Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eitthvað magnað og mikilvægt er að gerast!

Reglulega hef ég kvartað yfir því að á Íslandi sé almennt of lítil áhersla lögð á það sem ég kalla listina að lifa saman - að finna punktinn í íslenskri tilveru þar sem alls konar og ólíkir einstaklingar hefja samstarf og einlæga samræðu um hvernig við getum öll búið í sem mestri sátt og borið virðingu hvert fyrir öðru - óháð uppruna, litarhætti, trúar- og lífsskoðunum eða öðrum tilfallandi eiginleikum sem skilgreina okkur sem manneskjur. 

Hvernig við getum talað um og unnið með fjölbreytileikann með örðum og uppbyggilegri aðferðum en að magna ótta og einblína á það sem er ólíkt og sundrar okkur frekar en það sem sameinir og nærir traust manna á milli. Og þannig látið fjölbreytileikann vinna með okkur frekar en á móti. 

Auðvitað eiga manneskjur alltaf svo margt og mikilvægt sameiginlegt þó þær séu ekki sammála um alla hluti, hagi sér ekki allar eins, líti ekki allar eins út og eigi ekki allar uppruna sinn í túninu heima hjá mér. Og auðvitað er miklum mun skynsamlegra að vinna saman en gegn hvert öðru. 

En núna er loksins tilefni til bjartsýni - það er einhver gerjun í gangi! Vítt og breytt um samfélagið er fólk að taka listina að lifa saman upp á sína arma og hrinda af stað verkefnum sem hafa það að markmiði að auka skilning, innsýn og samkennd - finna þennan punkt í íslenskri tilveru þar sem við getum mæst og byggt eitthvað mikilvægt á. 

Alls konar fólk í alls konar stöðum; einstaklingar, félagsamtök, listafólk, gamalgrónar stofnanir ........ bara alls konar aðilar með alls konar hugmyndir sem eiga það sameiginelgt að leggja áherslu á að búa til vettvang fyrir samvinnu og samtal (og í kjölfarið vonandi traust og vináttu) milli alls konar einstaklinga sem deila samfélagi. 

Þetta eru spennandi tímar sem lofa góðu - þrátt fyrir allt og allt. 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni