sögum úr lífi sínu á leiðinni.

Unga manninn kallaði ég Mohammed, sem er ekki hans rétta nafn, og frásögn af þessum fyrstu kynnum okkar má lesa hér.

Það er eitthvað fallegt og hlýtt við Mohammed, hann hefur nærveru sem einhvernvegin varir löngu eftir að hann er kominn úr augsýn, ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa því öðruvísi. Ég finn til dæmis fyrir þessari nærveru þegar ég skrifa þetta núna þó hann sé órafjarri. 

 Það sem við ræddum í strætó rignardaginn sem við hittumst fyrst hefur svo oft leitað á hugann síðan. Mohammed hafði nefnilega áhyggjur af því að lífið - hlutskipti hælisleitandans sem hrekst um í leit að varanlegum samastað - myndi á endanum pressa úr honum manneskjuna. Breyta upplegginu, sem hann var bara giska ánægður með og einkennist af velvildi í garð annarra, elju við að bæta aðstæður sínar og lífskrafti sem hann er viss um að mun smám saman slokkna ef aðstæður hans breytast ekki. Sjálfur orðaði hann það svo að með hverjum andadrætti andaði hann meiri örvæntingu inn og agnarögn af því sem gerði hann að almennilegri manneskju út.  

Diskúsjónin sem við áttum í þegar við hittumst fyrst - og reyndar oft síðar - snerist um hvort það væri ekki varasamara að synja fólki einsog honum alstaðar um hæli en að veita því tækifæri til að byggja upp líf sitt í sátt og friði á nýjum stað meðan manneskjan í því væri svona meira og minna ósködduð og þokkalega vel fúnkerandi. Mohammed velti því mikið fyrir sér hversu lengi flóttafólk sem hrekst um veröldina án tækifæra og samfélags heldur sönsum. Hvenær glatar flóttamaður allri von og manneskjunni í sjálfum sér um leið? Og hvað gerist þá?

Ég veit ekki svarið við þeirri spurningu - en þetta samtal leitar svo sterkt á hugann núna því síðdegis fékk ég upplýsingar um að Mohammed hafði verið brottvísað til Ítalíu og þar væri hann á einhverskonar byrjunarreit eina ferðina enn. Aleinn og án stuðnings og ekkert í stöðunni einsog hún blasir við í dag annað en halda áfram að anda úr sér manneskjunni, hægt og sígandi.

Það finnst mér dapurlegt - það er svo mikið varið í þessa manneskju og Mohammed getur lagt svo margt gott til samfélags, fái hann tækifæri til. 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni