Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Vítahringur gagnkvæmrar andúðar

Fyrir stuttu var ég í kaffiboði hjá manneskju mér nákominni og einsog gengur spjölluðum við um daginn og veginn við eldhúsborðið. Það var í raun bara eitt sem skyggði á í samræðunni - hyldýpisgjáin á milli okkar þegar kemur að viðhorfum til listarinnar að lifa saman.

Þessi manneskja er nefnilega eindregin - mér liggur við að segja sjúklegur - andstæðingur fjölmenningar og flóttamanna. Skítt með það þó hennar eigin fjölskylda, þar á meðal maki, sé af erlendum uppruna - það er ekki það sama. Skítt með það þótt þeir útlendingar sem hún þekkir sé almennt ágætis fólk (eða að minnsta kosti bara einsog fólk er flest) - það er heldur ekki það sama. Sama og hvað? Ég hef ekki hugmynd um það!

Það er svo sem gott og blessað að hafa ólíka sýn og viðhorf, reyndar erum við ósammála um ýmislegt en það hefur ekki komið harkalega niður á okkar samskiptum þó stundum hafi verið tekist á yfir kaffibolla og randalínusneið. Ég var auvðitað sammála manneskjunni um að það er að mörgu að hyggja og áskoranirnar eru vissulega til staðar. Viðfangsefnið sem blasir við er ekki sáraeinfalt og listin að lifa saman um margt snúið listform. En það er með það einsog allt annað - með iðkun, ástundun og réttum meðulum má draga verulega úr áskorununum og stuðla að góðum samskiptum, gagnkvæmri virðingu og trausti. Ég veit að þetta er hægt - því ég hef oft átt í slíkum samskiptum, hef iðkað þessa hóplist með góðum árangir. En manneskjan var ekki sammála mér. 

Fávísi kjáninn

Það er einkum tvennt sem ég hef verið mjög hugsi yfir eftir þetta kaffiboð. Annars vegar óbilgjörn og einstrengingsleg afstaðan sem málflutningurinn gegn því sem ég hafði fram að færa hvíldi á. Ég er bara fávís kjáni og allt mitt starf (og reynslan sem ég dreg af því) með innflytjendum og flóttafólki byggt á misskilningi, trúgirni, fávísi eða heimsku. Jasso!! Svona getur maður nú vaðið í villu árum saman!

Fréttir er heldur ekkert að marka - því Rauði krossinn, sem er í bisness og græðir á því að moka hingað hælisleitendum og flóttafólki (uhh - nei!), og vinstri elítan, sem er hópur landráðamanna, stýra fréttaflutningi um fjölmenningu, flóttamenn og hælisleitendur og fegrar hann - nema Útvarp saga sem er eini fjölmiðilinn sem þorir að segja hlutina einsog þeir eru. Einmitt já! 

Ég veit að þessi manneskja er ekki ein um þessar skoðanir. Og auðvitað er margt sem við þurfum að ræða - en það verðum við að gera með opnum hug, reiðubúin til að hlusta á rök og taka þau til greina þegar við á.  Kannski eru fá viðfangsefni sem er mikilvægara að skoða í ljósi þess sem kalla má gagnrýnin samstaða - critical solidarity. Og samræðan verður auðvitað bara blaður út í loftið ef þeir sem hún snýst um, þeir sem lifa og hrærast í hinum fjölmenningarlega veruleika - til dæmis fólk einsog ég sem er ekki bara af erlendum uppruna sjálf heldur vinn allla daga með fólki af erlendum uppruna - er fyrirfram dæmt úr leik sem fávísir kjánar.

Öðruvísi verður ekki til nein SAMræða - samræðan þarna við eldhúsborðið var auðvitað bara tvær einræður með engan sameiginlegan útgagnspunkt. Líkurnar til þess að eitthvað gáfulegt kæmi út úr þessu voru álíka miklar og ef ég hefði setið í sjoppunni á Kópaskeri að tala og manneskjan í búðinni á Bíldudal. Þetta náði því ekki einu sinni að vera kappræða  - vegna þess að í kappræðu er að minnsta kosti verið að byggja á því sem viðmælandinn segir, þó það sé togað og teygt eftir behag. Þetta voru sumsé tvær einræður. Einsog all oft er þegar þetta umræðuefni er annars vegar. 

Mér leiddist þetta satt að segja - þangað til ég reiddist - þó það væri um margt merkileg stúdía að pæla í því hvernig það er mögulegt að hugsa eftir svona afdráttarlausum og blindum brautum sem leiðir lóðbent til niðurstöðunnar sem viðkomandi óttast mest. Þetta er viðhorf eða afstaða til samfélags sem uppfyllir sig á endanum sjálf. For-dómar af þessu tagi framkalla nefnilega það ástand sem við óttumst -  vítahringur gagnkvæmrar andúðar. 

Í sporum annarra

Hitt sem situr í mér eru nefnilega mín eigin viðbrögð og tilfinningar sem komu mér að nokkru leyti á óvart og voru - svo ég tali bara hreint út - ekki í stíl við það sem ég helst hefði viljað. Ég hefði viljað halda ró minni og yfirvegun, en gerði það ekki. 

Sjáið þið til - einmitt þennan dag beið ég tíðinda af öðrum manneskjum sem eru mér kærar og voru að leita leið til að komast út úr Sýrlandi með börnin sín- helst til  Íslandi þar sem þau eiga vini og fjölskyldu. Ungt fólk sem hefur verið tvístígandi um hvort þau ættu að yfirgefa Sýrland til þess að lifa sem einhverskonar "undermensch" í flóttamannabúðu í Líbanon eða Jórdaníu eða hvar sem er og ákvað lengi vel að þreyja þorrann í þeirri trú að ekkert vari að eilífu, ekki einu sinni sturlunarástandið í Sýrlandi - en hafa nú misst þá von. Þetta er fólk sem ég er í talsverðum samskiptum við og hef þannig horft inn um ofurlítinn glugga og séð inn í líf þeirra sem enn hafast við í Sýrlandi (hér spilar auðvitað líka inn í staða fólks á flótta almennt).  

Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá vildi ég stundum að ég hefði ekki þessar upplýsingar sem vinátta við þetta góða fólk (og aðra í svipaðri stöðu) veita. Það tekur oft á að vera þó ekki sé nema þessi ofurlitli þátttakandi í lífi þeirra. Væri ég það ekki  væri miklu auðveldara að snúa sér undan og láta einsog ástandið eða staða flóttafólks kæmi mér ekki við. Skrolla yfir myndbönd sem sýna dauðann og angistina í Aleppo,  trámatíseruð börn á illa búnum sjúkrahúsum sem hafa verið sprengd í loft upp að hluta eða fólk sem drukknar í draumnum um betra líf.

Auðvitað á mannréttindabarátta - hvort sem það er fyrir mannréttindum flóttafólks eða annarra hópa - ekki að byggja á tilfinningarökum eða persónulegum tengslum. Ekki eingöngu. En ég held að það sé óhjákvæmilegt að hún geri það í einhverjum mæli. Hún hlýtur alltaf að taka mið af raunverulegum manneskjum - persónum með sögur, drauma, vonir og möguleika. Öðruvisi skiljum við tæplega hversu mikið er í húfi. 

Í þessu tilviki er um að ræða fólk sem stendur mér nærri - fólk sem mér þykir vænt um. Þess vegna kemst ég ekki hjá því að setja mig í þeirra spor. Og ég var einmitt í þeirra sporum og nokkuð áhyggjufull þegar þessar einræður yfir randalínusneiðinni áttu sér stað. Og nú situr hún í mér reiðin sem blossaði upp heit og sterk, yfir fullkomnu skiliningsleyis, skeytingarleysi og yfirlæti manneskjunnar sem ég var að drekka kaffi með. Á einmitt þeirri stundu var líf fólks með kært í húfi - en mælikvarðinn sem manneskjan lagði á þessi líf var svo bjánalega léttvægur að það var bilað! Óþægileg uppákoma við mjólkurkælinn í Bónus þar sem útlendingar (Arabar) áttu í hlut, frekja nokkurra hælisleitenda einhverstaðar, kona með hijab, svört kona með þrjú lítil börn sem er á framfærslu sveitarfélags, útlendingur sem stal einhverju einhverstaðar, þjónn á kaffihúsi sem talaði ekki íslensku - og svo framvegis.

Þetta var - í huga manneskjunnar sem ég átti í "samræðu" við - nægileg réttlæting þess að fólkið sem ég beið frétta af, og sem er að reyna að tryggja börnum sínum framtíð og líf (og aðrir í sambærilegri eða verri stöðu) átti ekki að fá tækifæri til þess í Evrópu. Það væri jú leitt að ástandið er einsog það er, en ekki væri hægt að ætlast til þess að Evrópa axlaði þessa ábyrgð. Við höfum nóg með sjálf okkur.

Og svo var leitað frekari réttlætingar í alhæfingum út frá atvikum sem ég mun aldrei kalla léttvæg, en gagnrýni þó að séu notuð til að skilgreina alla flóttamenn og hælilsleitendur eða fjölmenningarverkefnið yfirleitt. Því það er einfaldlega hvorki sanngjörn né gagnleg greining á þeim áskorunum sem blasa við; hryðjuverk brjálæðinga, uppgangur íslamista ........ og svo framvegis. Með nokkrum sanni má segja að sá hryllingur sé afleðing hins afdráttarlausa málflutnings - ekki réttlæting hans. 

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki einfalt verkefni, en einföld og afdráttarlaus afstaða manneskjunnar sem ég drakk kaffi með er jafn varhugaverð, sennilega varhugaverðari, en að grundvalla afstöðu sína á mannúð og mennsku. Að sýna mannúð þýðir ekki að maður geri sér ekki grein fyrir áskorunum, að sýna mannúð er ekki að vera bláeygður kjáni, að sýna mannúð er ekki draga engin mörk í samfélagi. Að sýna mannúð er þvert á móti líklega það allra, allra skynsamlegasta sem við getum gert einmitt núna. 

Reiðin sem blossaði upp í mér þegar leið á einræðu viðmælenda míns við kaffiborðið var svo sterk og kröftug að eitt augnablik fannst mér ég vera að springa. Svo hjaðnaði hún næstum eins snögglega og hún blossaði upp og nú finnst mér satt að segja nær að vorkenna þeim sem hafa þessa takmörkuðu afstöðu vegna þess að þá skortir í einhverjum mæli það dýrmætasta sem manneskjur eiga og er mikilvægasta undirstaða alls sem við gerum: Samkennd, innsýn, skilining, mannúð. Það eina sem getur sameinað og tryggt okkur öryggi og frið þegar upp er staðið. 

Því fleiri sem búa yfir þessu dýrmæti - því líklegra er að okkur farnist vel og sigrumst á þeirri mjög svo raunverulegu ógn sem blasir við okkur öllum - vaxandi átökum um réttinn til að njóta þeirra grundvallarmannréttinda að lifa og búa við öryggi.  

Vítahringur gagnkvæmrar andúðar

Því ef ég funa upp í reiði við eldhúsborðið í mínu örugga lífi á Íslandi getið þið rétt ímyndað ykkur hvernig unga fólkinu frá Sýrlandi,sem er nú á óvissu ferðalagi á leið til Evrópu, mun líða þegar þau mæta þessu viðhorfi í stað mannúðarinnar sem þau reiða sig á og líf þeirra veltur á. Og allir þeir sem þegar hafa mætt því. Þau trúa því að Evrópa sé staður þar sem mannúð og mannvirðing allra sé virt - nóg tölum við nú um hugsjónir einsog mannréttindi og lýðræði á tyllidögum! Það er því þyngra en tárum tekur að hugsa til þess að það er allt of líklegt að þau munu glata þeirri trú fljótt á leiðinni. Og þau eru hvorki þau fyrstu né síðustu til að upplifa þessi vonbrigði. Þau munu að líkindum á endanum bregðast við einsog ég - af reiði og örvæntingu. Sem síðan leiðir mögulega til andúðar. Og lái þeim hver sem vill. 

Þannig viðhelst og eflist vítahrigur gagnkvæmrar andúðar og átaka sem getur aðeins endað með ósköpum að öllu óbreyttu. Er það þetta sem við viljum? Eða getum við fundið leið sem eykur líkurnar til þess að við vinnum saman og náum árangri? 

Má ég biðja ykkur um að hugsa um þetta - og taka svo þá afstöðu sem þið teljið réttasta? 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu